Sophie Hutchens, umboðsmaður og besta vinkona Caitlyn Jennar, lést í hörmulegu slysi síðastliðinn miðvikudag, aðeins 29 ára að aldri. Hutchens er sögð hafa lent í árekstri við bíl á fjórhjóli sem hún sat og í kjölfarið kastast fram af háum klettum við heimili Caitlyn í Malibu í Kaliforníu. Ekki liggur fyrir hvort Caitlyn varð vitni að atvikinu eða ekki.
Sophie, sem var trans kona líkt og Jenner, tók við sem umboðsmaður Caitlyn skömmu eftir skilnaðinn við Kris Jenner árið 2015. Með þeim tókst náin vinátta en Sophie sagði Caitlyn vera sína helstu fyrirmynd og ástæðu þess að hún þorði að koma út úr skápnum og hefja kynleiðréttingaferli sitt á sínum tíma.
Þær þvertóku hins vegar fyrir það að eitthvað meira væri á milli þeirra en vinátta og faglegt samstarf.
Sophie var eins og hluti af fjölskyldu Caitlyn og var sérstaklega náin dætrum hennar, Kardashian-systrunum. Þá brá henni fyrir í fjölmörgum raunveruleikaþáttum sem tengjast fjölskyldunni heimsfrægu.