fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fókus

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 26. apríl 2024 12:59

Aníta Ósk Georgsdóttir. Mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aníta Ósk Georgsdóttir er móðir, dóttir, vinkona, eiginkona og svo margt annað. Hún er 31 árs, hárgreiðslumeistari að mennt og starfaði sem leiðbeinandi í grunnskóla áður en hún fór í veikindaleyfi. Í haust fer hún í starfsendurhæfingu hjá Virk og lítur björtum augum fram á veginn.

Aníta heldur úti síðunni Hennar heimur á samfélagsmiðlum þar sem hún sýnir frá lífi sínu í bataferli, en hún er hægt og rólega að læra að lifa upp á nýtt eftir að hafa verið greind með geðhvörf. Hún fékk greininguna eftir að hafa farið í fyrsta sinn í maníu í október 2022. Hún var þá stödd á Ítalíu með samstarfsfélögum sínum og endaði örmagna á sjúkrahúsi.

Aníta er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV.

video
play-sharp-fill

Þú getur líka hlustað á Spotify, Apple Podcasts og hlaðvarpsþjónustu Google.

Á vef Hugrúnar kemur fram um geðhvörf:

„Geðhvörf er geðröskun sem einkennist af tímabilum þar sem fólk sveiflast í líðan og lífskrafti, eða fer í svokölluð geðhæðartímabil (manía) og þunglyndislotur. Geðhvörf kallast bipolar á ensku sem vísar til þess að ástandið sem myndast er eins og tveir andstæðir pólar í líðan.“

Allt breyttist við kynþroskaaldurinn

Aníta var mjög fjörugt barn og það var aldrei lognmolla í kringum hana. „Ég var algjör félagsvera og var þar sem tónlistin var. Ef ég heyrði einhvern hávaða þá var ég mætt. Ég var upp um allt, út um allt, talaði mikið,“ segir Aníta brosandi.

„Svo var ekkert fyrr en ég varð fjórtán ára sem byrjaði að halla undan fæti. Ég fór að vera öfugt við það sem ég var. Ég var hætt að vera félagsvera, ég vildi bara vera ein, talaði lítið. Fór að vera ótrúlega kvíðin og þunglynd og átti erfitt með að mæta í skólann. Erfitt að taka próf, erfitt að mæta á körfuboltaæfingar,“ segir Aníta og bætir við að áður var allt þetta eitthvað sem hún naut þess að gera. Hún átti marga vini, var efnileg í körfubolta og gekk vel í námi.

„Ég hefði ekki átt að vera kvíðin fyrir neinu og ég lenti í engu sem barn. Ég varð ekki fyrir einelti, var ekki misnotuð, ekkert svoleiðis. En samt leið mér ömurlega. Þetta var helvíti, ég svaf ekki neitt. Ég var grenjandi stanslaust, fór grátbólgin í skólann. Ég man svo vel eftir því… þegar maður hlær þá hlær maður innilega, en þegar ég hló þá fann ég ekki fyrir hlátrinum,“ segir hún.

„Ég er svo fegin að mamma kveikti á perunni að það væri eitthvað í gangi, hún sá það mjög fljótt. Ég fór til læknis og út frá því fór ég til sálfræðings. Þar var ég greind með kvíða og þunglyndi, fjórtán ára. Það er rosalega erfitt að fá þessa greiningu og þú skilur hana í rauninni ekkert.“

Prófaðu að endurhlaða síðuna ef þú sérð ekki færsluna hér að neðan.

Þegar Aníta var átján ára fór hún aftur langt niður og fór þá til annars sálfræðings, þar sem hún gat ekki lengur farið til barnasálfræðingsins.  „Hann bjargaði mér gjörsamlega. Ég kom alltaf svo peppuð út í lífið eftir tíma hjá honum. Ég var svo bara alltaf upp og niður. Ég fór í fyrsta skipti á lyf nítján ára.“

Eftir að vera komin á lyf byrjaði að ganga vel og Aníta fann að hún var farin að líkjast sjálfri sér. Hún varð aftur hvatvísa skellibjallan sem hló innilega.

Allt hrundi árið 2022

Aníta var fyrst lögð inn á geðdeild þegar hún var ólétt af eldri dóttur sinni. Við tók mjög erfiður tími en þegar meðgangan var hálfnuð fór að birta til og var hún, eins og hún segir, nokkuð góð næstu árin, þar til árið 2022.

„Þá fór mér að líða aftur ótrúlega illa, ég fór mjög langt niður,“ segir hún.

„Það gerðist ekkert en ég bara datt þvílíkt niður og þá fór ég í fjórða skipti inn á geðdeild. Það sem gekk á áður var að ég var búin að vera að misnota lyf. Taka kannski fjórar töflur af kvíðastillandi, sem gera mann svolítið sljóan. En ég þorði aldrei að taka það mikið svo ég myndi deyja eða eitthvað svoleiðis.“

Sagðist ekki geta meira

Aníta rifjar upp ágústdaginn sem hún lagðist aftur inn á geðdeild.

„Ég var heima hjá mömmu og pabba og var ekki með lyfin mín. Ég mátti ekki sjá um þau sjálf. Ég fékk alltaf X margar töflur með mér heim og þurfti alltaf að fara til mömmu og pabba að ná í meira. Þau sáu algjörlega um lyfin mín, en ég bjó samt ekki hjá þeim.

Mamma var að taka töflur úr spjaldinu og það var eins og það hafi verið kveikt á rofa í heilanum mínum. Ég greip lyfin, hljóp í burtu og reyndi að ná eins mörgum og ég gat. Pabbi hljóp á eftir mér og reyndi að ná lyfjunum frá mér og ég náði að taka þrjár, fjórar eða eitthvað. Ég var að slást við pabba og sagðist ekki geta meir.“

Foreldrar Anítu hringdu í sjúkrabíl og var hún send frá bráðamóttöku Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á geðdeildina á Landspítalanum, en HSS getur ekki tekið við fólki með geðrænan vanda þar sem engin úrræði eru til staðar.

Aníta Ósk Georgsdóttir. Aðsend mynd.

„Innst inni veit ég að það er eitthvað annað“

Eftir viku innlögn á geðdeild var Anítu tilkynnt að hún ætti að fara heim. „Ég krosslagði hendurnar og sagði: „Ég er ekki að fara héðan því innst inni veit ég að það er eitthvað annað en bara kvíði og þunglyndi. Ég get ekki endalaust verið að detta í dýfur, svo verður allt í lagi og svo aftur í dýfu.““

Aníta segir að læknirinn hafi hlustað á hana og sagt að ef hún væri með geðhvarfasýki þá myndu þunglyndislyfin, sem hún var á, fara illa í hana og gætu ýtt henni í maníu. Samt sem áður var sá möguleiki ekki skoðaður frekar og var Aníta send heim með lyfin.

Hún dásamar starfsfólkið á geðdeild. „Það er enginn dauðadómur að fara þangað inn, þetta er meira svona bjargráð. Sem betur fer er eitthvað til fyrir fólk eins og mig.“

„Aha“ móment að fá greininguna

Aníta kom heim af geðdeildinni í ágúst. Í október var henni farið að líða mun betur og fannst hún verða sjálfsöruggari með hverjum deginum. Eftir á litið sér hún að hún var þá farin að trekkjast upp en hún fór í maníu í fyrsta skipti þegar hún var á Ítalíu með samstarfsfélögum. Í þættinum lýsir Aníta aðdraganda maníunnar og fer yfir Ítalíuferðina. Þú getur hoft á þáttinn hér að ofan eða hlustað á Spotify. En fyrir þau sem vilja lesa þá verður fjallað um það tímabil í grein á DV í fyrramálið.

Aníta var í kjölfarið greind með geðhvörf og segir hún að það hafi verið eins konar „aha móment“ að fá greininguna, því hún sá líf sitt í öðru ljósi og svo margt sem hún botnaði ekkert í áður skildi hún betur núna

„Ég þurfti að læra upp á nýtt, læra lífið upp á nýtt. Þurfti svolítið að átta mig á því hvað þessi greining þýddi fyrir mig. En hún var líka svona „aha“ móment. Maðurinn minn kom með mér í læknistíma og læknirinn spurði hann, því þetta er mjög alvarleg greining og þá þarf læknirinn að fá staðfestingu, þú þarft að tikka í mörg box til að fá þessa greiningu. En læknirinn spurði hann hvort það væri eitthvað sem honum dytti í hug úr okkar sambandi sem hann tengdi við þetta. Þá sagði hann: „Já, það hafa nokkrir tímapunktar í hennar lífi sem við byrjuðum saman verið svona hypomaníur.““

Hypomanía líkist maníu en er vægari og varir oft í styttri tíma.

