Ég get skipt lífinu upp í þrjá kafla.
Fyrir, eftir og ferðalagið þar á milli.
Þegar Lilja Ósk flækir fæturna í hundabúri í miðju matarboði og dettur á höfuðið er hún sannfærð um að hún muni jafna sig fljótt og örugglega, enda hefur hún hvorki tíma né þolinmæði til annars. Raunin verður þó önnur. Hvað tekur kona til bragðs sem týnir sjálfri sér? Hvenær ætli heimsins besti dagur í helvíti komi?
Hrá, einlæg, átakanleg og á köflum fyndin frásögn af því hvernig lífið getur breyst á einu andartaki.
Þannig er bókinni Heimsins besti dagur í helvíti eftir Lilju Ósk Snorradóttur lýst á bókarkápu.
Lilju Ósk Snorradóttur var líklega réttilega lýst árið 2021 sem hinni fullkomnu ofurkonu. Hún er kvikmyndaframleiðandi og eigandi Pegasus, gift æskuástinni og þriggja barna móðir. Eins og Lilja Ósk lýsir sjálf í fyrsta kafla bókarinnar þá átti vinnan hug hennar og hjarta, og hún tók hana ekki meðvitað yfir fjölskylduna, en allt of oft var vinnan númer 1, 2 og 3, og jafnvel 4.
Slys í páskaboði hjá tengdaforeldrum hennar þar sem stórfjölskyldan var viðstödd átti eftir að breyta lífi hennar svo um munaði, en samt urðu fáir varir við það. Drífandi athafnakonan sem hún var ætlaði Lilja Ósk að húrra öllum krökkunum í eftirrétt, þegar hún flækti annan fótinn í opinni hurð á hundabúri og skall með andlitið á steinflísar. Segist hún enn muna hvernig brothljóðið frá nefinu skar í gegnum höfuðið.
Lilja Ósk gerði ráð fyrir að jafna sig fljótt og vel og snúa sem fyrst aftur til vinnu. Annað kom á daginn og lýsir bókin þriggja ára ferli hennar í leit að bættir heilsu, bæði hér heima og erlendis. Lilja Ósk vildi að sjálfsögðu að bataferlið gerði hana að sömu konunni og hún var fyrir slysið en annað kom á daginn.
Bókin Heimsins besti dagur í helvíti er skrifuð upp úr dagbókarfærslum sem Lilja Ósk hélt þessi þrjú ár samkvæmt ráðleggingum læknis.
Slysið sem breytti lífi Lilju Óskar gæti hafa verið kómískt atriði í kvikmynd hennar Leynilöggan, sem Lilja Ósk og hennar teymi frumsýndi hér heima og erlendis hálfu ári eftir að slysið varð. Segist hún lítið muna eftir þessu tímabili.
Við lestur bókarinnar fannst mér ég alveg sjá hvernig týpa Lilja Ósk er þrátt fyrir að hafa aldrei hitt eða talað við hana. Svona ekkert-kjaftæði-kona. Bókin er hispurslaus þar sem Lilja Ósk leggur allt á borðið sem gerðist þessi þrjú ár, hvernig úthverfa vinamarga konan einangraði sig og aðeins örfáir vissu af veikindum hennar, bráðfyndin eins og frásögnin með töskuna erlendis og hugljúf og hreinskilin eins og frásögnin þegar hún leitar eiginmanninn uppi.
Ég má einnig til með að hrósa bókarkápunni sem er sú fallegasta til þessa í snemmbúnu jólabókaflóði. Kápan sem er eftir Bylgju Rún Svansdóttur er með gylltum þráðum yfir kápna, sem minnir á hina japönsku nægjusemi og nýtni, þar sem Japanir laga það sem brotnar með því að líma það saman og setja gull á samskeytin, en þetta er kallað kintsugi. Hlutunum er ekki fleygt, þeir laga og sjá fegurðina í því að brotið átti sér stað.
Við manneskjurnar mættum endilega muna það oftar að þrátt fyrir að við brotnum, beygjum af og breytumst, þá erum við ekki ónýt, heldur aðeins breyttur einstaklingur sem enn er gulls ígildi.
Útgefandi: Salka, 2025
Innbundin: 208 bls.