Katrín Von taldi sig hafa traust mál í höndunum sem líklegt væri til sakfellingar. Að hún hefði orðið fyrir svívirðilegu ofbeldi af hendi manns sem hún taldi vera besta vin sinn. Maðurinn hafði játað brotið með textaskilaboðum þar sem segir meðal annars:
„Ég nauðgaði þér Katrín, það er engin önnur leið. Þú varst sofandi og ég stakk honum inn. Ég var bara í einhverju öðru mindsetti en ég á að vera og braut á þér. Mér líður ógeðslega yfir þessu…“
DV fjallaði um mál Katrínar Vonar í fyrra. Þrátt fyrir játninguna lét lögreglan á Akureyri rannsókn málsins falla niður. Katrín kærði málið til héraðssaksóknara sem lét málið einnig falla niður á þeim forsendum að orð stæði gegn orði, þrátt fyrir að fyrir liggi ofannefnd játning.
Fjallað er ítarlega um þetta mál í nýjasta hlaðvarpi Öfga þar sem birt er viðtal við Katrínu. Þar kemur meðal annars fram að gerandinn játaði einnig glæpinn við sameiginlega vinkonu hans og Katrínar. Ennfremur liggur fyrir að Katrín talaði við marga vini sína strax eftir atburðinn. Gaf þetta fólk skýrslur hjá lögreglu sem samræmdust framburði Katrínar.
Hinn meinti gerandi tók játningu sína til baka í skýrslutöku lögreglu og sagðist hafa skrifað þessa játningu til Katrínar til að róa hana niður. Fram kemur að það mun hafa unnið gegn Katrínu hvernig hún svaraði spurningu lögreglu um hve hrædd hún hefðið orðið á meðan meintu broti stóð. Gat hún ekki sagt að hún hefði verið ofsahrædd.
Katrín er líka mjög ósátt við þær forsendur héraðssaksóknara að í málinu standi orð gegn orði. Hún bendir á að fyrir liggi tvær játningar auk trúverðugs vitnisburðar fólks sem hún hafði samband við eftir atvikið. Hún segir að ekkert hafi verið til fyrirmyndar við vinnslu þessa máls og ekkert upplýsingaflæði hafi verið til hennar. Hafi hún alltaf þurft að hafa frumkvæði að því að fá upplýsingar um gang málsins.
„Ég bauð bara vini mínum að gista, gaur sem ég treysti.“ Katrín bendir á að hún hafi bara boðið vini sínum að gista, manni sem hún treysti, manni sem hafi tekið fram að hann ætlaði ekki að reyna að sofa hjá henni og hún hafi líka gert honum ljóst að hún hefði engan áhuga á slíku. Lögreglu hafi verið fyllilega ljóst af vitnisburði að ekkert slíkt var í gangi.
Við mælum með fróðlegu viðtali Öfga um þetta mál í hlaðvarpinu hér fyrir neðan: