

Ísbirnir segir frá Dagbjörtu, konu á fertugsaldri sem býr í Urriðaholti ásamt eiginmanni sínum og ungum syni. Dag einn kemur Dagbjört hvorki að sækja son sinn í pössun til tengdamóður sinnar né skilar hún sér heim. Næsta dag finnst bíllinn hennar nálægt Grindavík. Innkaupapokarnir eru óhreyfðir í framsætinu og ekkert spyrst til Dagbjartar.
Sama dag fer fram þingsetning í Reykjavík. Tíminn er óvenjulegur því eftir stjórnarslit hafði verið boðað til kosninga í nóvember. Það eru mótmæli við Austurvöll og á leið sinni frá Dómkirkju að Alþingishúsinu verða tveir þingmenn fyrir óvæntri árás. Ung kona sem er nýkjörin á þing og eldri maður með mikla þingreynslu verða fyrir grjótkasti.
Þessi mál eiga eftir að vefja verulega mikið upp á sig og teygja anga sína vítt og breitt um þjóðfélagið.
Ísbirnir er níunda bók Sólveigar Pálsdóttur og lögregluteymi bókarinnar vel þekkt úr fyrri bókum en Ísbirnir er sjálfstætt framhald. Breska útgáfufyrirtækið Corylus hefur þegar tryggt sér útgáfurétt bókarinnar í Bretlandi en bókin verður sú fimmta úr smiðju Sólveigar sem kemur út þar í landi. Nýverið var útgáfuréttur af bókum hennar einnig seldur til Tékklands.
Sólveig hlaut Blóðdropann, hin íslensku glæpasagnaverðlaun, fyrir bók sína Fjötrar. Sama ár var hún útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness, fyrst rithöfunda.

Ísbirnir byrjar á hvarfi Dagbjartar ungrar, glæsilegrar eiginkonu og móður ungs drengs, konu sem er með mikinn hóp fylgjenda á samfélagsmiðlum. Dagbjört er útivinnandi í litlu fyrirtæki sem hjón eiga og ákvað að nýta tímann eftir vinnu til að sinna innkaupum og fleira, í stað þess að sækja son sinn á leikskólann. Tengdamóðir hennar ákvað að leysa af á vaktinni.
Þegar Dagbjört skilar sér ekki heim hringir eiginmaður hennar áhyggjufullur í lögregluna og lögregluteymið Guðgeir og Guðrún hefja rannsókn málsins. Bíll Dagbjartar finnst yfirgefinn við Grindavíkurveg, en þar hefur jörð skolfið um langa hríð íbúum bæjarins til mikils ama. Guðgeir og Guðrún velta því upp hvort Dagbjört hafi tekið eigið líf eða hvort yfirmenn hennar beri ábyrgð á hvarfi hennar. Stuttu seinna finnst lík við veginn, en þá er sagan aðeins rétt að hefjast.
Í Ísbirnir vinnur Sólveig með málefni samtímans: samfélagsmiðlastjörnur og fylgjendur þeirra, álagið á foreldra á öllum vöktunum sem á þeim hvíla allan liðlangan daginn, jarðhræringar á Reykjanesi, þingmenn, málefni innflytjenda og aðbúnað, og óróann sem kraumar undir niðri í samfélaginu.
Auk þess að vinna við krefjandi rannsókn mannshvarfs glímir lögregluteymið við eigin vandamál í einkalífinu og er persónusköpun Sólveigar raunsæ og nær höfundur að tvinna einkamál lögregluteymisins vel við aðalsöguþráðinn, mannshvarf Dagbjartar og eftirmála þess. Lögreglan er einnig undir stöðugri gagnrýni almennings vegna vinnu sinnar og eru samfélagsmiðlar nýttir óspart til að koma höggi á.
Sólveig nær að flétta aðalsöguna og hliðarsögurnar saman með spennandi hætti og skrifa sögu sem lesandinn tengir við samtímann og málefni hans og þýtur í gegnum með sama hraða og lögreglan vinnur að rannsókn sinni. Hér má engan tíma missa!
Ísbirnir er hörkuspennandi krimmi um samtímamálefni, bók sem heldur manni í heljargreipum þar til lestri lýkur.