Bókin Norðanvindurinn eftir Alexandria Warwick er nýkomin út í íslenskri þýðingu. Bókin er sú fyrsta af fjórum í bókaflokknum Four Winds og hafa bækurnar slegið í gegn víða um heim. Á Goodreads bókavefnum er Norðanvindurinn vinsælasta bók Warwick, sem hefur alls skrifað átta bækur.
Warwick, sem er búsett í Florida í Bandaríkjunum, er menntuð í klassískum fiðluleik og ver miklum tíma sínum í að spila, þess á milli skrifar hún bækur.
Norðanvindurinn er dystópísk fantasía með krydduðu, ástarsögulegu ívafi. Byggð á mótífum úr Fríðu og dýrinu og goðsögninni um Hades og Persefónu. Lífsbarátta Músu frá Jaðarskógi hefur verið erfið. Foreldrar hennar létust þegar hún var unglingur og hún þurfti að annast tvíburasystur sína og sjá til þess að þær lifðu af harðan og eilífan veturinn. Ef eitthvað er að marka þjóðsöguna er hins vegar stutt í að þær systur eigi í engin skjól að venda.
Í þrjú hundruð ár hefur landið umhverfis Jaðarskóg verið í kuldaklóm og sífellt dregur úr mætti Skuggans – þessa töfrum vædda tálma sem verndar bæjarbúa frá Dauðalöndum sem liggja handan hans. Það eina sem styrkir Skuggann er blóð úr mennskri eiginkonu Norðanvindsins, þeim hættulega og ódauðlega guði sem sagt er að sé með jafn freðið hjarta og hitastigið sem einkennir konungsríki hans. Og nú er sá tími kominn að hann velji sér nýja brúður.
Þegar Norðanvindurinn lítur systur Músu augum í fyrsta sinn veit Músa eitt: Hún mun gera allt til að bjarga lífi systur sinnar jafnvel þótt hún þurfi að fórna lífi sínu. Músa er þannig gerð að hún gefst ekki svo auðveldlega upp.
Hér fyrir neðan má lesa brot úr kafla 2 í Norðanvindinum:
Þegar Norðanvindurinn er boðinn velkominn er haldin heljarinnar veisla honum til heiðurs. Samkvæmt kenningunni á að bera fram ýmiss konar góðgæti og marga rétti, eins og það að vera valin til fórnarinnar og nauðug flutt til Dauðalanda sé ástæða til þess að blása til veislu. Raunin er sú að Jaðarskógur verður sífellt snauðari, ár frá ári. Ekkert grær í frosinni jörðinni. Allt búfé er fallið að frátöldum örfáum horuðum geitum.
Af þessari ástæðu eru þessi veisluhöld varla nokkuð til að tala um. Jaðarskógur býr ekki svo vel að þar sé gríðarstór veislusalur til að taka á móti konunginum, enginn spenagrís steiktur á teini er á boðstólum, né fjölbreytt úrval af ýmiss konar kjöti og bökuðu rótargrænmeti. Þess í stað er berjum af sígrænum trjám safnað og þau hökkuð svo úr verður sýrukennd sósa, blóðrauð að lit. Svo er boðið upp á súpu: saltað vatn með gömlum kryddjurtum. Kjötið – kannski gömul geit – er eitthvað það ógeðslegasta sem ég hef augum barið á minni ævi.
Ég vona að kóngurinn kafni á slíkum kjötbita.
Vel getur verið að honum líki alls ekki veisluföngin en hann er ekki hingað kominn til þess að belgja sig út af mat. Konurnar sjö sem drógu stuttu eldspýturnar eru allar mjög fallegar og vel til hafðar. Þær hafa safnast saman á bæjarskrifstofunni þar sem langborðum hefur verið stillt upp fyrir kvöldverðinn. Þær eru í sínu fínasta pússi: ullarkjólum sem teknir eru saman í mittið; hárið þvegið, greitt og fléttað; langir og þykkir sokkar og gamlir spariskór. Þær hafa borið olíur og lituð krem í vindbarin andlitin. Ég brosi kaldhæðnislega. Það væri ekki svona auðvelt að fela örið mitt.
