fbpx
Laugardagur 12.október 2024
Fókus

„Það er því kannski ekki skrítið að þessi hópur leitar sér oft aðstoðar lýtalækna til að „laga” útlit sitt“

Fókus
Föstudaginn 13. september 2024 11:29

Ásmundur Gunnarson. Mynd/Freepik

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásmundur Gunnarsson, sálfræðingur við Kvíðaklíníkina, segir að áherslur á útlit séu orðnar gríðarlegar í nútímasamfélagi. Hann segir að þó það sé eðlilegt að fólk hafi einhverjar áhyggjur af útliti sínu þá séu áhyggjurnar stundum svo miklar að það hafi hamlandi áhrif á líf viðkomandi. Sumir forðast að fara út úr húsi og verja miklum tíma að reyna að „laga“ útlitið og „fela“ það. Hann segir að þetta fólk sé ekki hégómagjarnt og „of upptekið af eigin útliti“ heldur sé það að glíma við sálrænan vanda og þurfi aðstoð.

„Áherslur á útlit í nútímasamfélagi eru gríðarlegar. Alls staðar sjáum við fólk sem lítur „fullkomlega“ út. Í þáttum, bíómyndum, tímaritum og – kannski hvað mest – á samfélagsmiðlum. Skilaboðin um mikilvægi útlits og að fegurð (sem er auðvitað staðlað og einsleitt fyrirbæri!) muni færa okkur hamingju, velgengni og aðdáun eru stanslaus og alltumlykjandi – og alltaf með sama undirtóninn; að í fegurð felist virði, sátt og samþykki,“ skrifar hann í pistli á Vísi.

Hann segir að þessi hugmynd um fullkomið útlit, að engar hrukkur, fellingar, bólur eða önnur ummerki um ófullkomnun megi sjást, og þannig sé hægt að upplifa hamingju, sé mikið áhyggjuefni.

„Ég er samt alls ekki að segja að útlit eigi ekki að skipta máli. Það er mjög eðlilegt og heilbrigt að huga að útlitinu í einhverjum mæli,“ segir hann.

Byrjar að trufla daglegt líf

En það getur orðið vandamál ef fólk hefur of miklar áhyggjur af útliti sínu, svo miklar að það verður hamlandi.

„Stundum gerist það – og líklega í meiri mæli nú en áður – að neikvæðar hugsanir tengdar útliti verða það miklar og ákafar að þær byrja að trufla fólk í daglegu lífi. Nýleg rannsókn í Bretlandi benti til að mynda til þess að einn af hverjum þremur unglingum og fimm fullorðnum skammast sín fyrir útlit sitt,“ segir Ásmundur.

„Í sumum tilvikum byrja áhyggjur að herja á fólk í marga klukkutíma á dag og geta þær orðið eins konar þráhyggja sem leyfir fáu öðru að komast að. Þessi þráhyggja getur snúið að öllu mögulegu – líkamslögun, húð, nefi, hári og svo mætti endalaust telja – og reynir alltaf að sannfæra fólk um það sama: að það líti hræðilega út og því verði hafnað, ekki samþykkt eða útskúfað vegna þess. Þessu ástandi fylgir eðlilega mikill og hamlandi kvíði en ekki síður skömm.“

Ásmundur segir að þegar áhyggjur verði svona miklar og sannfærandi sé skiljanlegt að fólk byrji að verja miklum tíma, oft mörgum klukkustundum á dag, í að reyna að laga það sem það er ósátt með. Eins og að kroppa bólur, klippa hár og verja miklum tíma í ræktinni, eða að fela það, eins og með klæðaburði og snyrtivörum.

Hann segir þetta fólk forðist gjarnan aðstæður þar sem athyglin beinist að þeim, eins og augnsamband, björt ljós, sundlaugar, samskipti og myndatökur.

„Spegillinn verður versti óvinur fólks og festist það tímunum saman í að einblína og grandskoða með ofuráherslu á það sem það er óánægt með – eða byrjar að forðast spegla alfarið,“ segir hann.

