OnlyFans-stjarnan McKinley Richardson giftist YouTube-prakkaranum Jack Doherty fyrir tæpu ári. Hjónabandið var skammlíft, en því lauk í maí á þessu ári. McKinley opnar sig um ástarsambandið stormasama í hlaðvarpi þar sem hún lætur allt flakka.
McKinley er 22 ára og hún og Doherty giftu sig í hvatvísi í Las Vegas í fyrra. Doherty er þekktur fyrir að sýna fylgjendum sínum frá lífi sínu í beinni útsendingu og brúðkaupið var engin undantekning. McKinley segir að ástarsambandið hafi verið dásanlegt í upphafi. Doherty hafi verið algjör herramaður. En fljótt fór að halla undan fæti.
Doherty fór að gera galnar kröfur til eiginkonunnar strax eftir að þau höfðu játast hvoru öðru. Hann tilkynnti fylgjendum sínum í beinni útsendingu frá brúðkaupinu að „sú stutta fær algjörlega ekkert þegar ég skil við hana, jafnvel þó ég hafi haldið framhjá. Ef hún heldur framhjá mér þá sjálfkrafa skuldar hún mér 10 milljónir dala. Ég fæ líka 100 prósent tekna hennar frá OnlyFans héðan í frá, jafnvel ef við skiljum.“
Þessi orð voru hans brúðkaupsheit. Mörgum þótti þetta niðurlægjandi framkoma í garð McKinley og fylgjendur hans vissu ekki hvort þetta var sagt í gríni eða alvöru. McKinley segir þó að Doherty hafi verið dauðans alvara.
Síðar varð McKinley ófrísk. Hann hafi ekki verið spenntur fyrir föðurhlutverkinu en hann varð spenntur af tilhugsuninni um að geta notað óléttuna og seinna barnið í skemmtiefni fyrir fylgjendur sína. Eins hafi hann orðið spenntur fyrir því valdi sem hann fengi yfir McKinley með barni, hún væri þá föst með hann til frambúðar alveg sama hvernig færi fyrir hjónabandi þeirra. McKinley gat ekki ímyndað sér að eignast barn við slíkar aðstæður og tók þá erfiðu ákvörðun að gangast undir þungunarrof.
„Hann sagði að ég væri föst. Hann tók fram að enginn annar myndi vilja mig ef ég væri þunguð af barni hans.“
Þau skildu að borði og sæng í maí á þessu ári og McKinley flutti út. Hún deildi hjónabandserfiðleikunum með vinkonum sínum fyrr eftir skilnaðinn. Vinkona hennar var með henni í hlaðvarpinu og sagðist hafa orðið miður sín þegar hún frétti af eitruðu sambandi hjónanna.
„Mér varð óglatt. Hún var ekki bara að ganga í gegnum erfið sambandsslit. Hún gekk í gegnum tilfinningalegt ofbeldi.“
Doherty hefur ekki vakið mikla athygli íslenskra fjölmiðla en hann rataði þó hingað í Fókus í október á síðasta ári eftir að hann lenti í bílslysi í beinni útsendingu. Hafði hann þá vakið reiði með skeytingarleysi sínu í garð farþega síns sem hafði slasast, en Doherty var meira umhugað um tjónið sem bíll hans varð fyrir.