

Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari.
„Konur missa sprengikraft hraðar með aldri en karlar, því við höfum lægra hlutfall af hvítu vöðvaþráðunum sem eru fyrir kraft og styrk. Þess vegna getur verið gott að skrúfa upp í ákefðinni í þolæfingum og hoppa og hamast í styttri tíma,“ segir hún og útskýrir nánar:
„Sprengiæfingar (plyometrics) eru æfingar sem stuðla að meiri krafti, hraða og snerpu og henta öllum, en passa sérstaklega konum yfir fertugt eins og flís við rass. Sprengiæfingar bæta insúlínnæmi svo glúkósinn treðst inn í vöðvafrumurnar þar sem þú þarft að nota hann í staðinn fyrir að liggja bara í leti í fitugeymslunni þar sem hann er engum til gagns. Sprengiæfingar líkjast lyftingum því þetta eru æfingar með þyngd, oft bara eigin þyngd en stundum aukaþyngd með lóð, stangir, plötu eða bara bakpoka. Þessar æfingar geta því bætt beinþéttni og dregið úr hættu á beinþynningu í konum. Þær stuðla líka að auknum vöðvamassa og krefjast betri líkamsvitundar og jafnvægis sem dregur verulega úr hættu á falli og meiðslum eftir því sem árin færast yfir.“
Hún tekur dæmi um nokkrar æfingar, en þetta þarf alls ekki að vera flókið. 15 til 60 sekúndna keyrsla með 45 til 120 sekúndna hvíld á milli.
„Hvaða hreyfing sem felur í sér stutt snörp átök blífa dúndur flott. Það má spretta úr spori í lotuþjálfun og nota hvaða maskínu sem er.
Hlaupabretti. Ski erg. Skíðavél. Róðravél. Hjól. Sund. Brekkusprettir. Jafnvel labbar eins og með sinnep í rassinum og svo hægara labb á milli. Allar konur geta gert spretti ef staurarnir virka.Það má stíga uppá kassa. Það má hoppa niður af kassa. Hoppa á staðnum. Hoppa upp á lítinn pall. Sippa eins og vindurinn. Djöflast með kaðla. Dúndra bolta í gólf eða upp við vegg. Sveifla bjöllu. Burpees með eða án hopps. Möguleikarnir eru endalausir.“