„Margir reyna að lifa eðlilegu lífi, mæta til vinnu og sinna samskiptum, en ná aldrei almennilega að gleyma sér í því sem skiptir þau máli. Fólk verður gríðarlega meðvitað um sig, hvernig það lítur út og hvort aðrir séu að horfa á sig og dæma. Ljóskastarinn beinist sífellt meira inn á við. Á endanum byrja sumir að forðast að mæta til vinnu, sinna samskiptum og daglegu lífi, sannfært um að vandinn snúist um útlitið þeirra og þau geti ekki látið sjá sig. Það er því kannski ekki skrítið að þessu hópur leitar sér oft aðstoðar lýtalækna til að „laga” útlit sitt.“

„Sú hegðun virðist bara gera hlutina verri“

Ásmundur segir að kannski snúist vandinn ekki um útlitið og hafi aldrei gert það, þó að fólki líði þannig.

„Þó fólk upplifi það og sjái það jafnvel með eigin augum! Því til stuðnings getur einstaklingur sem er heltekinn af áhyggjum af útliti átt eineggja tvíburabróður – sem lítur nákvæmlega eins út – sem er sáttur með útlitið sitt og lifir lífi sem stýrist ekki af áhyggjum af því. Þetta snýst nefnilega um upplifun og þá sérstaklega þá líkamsímynd sem við höfum af okkur og rannsóknir sýna að á meðal okkar allra er ákveðið ósamræmi á milli líkamsímyndar okkar og þess hvernig við lítum í raun út. Stundum verður þetta misræmi mjög mikið – og fólk upplifir að það líti hræðilega út á meðan allir í kringum það sjá (og jafnvel segja) hið gagnstæða,“ segir hann.

„Það sem er öllu mikilvægara er að þegar fólk upplifir útlit sitt á þennan hátt byrjar það að einblína meira á það, verja meiri tíma í að laga það, fela það eða forðast aðstæður. En sú hegðun virðist bara gera hlutina verri. Oft líða árin og  markvissar tilraunir til þess að draga úr útlitstengdum áhyggjum með því að forðast, fela okkur og laga útlitið, virðast hafa gagnstæð áhrif. Áhyggjur aukast, líðan versnar og líkamsímynd brenglast enn meira. Lausnin er orðin að vandanum og fólk festist í vítahring sem það veit ekki hvernig á að komast út úr.“

Líkamsskynjunarröskun

Fólk sem upplifir þetta glímir við líkamsskynjunarröskun (e. body dysmorphic disorder).

„Þessi röskun hrjáir 1-2% fólks á hverjum tímapunkti – jafnt konur sem karla – og getur verið mjög hamlandi eins og að ofan er lýst. Hún er því miður falin í samfélaginu, sökum þess að fólk skammast sín gríðarlega fyrir að vera svona upptekið af útliti sínu og upplifir sig hégómafullt. Þessi hópur er líka ólíklegri til að leita sér aðstoðar því það trúir því að vandinn snúist um útlitið en ekki kvíða.“

Að lokum hvetur Ásmundur fólk til að leita sér hjálpar ef það tengir við þennan vítahring.

„Ef þú tengir við þennan vítahring eða finnst eins og áhyggjur af útliti séu að valda þér mikilli vanlíðan og jafnvel farnar að stýra lífi þínu á einhvern hátt, hvet ég þig til opna á þá kenningu að kannski eigi þjáningar þínar sér sálfræðilegar en ekki útlitslegar skýringar og í framhaldinu leita þér viðeigandi aðstoðar hjá fagaðila. Rannsóknir sýna að með hugrænni atferlismeðferð sem er sérstaklega sniðin að líkamskynjunarröskun má ná sérlega góðum árangri.“

Lestu pistilinn hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Er fjölskyldan með leyniorð? – Það bjargaði lífi 10 ára stúlku

Er fjölskyldan með leyniorð? – Það bjargaði lífi 10 ára stúlku
Fókus
Fyrir 4 dögum

Einkaþjálfarinn leysir frá skjóðunni – Æfingarnar fimm sem halda Ivönku Trump í hörkuformi

Einkaþjálfarinn leysir frá skjóðunni – Æfingarnar fimm sem halda Ivönku Trump í hörkuformi