fbpx
Mánudagur 20.maí 2024
Fókus

Betty þótti best allra í að taka fólk af lífi – Merkilegt lífshlaup frægasta böðuls Írlands

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Þriðjudaginn 4. júlí 2023 19:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ekki allra að starfa við að binda enda á líf fólks. Sumum hefur reynst þó auðveldara en öðrum að starfa sem böðlar, starf sem svo að segja einvörðungu karlmenn hafa sinnt í gegnum aldirnar. 

En einn sá þekktasti var þó kona, lafði Betty af Roscommon, sem mun hafa teiknað á veggi herbergis síns myndir af öllum þeim er hún tók af lífi.

En hver var Betty og hvað gerði hana þetta þekkta í sínu dökka fagi?

Gróf barn sitt í vegakantinum

Elizabeth Sugrue fæddist í sveitum Írlands í kringum 1740. Hún giftist ung og eignaðist tvö börn en varð snemma ekkja. Betty gat hvorki fætt né klætt börn sín sökum fátæktar og ákvað því að fara til næsta stóra bæjar, Roscommon í leit að betra lífi,. Betty hafði enga aðra leið að koma sé en að ganga en gangan var henni og börnunum erfið og lést yngra barn hennar á leiðinni.

Betty gróf barnið við vegkantinn og hélt áfram leið sinni með syni sínum, Padraic.

Í Roscommon fengu mæðginin húsnæði í hálfónýtum skúr og lifðu á betli auk þess að grafa eftir mat og öðrum verðmætum á ruslahaugum bæjarins.

Betty og sonur hennar höfðu snemma orð á sér fyrir að vera undarleg, þau töluðu aldrei við annað fólk en voru aftur á móti óaðskiljanleg.

Land tækifæranna eina leiðin

Þegar að Padraic var eldri varð honum ljóst að ekkert betra beið hans í lífinu í Roscommon en betl og ruslahaugar auk einstaka ótryggra starfa. Ákvað hann því, eins og margir á þessum árum, að fara yfir Atlantshafið og leita betra lífs í Bandaríkjunum – landi tækifæranna.

Betty var vægast sagt afar ósátt við ákvörðun sonar síns og grátbað hann um að fara hvergi en Padraic var ákveðinn en lofaði móður sinni að senda senda henni allt það fé sem hann gæti. En samband mæðginanna versnaði til muna upp frá þessu.

Í apríl 1775 fékk Padraic loks skipafar til Bandaríkjanna og fór, þrátt fyrir grát og öskur móður sinnar. Betty varð jafnvel enn meiri einfari í kjölfarið, enda hennar eini félagsskapur í lífinu horfin á braut. Hún yfirgaf aldrei skúrinn nema til að leita sér matar og aldrei yrti hún á nokkurn mann. Þegar hún átti fé fór hún á nálæga krá, þar sem Padraic hafi stundum fengið íhlaupavinnu, til að kaupa sér heita máltíð.

Betty endurhannaði aftökupalla.

Sífellt bitrari og reiðari

Padraic stóð við orð sín og sendi móður sinni reglulega peninga en það hressti ekkert upp á skap Betty sem sífellt varð bitrari og reiðari. Henni fannst heimurinn hafa snúið baki við sér og hataðist við allt og alla.

Padraic skrifaði líka móður sinni reglulega bréf. Hann sagði henni að hann hefði gengið í herinn og myndi berjast gegn Bretum fyrir sjálfstæði Bandaríkjanna. Það var snjallt hjá Padraic, sem hafði litla sem enga menntun né sérstaka hæfileika, því fyrrverandi hermanna beið yfirleitt gott starf og virðing að lokinni herþjónustu. Aftur á móti þurftu þeir að ná að lifa stríðið af.

Póstþjónustan var ekki upp á sitt besta í miðri borgarastyrjöld í Bandaríkjunum og hætti Betty fljótlega að fá bréf frá syni sínum. Hún fór að efast um að hann væri enn á lífi og smám saman virðist hún hafa orðið enn bitrari, reiðari og veikari á geði en áður.

Og þá er mikið sagt.

Ríki aðkomumaðurinn

Eina kalda nóvembernótt var Betty á leið inn í kofann sinn þegar að karlmaður gaf sig á tal við hana. Hún var snögg að sjá að um efnamann var að ræða þar sem fatnaður hans var vandaður. Og það sem meira var, hann var með peningapoka við belti sitt og virtist sá smekkfullur.

Sagðist maðurinn vera í heimsókn í Roscommon og vanta nauðsynlega gistingu yfir nóttina en því miður væri kráin nálæga full og ekkert herbergi að hafa. Bað hann Betty um að fá að dvelja í kofa hennar yfir nóttina. Betty var snögg að finna út hvernig mætti hafa fé af manninum og bauð honum rúm sitt. Sjálf myndi hún sofa á gólfinu.

