fbpx
Sunnudagur 16.júní 2024
Fókus

Keyrðu um Madagaskar á mótorfákum og létu gott af sér leiða – „Ef einhver lyfti framdekkinu klikkaðist þorpið“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 26. maí 2024 09:00

Ferðin tók þrjár viku og var ævintýri sem seint gleymist. Myndir/aðsendar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mývetningurinn Anton Freyr Birgisson er nýkominn heim úr draumaferð lífs síns þar sem hann keyrði um eyjuna Madagaskar í tíu manna mótorhjólateymi. Ferðin var ekki aðeins gerð til skemmtunar heldur einnig til þess að hjálpa fátæku fólki í einni afskekktustu byggð heims. En Anton og félagar fóru með drykkjarvatnssíur til þorpa sem sjaldan eru í miklum tengslum við umheiminn.

Anton segir landslagið ótrúlegt og frumstætt eins og myndirnar sem fylgja þessu viðtali sína. En minnisstæðast var hið glaðlynda, opna og þakkláta fólk sem þeir kynntust á þriggja vikna akstri.

„Það er ekki hægt að undirbúa sig undir menningarsjokkið. Aðbúnaðurinn og aðstæðurnar eru svo langt langt frá þeim raunveruleika sem við eigum að venjast. En það komu brosandi krakkar á móti okkur hvert sem við fórum,“ segir Anton.

Gamall draumur

Anton er leiðsögumaður sem rekur og á í tveimur ferðaþjónustufyrirtækjum á Norðurlandi, Geo Travel og Saga Travel. Einkum með snjósleðaferðir, ævintýraferðir og fleira í þeim dúr. Hann hefur alla tíð verið á einhvers konar vélhjólum og man eftir því að að hafa dreymt um það sem krakki að ferðast um heiminn á mótorhjóli.

Anton segir krakkana hafa verið mjög spennta þegar hópurinn kom í þorpið. Mynd/aðsend

„Ég eignaðist fyrst skellinöðru og keppti svo á enduro hjólum þegar maður var ungur og vitlaus. Ég hef alltaf átt mótorhjól,“ segir Anton.

Rakst á auglýsingu

Það gerðist svo fyrir um einu og hálfu ári síðan að hann sá auglýsingu á samfélagsmiðlum frá alþjóðlegum vélhjólasamtökum sem kallast Freshline moto. Var verið að auglýsa eftir vélhjólamönnum til að fara í leiðangra til afskekktustu staða heimsins og láta gott af sér leiða í leiðinni. Anton sendi inn umsókn og var valinn til að fara í ferð til Madagaskar.

„Þetta var tíu manna hópur og allir með sín hlutverk,“ segir Anton. Í ferðinni eru leiðangursstjóri, aðstoðarleiðangursstjóri, einhver sem er sérhæfður í viðgerðum, annar í túlkun, þriðji í öryggismálum og svo framvegis. Anton var valinn vegna þess að hann hefur langa reynslu af því að rata og bjarga sér í óbyggðum. „Það þarf að velja hópinn vel og menn þurfa að vera rétt skrúfaðir þannig að ef skíturinn fer í viftuna haldi menn kúlinu og eru rólegir í erfiðum aðstæðum,“ segir hann.

Landslagið, dýralífið og veðráttan er fjölbreytt á Madagaskar. Mynd/aðsend

Í ferðum Freshline er enginn leiðsögumaður og enginn í hópnum má hafa farið inn á svæðið áður. Menn verða að bjarga sér sjálfir.

Skítugt drykkjarvatn

En eins og áður segir snúast ferðirnar ekki aðeins um eigin velferð heldur verður hópurinn að gera gagn á þeim stað sem farið er til. Hvað svo sem það nú er.

„Í hverjum leiðangri fær hópurinn það verkefni að láta gott af sér leiða á einn eða annan hátt. Það er undir hverjum leiðangri komið að finna leiðir til að gera það. Það er mjög mismunandi hvað er hægt að gera á hverjum stað,“ segir Anton. „Við fórum að hugsa hvað tíu manna hópur á mótorhjólum gætum gert í Madagaskar, sem er gríðarlega fátækt land. Hugmyndin kom upphaflega frá mönnunum sem leigðu okkur hjólin. Þeir sögðu að mörg af þorpunum eiga við það að etja að drykkjarvatnið þeirra er mjög bakteríusmitað og veikindi eru algeng, salmonella og fleiri sjúkdómar, sérstaklega hjá börnum.“

Hópurinn færði heimamönnum vatnssíur. Mynd/aðsend

Anton segist nú reyndar sjálfur hafa fengið að kenna á þessu. Eins og hann lýsir því sjálfur fór hann í þriggja daga „hreinsun.“ „Ég gerði þau mistök að hafa salat á einni samlokunni sem ég borðaði. Þetta var alvöru magakveisa. En þetta er daglegt brauð hjá fólkinu þarna,“ segir hann.

Hópurinn fékk að vita um ákveðin þorp á eyjunni þar sem vitað var að vatnið væri slæmt. Fóru þeir þangað með síur til þess að hreinsa drykkjarvatnið. Meðal annars í skólana.

„Þetta var okkar leið til að reyna að láta gott af okkur leiða. Að hafa alla vega pínulítil jákvæð áhrif á því svæði sem við fórum um,“ segir Anton.

