fbpx
Mánudagur 16.september 2024
Fókus

Villi Neto þótti of puntaður – „Ég reyni að vera blíður við sjálfan mig og aðra“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Mánudaginn 1. ágúst 2022 09:00

Villi Neto Mynd/Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að ég þekki ekki einn einasta grínista sem hefur átt það auðvelt. Ég hef meira segja hitt fólk sem verður fyndnara eftir að hafa í gengið í gegnum erfiða hluti. Sem er ótrúlegt. Eða áhugavert. Eða bæði bara. Það hjálpar í leiklistinni að hafa upplifað ýmislegt,” segir Vilhelm Neto, almennt kallaður Villi Neto.

Kúturinn Villi.

Villi hefur skemmt landanum undanfarin ár sem uppistandari og gamanleikari auk þess að vera vera áberandi á samfélagsmiðlum með sketsa og skemmtilegheit. 

MFS

Villi fæddist á Íslandi en fór aðeins mánaðargamall til í Portúgal þar sem hann ólst upp. Móðir hans er íslensk, Guðlaug Rún Margeirsdóttir, og faðir hans portúgalskur, Augusto Neto. 

„Mamma var ein af fyrstu íslensku skiptinemunum sem fóru til Portúgal og þar kynntist hún pabba, sem þá var í hernum. Þau byrjuðu saman og þannig hófst það allt. Þau voru mjög mikið í Portúgal þar til seinni árin þegar að þau komu til Íslands.” 

Hann ólst upp í litlum smábæ, langt frá íslensku slyddunni, og segir það að mestu leyti hafa verið fínt.   Það var þó ekki alltaf sólskin og skemmtilegheit því Villi varð fyrir einelti sem barn og segir hafa það hafa verið erfitt. Aðspurður um hvað hafi valdið segir Villi ekki geta orðað það öðruvísi en að hann hafi alltaf verið ,,puntaður,” vel greiddur og lagt áherslu á að vera vel klæddur og fínn. 

„Það þótti ekki kúl og það var gert grín að manni fyrir það. Krakkar geta verið rosalegir. En það lagaðist með tímanum en ég lærði mikið af því.”

Ansi sárt

Hvað lærdóm dró Villi af eineltinu ? 

Hann skellihlær. „Ég veit það ekki! Eitthvað vonandi. Ætli maður hafi ekki bara fengið þykkari skel. En ég hætti puntinu með tímanum og áherslunni á að vera alltaf vel tilhafður. Það var auðveldara að vera ekki vatnsgreiddur og í skyrtu eins og maður sá leikara í sjónvarpi og bíó.”

Alltaf puntaður

Hann rifja upp minningur frá skólaárunum frá Portúgal. „Þetta ásækir mig ekki en ég man þetta vel. Þá var gerður listi yfir sætustu strákana í bekknum og varð í síðasta sæti. Það var ansi sárt.” 

Flókið fjölskyldumynstur

Fjölskyldan flutti til Íslands þegar að Villi var 14 ára, árið 2007.

„Pældu í tímasetningunni! Foreldrar mínir komu í leit að betra lífi en svo kom hrunið. Sem er samt enginn einkennandi partur af lífi mínu, ég man eftir að hafa mætt á mótmælin og haft gaman af því. En ég held að mamma hafi saknað Íslands og fundist betra að búa hér. Þetta var skynsamleg ákvörðun á sínum tíma. “

Villi Neto/Mynd Eyþór Árnason

Villi á eina systur sem er fjórum árum yngri, Jóhönnu, sem hanns segir rosalega. „Hún er miklu klárari en ég. Hún er að taka mastersgráður í ónæmisfræði í Kaupmannahöfn og það er fyndið að sjá systur sína vaxa svona úr grasi og verða svona ótrúlega flott kona.”

Hann segir fjölskyldumynstrið geta verið flókið. „Jóhanna er í Köben, pabbi í Portúgal og mamma hér heima. Stundum nær maður ekki að hitta fólkið sitt svo mánuðum skiptir.”

Ekki vanur norrænni menningu

Villi hóf í fyrsta skipti nám í íslenskum skóla 14 ára gamall. Sem hljóta að hafa verið nokkur umskipti, sérstaklega fyrir ungling á þessum aldri.

„Þetta var mjög skrýtið, ég var ekki vanur norrænni menningu, ekki eins og ég er núna. Það var erfitt að mæta í níunda bekk og vera innan fólk sem hafði þekkst frá því í fyrsta bekk. En ég eignaðist þar vini sem ég er enn í sambandi við í dag.”

Með litlu systur

Villi talaði íslensku en mamma hans hafði talað móðurmál sitt við hann og amma hans sendi alltaf barnatímann og Spaugstofuna á spólu til Portúgals. Hann fékk þó einkakennslu í íslensku enda Villi ekki alveg  á sama stað og jafnaldrarnir.  „En ég kunni enga dönsku og lærði hana bara úti í námi.” 

Hann segir verst hafa verið að aðlagast íslenska kuldanum, bæði í veðri og þjóðarsálinni. Þá er meira en að segja það að eignast nána vini. 

„Íslendingar eru mjög hressir á yfirborðinu og auðvelt að tala við þá. Ég á frekar við náin sambönd, það að heyra í fólki að fyrra bragði og verða vinir vinir. Það er mjög auðvelt að spjalla við Íslendinga en það þarf meira til að ná inn fyrir skelina. Það tekur mikla vinnu að verða alvöru vinur Íslendinga en þegar það tekst eru þeir frábærir. 

Maturinn var annað mál. Hráefnin hér voru ekki jafn góð í Portúgal og það sem mér fannst magnað er að fólk borðar miklu meiri fisk í Portúgal en á Íslandi.” 

Vildi alltaf verða leikari 

Villi segir aldrei neitt annað hafa komið til greina en að verða leikari. 

„Ég var krakki þegar ég sá Hringjarinn í Notre Dame á sviði í Portúgal. Ég var alveg ,,blown away” og síðan þá hefur ekkert annað komist að. En grínið kom frekar á menntaskólaárunum í MH og þar var kom ég fram í Óróa. Ég byrjaði að gera sketsa á netinu, alltaf smá performer í mér og kannski smá athyglissýki. En ég er ekki alltaf með hana  langt því frá.” 

Netsketsarnir vöktu strax athygli á Villa sem svo fór í námið til Kaupmannahafnar. Hann fékk svo sumarvinnu í menningarhúsinu á Rifi þar sem hann tróð upp og fljótlega eftir það fékk hann tilboð um að leika í auglýsingum fyrir Hringdu Það var fyrsta alvöru hlutverkið þótt hann hefði áður komið nálægt auglýsingagerð. Hann segist hafa elskað allt í kringum það

„Svo fór þetta einhvern vegin að rúlla í gang. Ég hélt áfram að gera sketsa á netinu, var í uppistandi og svo kom skaupið og núna Borgarleikhúsið.” 

Það var annað að alast upp í þorpi í suðri en á Íslandi.

Leiklistin vinnur úr tilfinningum

En Villi er meira en fyndinn og útskrifaðist sem leikari úr leiklistarskólanum Cispa í Kaupmannahöfn  árið 2019.

„Þetta var rétt fyrir Covid og ég til í allt en fastur heima. En uppistand og netið bjargaði miklu því ég var ekki fá mörg leikagagigg. Þau eru sem betur fer komin núna. Ég er núna að hrista upp í leikaraminninu því það þarf mikið viðhald ef maður ætlar að gera þetta vel.” 

Hann er afar þakklátur árunum í Cispa. 

„Skólastjórinn minn gat lesið alla og hann gat algjörlega lesið mig. Oft þegar að ég var að nota hlátur sem karaktereinkenni sagði hann mér að hætta að hlæja því hláturin væri varnarmekkanismi hjá mér þegar ég þyrfti að vera alvarlegur. Ég er allt annar maður en áður en ég fór í leiklistarskólann og það var mikið verið að vinna mikið úr tilfinningum manns. Það var bara geggjað.”

Þunglyndi og kvíði

Vili segir fólk hafa verið að tjúllast eftir afþreyingu eftir Covid. „Alveg þetta 2007 dæmi aftur og svo fóru bara allir í einhver klikkuð frí,” segir Villi og hlær. 

„Ástandið var erfitt en hlátur lagar heilmikið. En ekki allt og ég er þess mjög fylgjandi að fólk leiti til sálfræðings þegar því líður illa, sérstaklega ungir karlmenn. Ég var illa haldin þegar ég þurfti að leita til sálfræðings fyrst og það var ömurlegt að þurfa að komast á þann stað. Ég fékk þunglyndi og kvíða og var ekkert sérstakt sem gerðist, bara lífið. Mér fannst ég ekki nógu góður, ekki nógu áhugaverður, ekki nógu skemmtilegur og eiga ekki skilið það ég hafði. Heilinn fer í þessa átt, finnur einhver rök fyrir þessum hugsunum, og það er ömurlegt.”

Kvenhatur

Villi segist þakklátur fyrir að hafa fengið nauðsynleg lyf og frábæran sálfræðing. 

„Fólk er oft of seint í að leita sér hjálpar, sérstaklega á núna á tímum internetsins. Ég var í menntaskóla á þessum árum og átti sem betur fer margar góðar vinkonur og netið hafði því sem betur fer ekki það sterk áhrif á mig. 

En maður hefur séð hvernig netið hefur haft áhrif á fólk til dæmis á YouTube og núna síðast sérstaklega á TikTok. Það tekur stundum á að sjá sumt sem þar er birt og maður sér allt of marga unga karlmenn fara inn á ákveðna braut kvenhaturs”. 

Villi Neto Mynd/Eyþór Árnason

Hann segir algóriðmann  í þessu forritum skynja að hvað braut sé leitað á og leiði því því fólk áfram. ,,Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að ungir karlmenn leiti sér hjálpar þegar þeim líður illa. Og þá hjá sálfræðingi en ekki internetinu. 

Honum finnst miður að allir hafi ekki efni á að leita til sálfræðings. „Þeir eru fokdýrir og við búum í landi þar sem flestir hefðu gott af því. Sjálfur hef ég sleppt að fara til sálfræðings því það er svo dýrt. Þótt ég hafi þurft þess á stundum.”

Að vera blíður

Villi segir Ísland samt sem áður hafa gert margt gott fyrir sitt fólk, og þá sérstaklega í kringum Covid.

„Til dæmis hvað varðar heilsu ungmenna, íþróttir og ungmennastarf, ég sá muninn á hvernig þetta var gert hér og í Portúgal. En kannski vitum við ekki alveg enn hvernig á að takast á við hlutina.

Æskan í Portúgal var að mestu góð.

Villi segir það hafa snert sig mjög þegar að Ólafur Darri tjáði sig um þunglyndi og kvíða sem hann hafði barist við. ,,Ég vil gera það sama fyrir aðra unga karlmenn.”

Aðspurður um hvaða skilaboði hann hafi til ungra karlmanna hugsar Villi sig um. 

Að vera blíður. Ég held að það sé gott orð sem nái þeim kjarna sem ég vil koma áleiðis. Vera blíður við sjálfan sig og fólkið í kringum sig. Ég er ekki að segja að ég sé það alltaf en ég reyni allavega mitt besta. Ég get verið þversögn en reyni að lifa eftir því að vera blíður við sjálfan mig og aðra.

Villi og Jóhanna

Galið dæmi

Villi segist hafa verið utan við sig að undaförnu og hafi fólk haft orð á því að erfiðara sé að ná í hann er forsetann.

„Ég var að vinna svo bilað mikið, var í Borgarleikhúsinu og líka að gigga, vinna  alla daga vikunnar. Ég lenti í smá kulnun sem ég er að koma mér upp úr núna eftir gott frí. En líta björtu hliðarnar, þetta fór upp í íbúðarsparnaðinn.”

Villi stefnir nefnilega á íbúðarkaup, sem hann segir þó vera galið dæmi. „En ég held að þetta sé alveg að koma. Ég er í Borgarleikhúsinu, hef verið er í prufum fyrir þáttaseríu og í tökum með uppistandshópnum mínum, VHS. Það er svo uppistandssýning í janúar og ég er þegar byrjaður að skrifa efni fyrir það. 

Villi Neto Mynd/Eyþór Árnason

Villi fer oft til Portúgal í frí en sér sig búa á Íslandi í framtíðinni. „Ég elska Ísland og á íslenska kærustu, hana Tinnu, sem ég elska mjög mikið. Við vorum einmitt að fagna sex mánaða afmælinu okkar um daginn.” 

Villi er á samningi hjá Borgarleikhúsinu, hoppaði inn í Emil í Kattholti og er að æfa franskt gamanleikrit sem verður sýnt í september. „Svo hef ég verið að fikra mig áfram í alvarlegri hlutverkum. Ég elska að grínast en síðustu árin hefur verið algengara að grínistar fari í alvarlegri hlutverk svo ég hef engar áhyggjur af því.” 

Villi Neto Mynd/Eyþór Árnason

Þarf ekki að vera fáviti

Hvað er skemmtilegast? „Uppistandið er alltaf skemmtilegt en þegar ég klára er ég alveg búinn á því. En það er rosalega gaman að hafa þenna uppistandshóp því við styðjum hvort annað. 