„Hvernig lít ég út?“
Ég sný mér við um leið og ég heyri rödd Elóru. Hún er í bláum kjól sem nær niður fyrir hné. Ég saumaði hann fyrir mörgum árum á grannan líkama hennar. Svartir sokkarnir draga fram granna og þokkafulla fótleggina. Löng, svört augnhárin fela að hún er döpur. Rósamunnurinn kippist til af ótta.
Þrátt fyrir að ég reyni að stilla rödd mína tekst það ekki betur en svo að ég hljóma eins og kráka þegar ég segi: „Eins og mamma.“
Þegar hún heyrir þetta fyllast augu hennar tárum. Elóra kinkar kolli, einu sinni.
Því lengur sem ég stari á systur mína finn ég betur hvernig maginn kreppist allur saman. Hann á eftir að taka hana. Hún er alltof falleg til þess að vekja ekki áhuga hjá honum.
Milla, miðaldra kona sem veit ekkert skemmtilegra en að segja kjaftasögur, fyrir utan kannski að halda fram hjá manninum sínum, kemur út úr eldhúsinu með tvær viðarkönnur. Augun eru blóðhlaupin og kinnarnar rauðar – hún er í uppnámi. Elsta dóttir hennar er ein af þessum sjö. „Glösin,“ segir hún hranalega við mig.
Ég fylli glösin af vatni. Hendur mínar skjálfa, þessir aumu svikarar. Konurnar sitja í hnipri úti í horni eins og þær séu dádýrahjörð í miklum kulda. Þögn. Hvað er svo sem hægt að segja? Að þessari máltíð lokinni verður ein þessara kvenna fyrir valinu og sú kona á ekki eftir að snúa aftur heim til sín.
Yngsta barn Millu er tólf ára strákur. Hann kveikir á luktunum. Handan við lokaða gluggana safnast bæjarbúar saman á torginu og bíða þess að konungurinn sjálfur mæti. Síðasta heimsókn hans var fyrir þrjátíu árum, áður en við systurnar fæddumst. Þá tók hann konu með sér sem hét Adda og fór með hana yfir Skuggann. Hún var bara 18 ára.
Þegar ég slétti úr ójöfnum á hvítum borðdúknum heyri ég það – hófadynur færist nær.
Konurnar færa sig nær hver annarri og læsa handleggjum saman. Engin þeirra segir eitt einasta orð. Svo virðist sem þær séu þar að auki hættar að anda. Elóra horfir í augun á mér yfir salinn.
Ég gæti gert það. Tekið í hönd systur minnar, hlaupið í gegnum eldhúsið og vonast til þess að snjórinn feli skóförin okkar svo að bæjarbúar geti ekki fundið Elóru og tekið hana af lífi.
„Farið á ykkar stað,“ hvæsir Milla og bendir konunum að setjast við borðið. Hávaði fyllir salinn – stólar eru færðir og það er hvíslað og síðan þessir ógnvænlegu hófaskell-skell-skellir sem færast sífellt nær og nær.
Ég er nánast komin upp að Elóru þegar Milla grípur í handlegginn á mér. Ég finn til undan nöglunum sem grafast djúpt í holdið. Ég get ekki losnað undan gripi hennar. „Slepptu mér!“
„Það er of seint,“ segir hún móð og másandi. Lokkar af grásprengdu hári hennar liggja á hringlaga, svitastorknu andlitinu. Hrukkurnar í kringum munninn dýpka.
„Það er ekki of seint. Lánaðu okkur hestinn þinn. Ég tek dóttur þína með okkur––“
Fótatak.
Milla ýtir mér harkalega út í horn um leið og útidyrnar opnast. Lamirnar veina eins og illa sært dýr. Konurnar sem sitja við borðið hrökkva við og hörfa ofan í stólana þegar kaldur gustur frá útidyrunum skellur á þeim, um leið slokknar á helmingnum af luktunum og salurinn verður skyndilega nánast almyrkvaður. Ég frýs þar sem ég stend með bakið upp við vegginn, munnurinn verður alveg þurr.
Á dyratröppunum stendur hávaxin vera, svartleit í skugganum. Konungurinn sjálfur, skikkjuklæddur, hetta yfir höfðinu. Aleinn.
Hann þarf að beygja sig til að reka sig ekki í loftið því húsin eru byggð þannig að loftið liggur skáhallt til þess að varðveita betur hitann. Þegar hann réttir úr sér nemur hvirfillinn við loft, myrkir lokkar liðast undan hettunni. Björt augun ljóma í andlitinu.
Vesalings Milla gengur í átt til hans. Lamandi óttinn hefur gert andlit hennar krítarhvítt. „Yðar hátign?“
Hann lyftir hendinni. Einhver tekur andköf.
En hann tekur einungis hettuna af höfðinu og í ljós kemur ásýnd þvílíkrar þjakandi fegurðar að ég get bara horft á hann í stutta stund áður en ég neyðist til að líta undan. Samt er ég nánast samstundis farin að horfa á hann aftur, eins og tilneydd til að skoða hann nánar.
Andlit hans virðist mótað úr mjólkursteini. Dauf lýsingin frá luktunum lýsir upp slétt ennið, há kinnbeinin og beint nefið og þessa kjálkalínu sem virtist meitluð úr gleri. Og munnurinn … jæja. Ég held að ég hafi aldrei séð kvenlegri munn á neinum karlmanni. Hrafnsvart hárið, sem tekið er saman í stutt tagl í hnakkanum, drekkur í sig ljósið. Leiftrandi jökulísblá augun glóa með taugatrekkjandi ákefð.
Ég gríp hníf sem liggur á borðinu. Ég þori ekki að draga andann. Ég er heldur ekki viss um að ég geti það, miðað við kringumstæður. Vetrarkonungurinn er sú allra fegursta vera sem ég hef nokkurn tíma séð en um leið líka sú grimmasta. Ég tek á mínum stóra til þess að falla ekki í þá freistingu að reka hnífinn í hjarta hans. Ef hann er þá með hjarta.
Hann tekur annað skref inn í salinn og konurnar brölta á fætur. Vetrarkonungurinn hefur enn ekki sagt eitt aukatekið orð. Hann þarf þess ekki. Hann hefur alla athygli kvennanna og mína. Við höfum verið að búa okkur undir þessa stund.
Þegar hann brettir upp efri vörina má lesa af köldum svipnum að honum finnst honum ekki nógu vel fagnað. Þröngir, svartir hanskar úr mjúku leðri hylja hendur hans. Breiðar axlirnar teygja á þungu efninu í skikkjunni. Þegar hann tekur hana af sér kemur í ljós aðskorinn jakki með háum kraga, á litinn eins og regnvatn, með silfurhnöppum í beinni línu upp að kraganum sem liggur þétt upp við hálsinn. Hann er í svörtum hnébuxum og leðurstígvélum. Rýtingur hangir úr beltinu.
Ég tek eftir að hægri hönd hans heldur utan um millikafla á spjóti með steinoddi. Ég er alveg viss um að spjótið var ekki þarna rétt áðan. Andartaki síðar tekur hann höndina af millikaflanum og margar konurnar andvarpa af létti.
Ég slaka á takinu á hnífnum og læt hann falla á gólfið. Við hávaðann bregður Millu og hún tekur til sinna ráða. Hún býðst til að taka skikkjuna hans og hengir upp á snaga, síðan dregur hún fram stól við enda borðsins. Stólfæturnir skrapa gólfið og Vetrarkonungurinn fær sér sæti.
Konurnar fá sér einnig sæti.
„Velkominn til Jaðarskógar, yðar hátign,“ segir Milla lágt. Hún veitir skyndilega konunni sem situr honum á hægri hönd athygli – það er dóttir hennar. Konurnar höfðu dregið spýtur til þess að ákveða hvaða óheppna sál myndi sitja næst honum við borðið. Sem betur fer situr Elóra við hinn enda borðsins.
„Við vonum svo sannarlega að þú eigir eftir að njóta þessarar máltíðar sem við höfum tilreitt.“ Konungurinn lítur yfir borðið en virðist ekki hrifinn.
„Því miður hefur hér orðið uppskerubrestur á undanförnum árum.“
Það sem hún á við er að uppskeran var engin.
„Súpan er alveg sérstök––“
Hann lyftir hendinni en segir ekkert og rödd Millu deyr út, kjálkinn skelfur þegar hún kyngir munnvatni. Þá virðist hann ákveða að nóg sé komið.
Þetta er lengsta og erfiðasta kvöldverðarboð sem nokkru sinni hefur farið fram. Það klingir í glösum þegar við Milla fyllum á þau og komum með hreinar munnþurrkur. Enginn segir eitt einasta orð. Ég get skilið það af hálfu kvennanna; engin þeirra vill að athygli konungsins beinist að sér. Hins vegar hefur gestur okkar enga afsökun. Getur hann ekki skilið að við erum að bjóða fram þann litla mat sem við eigum? Samt ekki eitt þakklætisorð.
Elóra snertir varla mat sinn. Hún er niðurlút yfir disknum í þeirri viðleitni að virðast minni – ég ráðlagði henni það – en hún kemst ekki hjá því að Vetrarkonungurinn veiti henni athygli. Því aftur og aftur ljómar hann allur upp þegar hann lítur á hana.
Smám saman fer úr mér allur kjarkur. Þegar álagið virðist vera að sprengja lungun flý ég inn í eldhúsið og leita að vasapelanum sem hangir í beltinu og fæ mér almennilegan sopa. Vínið framkallar bruna í augunum sem er eins og frelsandi björgun. Við hefðum átt að flýja þegar við höfðum tækifæri til þess. Núna er það orðið of seint.
Ég dreg djúpt að mér andann og geng aftur inn í salinn. Meðan kvöldverðinum vindur fram helli ég víni í glösin. Konurnar svolgra það í sig, glas eftir glas og rauðir droparnir lita varir þeirra og heitar kinnarnar roðna hressilega. Ég finn fyrir hrikalegri þörf í hálsinum. Þegar kvöldverðurinn er svona hálfnaður er vasapelinn orðinn tómur.
Vetrarkonungurinn snertir varla vínið. Sem er eins gott. Ég hef nákvæmlega enga lyst á því að þjóna honum, í hvaða formi sem er, nema helst að sýna honum hvar útidyrnar eru.
Því miður er Milla ekki sama sinnis. „Líkar yðar hátign ekki vínið?“
Umhyggjusemi hennar gerir það að verkum að mér verður óglatt. Ég er viss um að hún heldur að ef hún er almennileg við hann muni hann velja einhverja aðra en dóttur hennar.
Hann svarar með því að bera djúprauðan drykkinn að vörum sínum og tæmir glasið og horfir frekar áhugalaus yfir glasbrúnina og yfir salinn. Það er eins og ljósblik sé í sjáöldrum hans frekar en að það speglist þar.
Núna þarf ég að þjóna honum. Ég geng upp að Vetrarkonunginum og byrja að fylla glasið hans. Við það rekst hann í handlegginn á mér og vínið skvettist í kjöltu hans.
Blóðið í æðunum frýs.
Vetrarkonungurinn lítur hægt og rólega af stórum flekknum sem breiðist hratt út um kjöltu hans og á flöskuna sem ég held enn þá á og að lokum á mig. Úr fölbláum augum hans skín heldjúpur kuldi sem lendir á örinu á kinninni. Fyrir löngu hef ég misst alla tilfinningu í þessari gömlu og þykku húð en ég get svarið að ég finn augnaráð hans stingast í örið eins og líkamlega snertingu.