Þegar að maðurinn var sofnaður læddist Betty upp að honum, stakk hann til bana og tæmdi peningapyngju hans. Eins og hana hafði grunað var þar að finna meira fé en Betty hafði nokkurn tíma látið sig dreyma um.

Hún ákvað að leita samt á líkinu til öryggis, það var aldrei að vita nema að hann hefði á sér meiri verðmæti. En Betty átti ekki von á því sem hún í raun fann. Í fórum mannsins var að finna bréf frá syni hennar, Padraic.

Í því sagði hann að um vin sinn væri að ræða og vildi hann koma móður sinni á óvart með að senda henni allt það fé sem hann hefði safnað, henni til handa, undanfarin ár.

Öskrin frá Betty

Betty brotnaði gjörsamlega saman við lestur bréfsins og örvæntingarfull öskur hennar heyrðust um allt nágrennið. Einhver kallaði á löggæslumenn, sem komu að Betty hjá líkinu, og var hún tafarlaust handtekin og fangelsuð.

Réttarkerfið var snöggt í vinnslu á þessum árum og nokkrum dögum seinna var Betty dæmd til dauða og skyldi hún hengd fyrir morðið.

Daginn sem hengja átti Betty var böðullinn aftur á móti veikur en þennan dag hafði honum verið ætlað að taka 26 einstaklinga af lífi.

Fangelsisstjóri klóraði sér í kollinum yfir hvað skyldi gera og varð hreinlega orðlaus þegar að Betty steig fram og bauðst til að hengja meðfanga sína. Hún var ísköld og yfirveguð þegar hún kom fram með uppástungu sína.

Svo fór að boði Betty var tekið og stóð hún sig svo vel að fyrrum böðulinn var rekinn og Betty ráðin í hans stað. Dauðadómi hennar sjálfrar var frestað um óákveðinn tíma en henni gert að dvelja í fangelsinu, aðallega henni sjálfri til verndar, því almenningur var farin að hata Betty og talið henni lífshættuleg að ganga um götur bæjarins.

Hannaði allt upp á nýtt

Betty tók starf sitt mjög alvarlega. Hún taldi að aftökupallurinn, og allt er honum fylgdi, væri engan vegin nógu góður og teiknaði sjálf upp nýtt svæði. Betty hreinlega endurhannaði hengingar í Roscommon og voru yfirvöld það ánægð með tillögur Betty að allt var byggt upp á nýtt, eftir hennar tillögum. Betty var mjög virk í byggingunni, stóð yfir iðnaðarmönnunum og skipaði þeim hægri vinstri um hvernig aftökupallurinn skyldi vera, hvaða gerð reipis skyldi nota og svo framvegis.

Betty fékk smám saman orð á sig fyrir að vera besti böðull Írlands og var eftirsótt sem slík í nálæga bæi. Svo fór að Betty var náðuð árið 1802 enda þótti lítið vit í að taka af lífi besta böðul landsins.

Betty hélt áfram að taka fólk af lífi, án nokkurra svipbrigða, næstu árin. Hún hélt sig alltaf út af fyrir sig og átti enga vini né kunningja. Í frítíma sínum sinnti hún garðvinnu í fangelsisgarðinum þar sem Betty bjó til dauðadags árið 1807, sennilega 67 ára gömul.

Fangelsið sem Betty bjó í til dauðadags.

Lafði Betty fékk betra orð á sig

Fangelsisstjóri vissi vel hversu hötuð Betty var og skipaði að hún skildi vera sett í ómerkta gröf að næturlagi. Því veit enginn í dag hvar Betty er grafin.

Með árunum batnaði þó orðspor Betty, sem fékk í gríni aðalstitilinn lafði manna á meðal, þar sem hún var talin hafa bætt mjög aftökur, ef svo má segja. Hönnun hennar tryggði að hinir dæmdu létust strax og voru mun minni líkur á mistökum við aftökur. Áður hafði það reglulega átt sér stað að fólk hálsbrotnaði ekki strax heldur þurfti að þola langan og sársaukafullan dauðdaga.

Einnig fór fólk smám saman að meta sjálfsbjargarviðleytni Betty Sugrue  sem hafði, þrátt fyrir að öll sund virtust lokuð, náð að sleppa við dauðadóm og tryggja sér mat og húsnæði til dauðadags. Og þótt að Betty yrði að borga fyrir frelsið háu verði virðist það aldrei hafa áhrif á hana.

Hvað hún afturá móti hugsaði í einveru sinni veit enginn.

Betty, þekktasti og besti böðull Írlands, breytti ekki um svip, allt til dauðadags.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur standi í vegi fyrir sáttum og beri nú sjálfur sök á stöðunni

Vilhjálmur standi í vegi fyrir sáttum og beri nú sjálfur sök á stöðunni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fær annað tækifæri til að finna ástina

Fær annað tækifæri til að finna ástina
Fókus
Fyrir 4 dögum

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí