

Pistlar Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðings, betur þekkt sem Ragga nagli, sem skrifaðir eru á mannamáli njóta mikilla vinsælda á Facebook-síðu hennar. Í þeim nýjasta fjallar Ragga um breytingaskeið karlmanna, sem hún segir marga telja að sé enn meira tabú að ræða en breytingaskeið kvenna.
„En ef það er tabú að tala um breytingaskeið kvenna, prófaðu að impra á lægra testósteróni hjá körlum og horfðu á alla í kring krumpast, svitna og roðna með krullaða efri vör.
Upp úr fertugu byrjar testósterón að lækka hjá karlpeningnum um 1-3% á hverju ári. Um það bil 10-25% karlmanna eru með of lágt testósterón,. Eðlilegt magn hjá karlmönnum er frá 300-1000 nanógrömm per desiliter Undir 300 ng/dL telst vera lágt testósterón.“
Telur Ragga upp einkennin sem eru fjölmörg:
„Ef þú elsku karl ert oft þreyttur og orkulaus, einbeitningin úti á túni með rollunum, Grjótpirraður af engri ástæðu, eða dapur og reynir að fela það til að vera harður spaði. Sefur eins og spörfugl og vaknar jafnvel rennandi blautur um miðja nótt.
Æfir eins og berserkur en vöðvarnir láta ekki sjá sig, og fitan situr þrjóskari en sauðkindin á ástarhandföngunum og júllunum.
Hefur engan áhuga á húllumhæi í bólinu, og ert oftar lítill í þér með lítið sjálfstraust.
Þá gæti testó vinur vors og blóma verið miður sín í maskínunni.“
Ragga segir því mikilvægt fyrir karlmenn á aldrinum 45 – 50 ára að fara og láta mæla í sér testósterónið til að sjá hvort þurfi að bústa það upp. Sumir fá plástra, gel eða pillur eða testósprautur hjá lækninum.
„Það ber þó að hafa í huga að testósterónmeðferð er ekki með öllu áhættulaus. Það þarf að gera meiri rannsóknir á þessu sviði, en meðferð getur aukið líkur á krabbameini í brjóstum og blöðruhálsi sem og hjartaáföllum og blóðtappa.“

Ragga segir hægt að margt fyrst til að dúndra upp testósteróninu með lífsstílsþáttum eins og svefni, mataræði, hreyfingu og bætiefnum.
„Járnrífingar eru eina æfingaformið sem keyrir náttúrulega upp testósterón.
Inn koma hnébeygjur og réttstöðulyfta eins og riddarar á hvítum hesti til að bjarga prinsinum, sem í þessu tilfelli er orðinn miðaldra, gráhærður með nokkrar hrukkur.
Því fleiri vöðvar sem líkaminn þarf að kalla á vakt til að framkvæma ákveðna hreyfingu, því háværari krafa um vöðvabyggjandi viðbragð. Til þess að byggja upp kjöt á grindina og viðhalda vöðvamassa þarf hormónabúskap eins og hjá unglingi.
Rannsókn sem skoðaði hvaða hreyfing losar mest af testósteróni í blóð eftir á leiddi í ljós að hnébeygja með stöng trónir þar efst á toppnum og réttstöðulyftan nartar í hælana. Sem þýðir að í kjölfar viðskipta okkar við stálið þarf testósterón að dúndrast upp í öllum kynjum, og hormónabúskapur í mun betra jafnvægi.“
Ragga kemur einnig með ábendingar um góðar æfingar:
„Það sem virðist keyra Testósterónið allra mest upp er að lyfta þungt, en þungt er afstætt við styrk hvers og eins.
Miðaðu við 3-4 sett af 4-6 þungum endurtekningum með góðri hvíld á milli setta.
Hnébeygju, réttstöðulyftu, bekkpressu, axlapressu og upphífingum.
Þolæfingar á hárri ákefð í stuttan tíma eins og lotuþjálfun (HIIT), sprengiþjálfun (Plyometrics) og TABATA sem nýta hvítu loftfirrðu vöðvaþræðina ættu að koma í staðinn fyrir æfingar á lágri ákefð í langan tíma sem nýta smærri rauðu súrefnisþræðina. Hvítir vöðvaþræðir eru þeir sem ákvarða stærð og styrk vöðvanna.“
Líkt og hjá öllum þá skiptir gríðarlega miklu máli hjá karlmönnum á breytingaskeiðinu því testósterón maskínan er í gangi á nóttunni eins og prentvélarnar hjá Mogganum að sögn Röggu.
„Þegar hraustir 25 ára karlmenn voru sviptir svefni niður í fimm tíma á nóttu lækkaði testósterónið í líkamanum um 10-15 % á bara einni viku. Svo það er karlmennskutákn að fara snemma að sofa. Þegar breytingaskeiðið mætir á svæðið upp úr fertugu fer svefninn oft enn lengra ofan í tojlettið. Karlmenn geta líka fengið hitaköst á nóttunni eins og Nixon í viðtali um Watergate. Tileinkaðu þér góða rútínu fyrir svefn, engir skjáir og dimmt og ískalt svefnherbergi.“

„Aðrir lífsstílsþættir sem skipta miklu máli eru að viðhalda kjörþyngd því lágt testósterón tengist bæði að vera of grannur og borða undir eða orkuþörf eða of feitur því hormónar í fitufrumunum geta hindrað testósterónframleiðslu með því að auka estrógenmagnið.
Forðast áfengi og tóbak, og minnka streitu því kortisól hefur áhrif á testósterónframleiðslu.
Hvað þú lætur ofan í mallakút er því ákveðin matvæli eru haukur í horni fyrir testósterónframleiðslu.
Lágt Testó er ekki endalok æskuljómans og upphaf ellikellingar.
Þú getur verið algjör spaði, fitt og í formi með hormónabúskap eins og unglingur með réttum verkfærum í kistunni.“