„En það geta komið jafn alvarlegar dýfur eftir bæði maníu og hypomaníu. Og þegar ég hugsa til baka hef ég oft farið í hypomaníu. Mér hefur oft fundist lífið svo æðislegt og ég er svo ósigrandi. Eitt skipti þá var ég með eldri dóttur mína nýfædda í ömmustól og ég var uppi á stiga að mála þriggja metra háan vegg. Maðurinn minn kom heim og vissi ekkert hvað væri í gangi, en hann er svo elskulegur og styður mig í allt og öllu og var til í að hjálpa,“ segir Aníta hlæjandi og bætir við: „En lífið fór að meika sens.“

Aníta segir það hafa bjargað henni að vera komin á rétt lyf. „Það er eins og heilinn minn hafi verið bókahilla sem var búið að rústa og ég alltaf að reyna að tína bækurnar upp og setja á sinn stað en þær duttu alltaf aftur. En svo þegar ég byrjaði á þessum lyfjum þá fóru bækurnar að tínast á sinn stað og fóru ekkert,“ segir hún.

Hlúir vel að sér í veikindaleyfi

„Ég er í veikindaleyfi eins og staðan er núna og er svolítið að hlúa að sjálfri mér. Gera það sem lætur mér líða vel, ég er dugleg að æfa og borða góðan mat og hitta vinkonur mínar, fara til ömmu og afa, gera allt sem lætur mér líða vel. Og til dæmis, leyfa mér að hlæja, leyfa mér að tala hátt og tala mikið. Leyfa mér að labba hratt, vera kvikk og ég er að leyfa mér að vera ég sjálf aftur. Því ég hef þurft að læra að lifa upp á nýtt. Ég hef þurft að samþykkja þetta,“ segir Aníta.

„Þetta er alvarleg greining, þetta er ekkert kvef sem fer. Með öllum líkindum verð ég með þessa greiningu allt mitt líf og mjög líklega verð ég á lyfjum allt mitt líf. Það veit enginn hvort ég fari í maníur aftur eða ekki.“ Hún hefur ekki farið í maníu síðan hún fór í gegnum þá fyrstu í október 2022.

Hennar heimur

Aníta heldur úti síðunni Hennar heimur, bæði á Instagram og Facebook, þar sem hún leyfir fólki að fylgjast með daglegu lífi hennar í veikindaleyfi, kemur til dyranna eins og hún er klædd, opnar sig um tilveruna að vera með geðhvörf, bataferlið og birtir hvetjandi skilaboð.

„Þessi miðill er partur af mínu bataferli. Ég að segja mína sögu og segja: Hey, ég er með geðhvarfasýki og það er allt í lagi. Það er enginn dauðadómur. „Hún á aldrei eftir að lifa eðlilegu lífi.“ Jú, ég lifi mjög eðlilegu lífi, meira að segja frekar boring lífi,“ segir hún hlæjandi og á þá við að lífið sé í ósköp venjulegri rútínu, hún er tveggja barna móðir og dagarnir snúast um það.

„Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér.“

Var sjálf með fordóma áður en hún fékk greiningu

Aníta var til að byrja með tvístíga um hvort hún ætti að koma í viðtalið þar sem það eru oft fordómar í samfélaginu fyrir fólki með geðsjúkdóma. „Ég var sjálf með ákveðna fordóma þegar ég fékk þessa greiningu en ég þurfti að sleppa takinu,“ segir hún og bætir við að við sjáum oft ranga ímynd af geðsjúkdómum í kvikmyndum og það sé fjarri raunveruleikanum.

Hún ákvað að stíga fram til að sýna að geðsjúkdómar fara ekki í manngreinarálit og að vera með geðhvörf sé ekki dauðadómur. Hún segir einlæg að ef þetta viðtal geti hjálpað einni manneskju þá sé hennar markmiði náð.

„Ég þurfti að hugsa mig tvisvar um, því ég var ekki viss hvort ég væri tilbúin að finna fyrir fordómunum. En mun þetta kannski hjálpa einhverjum? Kannski er einhver nýbúinn að fá geðhvarfsgreiningu og hugsar kannski: „Og hvað?“ Þannig það var ástæðan fyrir því að ég ákvað að opna mig.“

Fylgstu með Anítu á Hennar heimur, bæði á Instagram og Facebook.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“

Íslensk móðir skráði sig á Tinder og fékk áfall vegna þess sem hún sá: „Mér finnst þetta svo hræðilega rangt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu

Guðrún gaf Helga Jean súludans í afmælisgjöf – Allir stoppuðu og horfðu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“

Svava Kristín lenti í slysi á unglingsaldri – „Ég get ekki orðið hlaupari en ég get gert margt annað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone

Hefur enn ekki leyft börnum sínum að horfa á Home Alone
Hide picture