„Biddu konunginn afsökunar á stundinni!“ skipar Milla skrækri röddu.
Hvaða máli skiptir smá lögg af víni í samanburði við heilt mannslíf?
Nei, ég held að ég haldi afsökunarbeiðninni fyrir mig. Ég get ekki ímyndað mér að hún sé einhvers virði í hans augum hvort sem er. „Bara ef hann biðst afsökunar á því að ræna konunum okkar.“
Einhver tekur andköf. Konungurinn grannskoðar mig eins og ég sé einhver bráð. Honum ferst!
„Yðar hátign, ég biðst auðmjúklega afsökunar á þessari hræðilegu framkomu hennar …“
Hann lyftir hendi, fingurnir eru langir, athygli hans er öll á mér. Milla þagnar.
„Hvað heitirðu?“
Valdatitill hans nær meira að segja til raddarinnar, sem er djúp og þrungin ógnarlegum skorti á tilfinningu.
Þegar ég svara ekki fara konurnar að ókyrrast í sætum sínum. Hitastigið hríðfellur þrátt fyrir að eldurinn snarki í arninum. Vel getur verið að Norðanvindurinn sé guð en ég ætla ekki að gefa mig. Ég fell þá með sjálfsvirðingu.
„Nú, já.“ Hann trommar með fingurgómunum á borðið.
„Músa, yðar hátign! Hún heitir Músa!“ Elóra beygir sig fram í stólnum og fingurnir ríghalda í stólarmana. Kyrkingsleg andvörp fylgja þessu upphrópi hennar.
Ég gnísti tönnum af reiði um leið og maginn virðist skreppa saman. Þetta er einmitt það sem ég hef haft áhyggjur af, að góðmennska Elóru eigi eftir að draga athygli konungsins að henni. Ef bara ég hefði ekki látið tilfinningarnar hlaupa með mig í gönur hefði verið hægt að forða þessu.
„Músa,“ segir hann. Ég hef aldrei heyrt nafnið mitt sagt svo fallega. „Eins og söngfuglinn.“
Það er engir söngfuglar á Grásléttu. Þeir eru allir dauðir eða flognir á braut.
Eftir að hafa skoðað andlit mitt drykklanga stund lítur hann á Elóru. Mig langar að klóra augun úr honum fyrir að horfa svona græðgislega á hana. „Þið eruð á margan hátt líkar.“
„Já, yðar hátign, það er rétt.“ Elóra lýtur höfði í virðingarskyni. Ég hefði getað löðrungað hana fyrir það. „Við erum systur. Við erum eineggja tvíburar. Ég heiti Elóra.“
Hann hallar höfðinu á frekar undarlega hátt meðan hann ber útlit okkar saman. Ég er nokkuð viss um að honum finnst ekki mikið til mín koma.
„Stattu upp,“ skipar hann.
Um leið og Elóra stendur upp segi ég: „Sittu!“
Hún stendur kyrr og heldur sér í borðbrúnina. Hún horfir ýmist á mig eða Vetrarkonunginn. Milla virðist vera að líða út af.
Í samandregnum og dimmum augasteinum konungsins flöktir ljós. Í einu vetfangi stendur hann á fætur. Mér bregður. Ég get ímyndað mér að enginn hafi nokkru sinni mótmælt skipunum hans. Enginn hefur verið svo vitlaus hingað til.
„Komdu,“ segir hann þrumandi röddu og Elóra flýtir sér til hans, auðmjúk og huglaus. Að verða vitni að þessum ósigri særir hjarta mitt djúpu sári. Hvernig dirfist hann? Við erum ekki þrælar. Við erum fólk með hjartslátt og andardrátt og eigum líf sem við höfum náð að njóta hér í þessari bölvuðu, ísilögðu tilveru.
Um leið og Elóra kemur til hans lyftir hann höku hennar með einum fingri og segir: „Þú, Elóra frá Jaðarskógi, hefur verið valin og þú munt þjóna mér þar til lífi þínu lýkur.“