Var hópnum tekið mjög vel í þorpunum sem þeir heimsóttu. Þurftu þeir að hafa uppi á „öldungi“ hvers þorps og útskýra hvernig síurnar virkuðu. En ef rétt er með farið eiga þær að duga í tíu ár.

Krakkarnir spenntir

Anton segir að mennirnir í hópnum hafi lagt sig fram við að vera opnir og vinalegir við fólk og það sama má segja um heimamenn. Krakkarnir tóku þeim eins og rokkstjörnum.

„Íbúar Madagaskar elska mótorhjól. Mótorhjól er eiginlega eina farartækið sem hentar. Vegakerfið er gjörsamlega handónýtt og ekki hægt að keyra á bílum þarna. Bensín er flutt á vögnum sem eru dregnir áfram af nautgripum. Það líða stundum mánuðir á milli þess sem fólk kemst til sumra þorpanna. En mótorhjól geta komist hvert sem er,“ segir hann.

Krakkarnir fengu að sitja á hjólunum. Mynd/aðsend

Mikið er af alls kyns mótorhjólum á eyjunni, meðal annars gömlum kínverskum hjólum.

„Þegar við komum inn í þorpin á tíu nýlegum enduro hjólum leið manni eins og maður væri að klára heimsmeistaramótið í Dakar. Krakkarnir heyrðu í okkur löngu áður en við komum og stóðu hrópandi og klappandi fyrir okkur. Þau báðu okkur um að gera ýmsar listir. Ef einhver lyfti framdekkinu klikkaðist þorpið,“ segir Anton.

Segir hann að þeir hafi ekki verið undirbúnir undir svona mikið þakklæti fyrir einhverja smá sýningu og að leyfa krökkunum á sitja á hjólunum. En hafa beri í huga að líf fólks í þessum þorpum er tilbreytingarlítið og hvorki sjónvörp né internet á heimilunum. Þegar tíu karlar koma á mótorfákum er það mikið uppbrot í tilveruna.

Eldri unglingarnir voru einnig byrjaðir að læra ensku. „Þau skiptust á að koma eitt og eitt til okkar og spyrja okkur einnar spurningar til að æfa sig. Þau voru líka að kenna okkur malagasí,“ segir Anton en það er tunga heimamanna.

Lemúrar og fjölbreytt landslag

Eyjan Madagaskar er stór og liggur suðaustan við meginland Afríku. Í þessari fyrrverandi nýlendu Frakka búa nærri 30 milljón manns. Fátækt er mikil og innviðir frumstæðir. Höfuðborgin Antananarivo stendur á hásléttu í miðri eyjunni en út frá henni niður að sjónum eru alls kyns veðrabelti og landslag.

Þessi fílar að dilla dilla. Mynd/aðsend

„Stundum vorum við að keyra í frumskógum og grjóti yfir í einslóða niður grýtt gil og svo þurra eyðimerkursanda hundruð kílómetra langa,“ segir Anton. „Þetta er ábyggilega einn besti staður í heimi til að keyra enduro hjól.“

Líklega vita flestir lítið um Madagaskar, annað en það að þar lifa lemúrar, nokkurs konar einkennisdýr eyjunnar. Anton og félagar sáu einmitt nokkra slíka.

Eftirminnilegast var samt fólkið. „Þetta fallega, opna, heiðarlega og gestrisna fólk sem lifir í þessum erfiðu aðstæðum,“ segir Anton.

Heimildarmynd

Myndavélarnar voru meðferðis í ferðinni og mun Freshline gefa út heimildarmynd um þennan leiðangur. Samtökin halda einnig úti sinni eigin Youtube síðu þar sem myndir frá leiðöngrum eru sýndar.

Anton segir Madagaskar frábæra fyrir enduro akstur. Mynd/aðsend

„Ég er ansi hræddur um að þetta gæti orðið dýrt áhugamál,“ segir Anton aðspurður um hvort hann sjái fyrir sér að fara í annan leiðangur. „Þetta átti að vera eitt skipti, leiðangur sem mig var búið að dreyma um alla ævi. Ég er skíthræddur um að það sé stutt í næsta leiðangur.“

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gisele Bündchen og þjálfarinn hætt saman – Sögð kenna Tom Brady um og þetta er ástæðan

Gisele Bündchen og þjálfarinn hætt saman – Sögð kenna Tom Brady um og þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bianca Censori klæddist gegnsærri skikkju og engu undir á virtum veitingastað

Bianca Censori klæddist gegnsærri skikkju og engu undir á virtum veitingastað
Fókus
Fyrir 3 dögum

Opnar sig um íslensku og áhyggjurnar af heimalandinu – „Það virðist vera fullkomlega eðlilegt þessa dagana að trúa ekki á helförina“

Opnar sig um íslensku og áhyggjurnar af heimalandinu – „Það virðist vera fullkomlega eðlilegt þessa dagana að trúa ekki á helförina“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svakalegar sprengjur í lögsókn gegn Kanye – Fór í fimm manna kynsvall með eiginkonunni og er með typpastærðir á heilanum

Svakalegar sprengjur í lögsókn gegn Kanye – Fór í fimm manna kynsvall með eiginkonunni og er með typpastærðir á heilanum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Það sem hefur gerst síðustu ár breytti Frosta – „Ég er ekki trúleysingi lengur“

Það sem hefur gerst síðustu ár breytti Frosta – „Ég er ekki trúleysingi lengur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Harry leitar að varanlegu heimili í Bretlandi

Harry leitar að varanlegu heimili í Bretlandi