fbpx
Þriðjudagur 14.maí 2024
Fókus

Tuð í dómara setti svip sinn á bónorð

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 4. desember 2023 16:30

Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Daily Mail og fleiri fjölmiðlar hafa greint frá athyglisverðri uppákomu sem varð í Madison Square Garden í New York síðastliðinn fimmtudag. Maður nokkur og kærasta hans voru þá áhorfendur á leik New York Knicks og Detroit Pistons í NBA-deildinni í körfubolta. Meðan hlé var á leiknum var parið úti á körfuboltavellinum sjálfum en þau höfðu unnið miða á jólasýningu í Radio City Music Hall. Þá nýtti maðurinn tækifærið og bað kærustuna að giftast sér. Bónorðið var tekið upp á myndband en það hefur vakið þeim mun meiri athygli að í bakgrunni þess má sjá einn leikmanna Knicks tuða hressilega í einum dómara leiksins.

Um er að ræða Julius Randle, framherja liðsins. Meðan hlé varð á leiknum nýtti hann tækifærið og gekk að einum af dómurum leiksins, sem stóð á miðju vallarins, og kvartaði duglega yfir dómgæslunni í leiknum.

Randle virðist hins vegar ekki hafa gert sér grein fyrir að skammt frá honum var bónorð að eiga sér stað. Madison Square Garden tekur um 20.000 manns í sæti og var uppselt á leikinn.

Daily Mail segir Randle hafa drepið í rómantíkinni með því að troða sér inn á trúlofunarmyndbandið en parið virtist ekkert láta nærveru hans á sig fá.

Á myndbandi af trúlofuninni má sjá manninn kyssa kærustuna og fara svo niður á annað hnéð. Orgelleikari hússins byrjar þá um leið að spila Brúðarmarsinn eftir Richard Wagner, sem er einnig þekktur undir titlinum Here Comes the Bride í enskumælandi löndum.

Eftir að orgelleikarinn er byrjaður að spila má sjá Randle ganga frá varamannabekk Knicks til eins af dómurum leiksins og byrja að kvarta yfir dómgæslunni.

Maðurinn dregur fram trúlofunarhring og tilfinningarnar taka þá völdin hjá kærustunni. Hún grípur fyrir munn sér og byrjar að gráta gleðitárum.

Allan tímann stendur Randle í bakgrunninum og tuðar í dómaranum.

Kærastan segir já og dregur maðurinn þá hringinn á fingur henni en Randle heldur kvörtunum sínum ótrauður áfram og virðist ekkert hafa tekið eftir hvað var að eiga sér stað nokkra metra frá honum.

Parið faðmast að lokum og gengur út af vellinum en Randle er enn á sínum stað að kvarta.

Notendum samfélagsmiðla sem tjáðu sig um efni myndbandins fannst það almennt mjög fyndið. Einn þeirra hitti kannski naglann á höfuðið þegar hann lét eftirfarandi orð falla:

„Ef þú biður kærustuna að giftast þér á leik með Knicks þá finnst mér ekki ólíklegt að þetta hafi verið nákvæmlega það sem þú vildir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Laufey vaknaði með slæman hausverk – Lá nokkrum tímum síðar á milli heims og helju á sjúkrahúsi

Laufey vaknaði með slæman hausverk – Lá nokkrum tímum síðar á milli heims og helju á sjúkrahúsi
Fókus
Fyrir 5 dögum

Gisele Bündchen fyrir „miklum vonbrigðum“ með nýjasta útspil Tom Brady

Gisele Bündchen fyrir „miklum vonbrigðum“ með nýjasta útspil Tom Brady