

Stefán Pálsson, sagnfræðingur, varaborgarfulltrúi Vinstri Grænna og stjórnmálaskýrandi er maður margra áhugamála. Hann er dyggur knattspyrnuaðdáandi og heldur með Fram hér heima. Hann var í sigurliði Menntaskólans í Reykjavík í Gettu betur árið 1995, síðan liðsstjóri til margra ára áður en hann færði sig hinu megin við borðið og gerðist spurningahöfundur og dómari árin 2004 og 2005. Hann hefur einnig starfað sem spurningahöfundur og dómari í Útsvari og Spurningakeppni fjölmiðlanna.
Stefán er einnig aðdáandi víski og bjórs, hefur skrifað bækur þar um og starfaði við Bjórskóla Ölgerðarinnar. Stefán situr í stjórn Samtaka hernaðarandstæðinga.
Eiginkona Stefáns er Steinunn Þóra Árnadóttir, fyrrum þingkona Vinstri hreyfingarinnar og eiga þau tvo syni.
Stefán er einnig mikill áhugamaður um bækur, sérstaklega teiknimyndasögur, sem hann safnar og fjallar reglulega um í færslum á Facebook. Stefán er lesandi DV.
Ég er alltaf með nokkrar bækur í einu á náttborðinu, mismunandi að þyngd og efni. Saga Landsvirkjunar er búin að vera þarna lengi, en hún er svo þung og ómeðfærileg að það hentar illa til kvöldlestra. Ég er nýbyrjaður á Síðasta formanninum, sem Seðlabankastjórinn var að senda frá sér um forfeður sína vestur á Ströndum og líst vel á. Yfirleitt er ég með eina bók um fótbolta í takinu og núna er það margverðlaunað verk: States of Play: How Sportswashing took over Football eftir Miguel Delaney. Þar er dregin upp ansi ljót mynd af því hvernig knattspyrnuíþróttin er komin í krumlurnar á einræðisstjórnum og risafyrirtækjum. Og svo hef ég alltaf einhverjar teiknimyndasögur upp á að hlaupa.



Ég les minna af erlendum skáldsögum en ég myndi vilja. Breski rithöfundurinn Kate Atkinson er hins vegar í uppáhaldi og ég er nýlega búinn að klára nýjustu bók hennar, Death at the Sign of the Rook, sem er reyfari um einkaspæjarann Jackson Brodie sem hún hefur skrifað nokkrar bækur um. Mæli með þessum bókum sem einkennast af húmor og ímyndunarafli. Silfuröld revíunnar eftir Unu Margréti Jónsdóttur er magnað verk sem rekur sögu gamansöngleikja á Íslandi, þetta er framhald af fyrri bók sem fjallaði um revíur frá fyrri hluta og um miðja síðustu öld en núna er haldið til nútímans allt frá Jónasi og Jóni Múla Árnasonum til Spaugstofunnar. Falinn demantur! – Og svo renndi ég mér í gegnum glænýja íslenska þýðingu á myndasögunni um Ástrík á Korsíku. Ég fagna því mjög að eldhuginn í Froski útgáfu haldi sínu striki og gefi út gömlu klassísku myndasögurnar sem maður ólst upp við sem barn.

Það er afar fágætt að ég gefist alveg upp á að lesa bók, þótt stundum eigi maður það til að fletta hratt í gegnum lokakaflana. Auðvitað hef ég margoft lent í því að bækur stóðu ekki undir væntingum, einkum erlendar bækur sem maður pantar kannski á grunni mjög almennra og stundum villandi lýsinga á netinu og hefur ekki möguleika á að skoða í búðinni – en ég geri mér líka grein fyrir því að oft er maður ekki að dæma bækurnar á grunni þess sem höfundurinn gerir eða vildi gera, heldur hvað manni finnst sjálfum að hann hefði átt að gera, sem er augljóslega ekki mjög sanngjarnt.
Mikið af minni vinnu kallar á bóklestur svo ég les á öllum tímum dagsins. Lestur fyrir svefninn er nauðsyn nema maður skríði þeim mun síðar í bælið – en ég get alveg legið og lesið á morgnanna líka. Reyndar er ein ástæða þess að ég les ekki meira af reyfurum og öðrum skáldsögum sú að ég á svo erfitt með að stoppa og skyndilega eru heilu dagarnir eða næturnar farin í súginn.
Þetta er löngu fyrir mitt minni, en byggt á sæmilegum líkindareikningi hefur þetta líklega verið hinn ofurhversdagslegi og leiðinlegi Tumi eða hin öllu skemmtilegri og fjörlegri Emma öfugsnúna. Reyndar kveinka foreldrar mínir sér ennþá yfir því að hafa í sífellu verið beðin um að lesa um ævintýri Rasmusar Klumps sem þau fengu grænar bólur af.

Ef út kemur bók sem mig blóðlangar til að lesa þá kaupi ég hana yfirleitt strax í stað þess að bíða til jóla eða álíka. Ég er samt ekki enn búinn að næla mér í Lákarímur Bjarka Karlssonar sem ég held að verði mikil skemmtilesning.

Það er sjaldgæft að ég lesi bók oftar en tvisvar. Það er helst að það gildi um einhver af klassísku verkum Þórbergs Þórðarsonar eða Djöflaeyju Einars Kárasonar. Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson var afar minnisstæð bók og af nýrri verkum nefni ég Farsótt eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur sem er frábært sagnfræðirit.

Ég missi helst ekki af bók eftir Sigrúnu Pálsdóttur og Þórunni Valdimarsdóttur.