Simmi og fyrrverandi eiginkona hans, Bryndís Björg Einarsdóttir, skildu árið 2018 eftir 20 ára samband. Þau eiga saman þrjá drengi.
Þau eru enn góðir vinir og hafa í gegnum árin, eftir skilnaðinn, fagnað hátíðardögum saman, eins og jólunum og áramótunum.
Sjá einnig: Simmi Vill fagnaði áramótunum með fyrrverandi
Simmi heldur úti hlaðvarpinu 70 mínútur ásamt Huga Halldórssyni, sem gekk sjálfur í gegnum skilnað í fyrra eftir sextán ára samband. Þeir fóru um víðan völl í nýjasta þættinum og barst talið að þeirra eigin reynslu.
Simmi segir að hann sé oft beðinn um ráð. „Ég hef fengið mörg símtöl og ég hef átt mörg samtöl við menn sem eru að skilja og bara: „Hvernig er þetta, hvernig gerðuð þið þetta?“ Mér þykir alveg vænt um það á ákveðnu leyti, að mönnum finnst við hafa gert þetta vel, við Bryndís. Ég held það sé bara rétt,“ segir hann.
„Því ég held við höfum gert þetta ógeðslega vel. Við skildum mjög vel. Ég held við séum best fráskilda fólk á Íslandi,“ segir hann kíminn.
Simmi segir að ef hjón eigi börn þá eigi líðan þeirra að vera í forgangi. „Ég held að stóra atriðið sé þetta: Þegar fólk skilur, það er eiginlega nánast sama hver ástæðan er, er það að… byrjum á börnunum, sem er aðalatriðið í þessu. Börn átta sig á að þau eru helmingur þú og helmingur konan þín, þannig ef þú ert að tala illa um konuna þína við börnin þín þá ertu að tala illa til þeirra,“ segir hann.
„Það á að vera stóri áttavitinn, það á að vera stóra stöðuljósið í þessu, að horfa til þess, hvað er ég að sýna barninu mínu í samskiptum við móður þeirra og ef það er ekki nóg til að setja þig á línu að gera réttu hlutina alltaf, þá þarftu að muna bara komdu fram við náungan eins og þú vilt að hann komi fram við þig.“
Hugi spyr hvort Simmi man hvernig honum leið þegar þau skildu.
„Já, já. Ég lokaði mig af í nokkra mánuði,“ svarar Simmi. „Ég valdi það að flytja út, það var ákvörðunin að ég myndi flytja út og ég vildi kaupa húsnæði í sama hverfi og það var ekki hægt í ákveðinn tíma. Þannig ég fékk inni hjá bæði vini mínum, Ómari vini mínum, og bróður mínum.“
Á þessum tíma gat hann ekki tekið á móti drengjunum. „Ég bjó í barnaherbergi í Grafarholti í nokkra mánuði,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið með mikið samviskubit.
„Þegar við eigum börn þá erum við með samviskubit yfir börnunum okkar alltaf, hvað þá í svona aðstæðum. Samviskubitið étur mann að innan,“ segir hann og bætir við að þetta hafi verið ömurlegur tími.
Hugi tekur undir með Simma. „Nú hef ég gengið í helvíti margt. Lent í því að tapa tugum milljóna á sjónvarpsþætti og alls konar djöfulsins mambó jambó sem ég hef þurft að ganga í gegnum. Ég hef þurft að ganga í gegnum að leggja niður fyrirtæki, sjónvarpstöðvar og þurfa að valda öðrum vonbrigðum og alls konar sem étur þig að innan, það á ekkert breik í þetta. Ég hef misst nákominn, það á ekki breik í þetta,“ segir hann.
Simmi segir að svona lífsreynsla sýni þér hverjir vinir þínir eru og hverjir ekki.
„Þetta er líka ákveðinn hreinsunareldur, því að í þessum aðstæðum þá stíga sumir inn, nær þér í vinahópinn þinn og sumir stíga bara algjörlega út,“ segir hann.
„Og ég ætla ekki að opinbera það, en það voru… ég átti nokkur rogastans söpræs í þessum hreinsunareld. Ég átti ekki von á því að nákominn vinur minn myndi stíga algjörlega út og gott betur. Því bissness skiptir ekki máli, peningar koma og peningar fara […] Það get ég sagt, það var síðan sorgarferli tvö, er bara að vináttan sem þú hélst að væri harðari en grjót reyndist byggð á sandi.“