Aðspurður um stöðuna á íslensku gríni segir Villi hana góða. „Það er hægt að grínast án þess að vera hálfviti, það á alltaf að kýla upp. Mér finnst svo leiðinlegt þegar að fólk kýlir niður og mér finnst ekkert fyndið við það. Sumir vilja meina að það sé ekki hægt að gera grín lengur því allir séu orðnir svo viðkvæmir. En það er algjört kjaftæði að mínu mati, það er alltaf hægt að vera fyndinn án þess að vera fáviti.”

Villi segir Íslendinga vera skemmtilega þjóð. „Við erum mjög fyndinn og húmorinn minn er til dæmis miklu íslenskari en portúgalskur. Portúgalskur húmor er svolítið gamaldags, bong á höfuðið og ýktar raddir. Hef samt séð ungu grínistana líka úti koma með ferskan blæ.

Villi neitar því ekki að fólk hafi gengið upp að honum og beðið hann um að vera fyndinn. „Sem er í góðu lagi, bara jákvæð athygli. 

Villi Neto Mynd/Eyþór Árnason

Norræn Ameríka

Hann segir íslendinga yfir höfuðu fyndna, líka á erlendri grundu. Alltaf  þegar að kemur einhver íslensk auglýsing eða húmor á ensku er svo gaman að því að útlendingum finnst það líka fyndið.  

„Það er líka  svo áhugavert að skoða íslenska sögu og sjá hvernig við urðum við. Við erum norræn þjóð, en samt ekki mjög norræn og mjög ameríkaseruð að vissu leyti. Við keyrum út um allt og matarmenningin okkar er frekar fituð, alla vega svona dags daglega. Við erum ekki með sama heilbrigðiskerfi og hinar Norðurlandaþjóðirnar og erum til dæmis algjörlega á móti lestum. Við erum norræn Ameríka og margir sem standa bara þétt við að halda því”. 

Villi Neto Mynd/Eyþór Árnason

Jack Black

Villi er afar líkur hinum heimsþekkta gamanleikara Jack Black? Hversu þreyttur er sá brandari? Villi hlær bara. „Ekkert sérstaklega, við erum reyndar alveg eins og mamma þverneitar fyrir fyrir allan skyldleika. Ég er búinn að heyra þetta frá því ég var 11 eða 12 ára. Ég rakaði af mér hárið einu sinni og af einhverri tilviljun gerði Jack Black það líka út af einhverjum hlutverki, sem var fáránlegt og bætti bara í.“ 

Villi er óneitanlega líkur leikaranum Jack Black. Mynd/Getty

Hann segir þetta þó vera að breytast og bara hressandi að vera líkt við aðra leikara á við Pedro Pascal eða Hopper úr Stranger Things. „En ég heyri þetta Jack Black dæmi mjög oft og finnst ekkert leiðinlegt að vera borinn saman við hann, enda elska ég manninn. Og ef ég ætti hundrað kall fyrir hvert skipti sem ég hef verið borinn saman við hann hann ætti ég fínan pening upp í íbúðarkaupinn.”

MFS

Talið berst að hvar Villi er staddur í dag. Hann segist að langmestu hamingjusamur og ástfanginn. 

Villa hefur verið líkt við leikarann Pedro Pascal.

„En ég verð stundum leiður eins og allir aðrir og er búin að vera aðeins og mikið í hausnum á mér að undanförnu. Ég er hef verið í smá holu.”

Villi stoppar og hugsar sig um. „Nei,i ekki beinlínis holu, en bara þetta sama sem hoppar upp í hausnum á manni öðru hvoru. Neikvæðar hugsanir. Mér hefur fundist erfitt að horfa á mig í spegli, það hafa verið einhverjir útlitsörðugleikar að spretta aftur upp upp á síðkastið.” 

Villi segist ekki geta svarað því hvernig hann myndi vilja vera öðruvísi. „Kannski finnast ég sætari, ég veit ekki. Það koma dagar en ég er að koma mér út úr því.

Enn aðrir vilja meina að Villi líkist Jim Hopper sem margir kannast við úr Stranger Things þáttunum. Mynd/Netflix

Þetta er allt að koma. En þetta eru tímabil sem manni langar kannski ekki mikið að vera innan um fólk. Og þá er erfitt að ná í mig.

En þetta þekkja örugglega margir.  Og ég vil tala um þetta opinberlega svo að aðrir strákar viti að þeir eru ekki einir í þessu,” segir Villi Neto, leikari. Ekki Jack Black. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir sérkennilega kvöldrútínu vera ástæðuna fyrir því að hún sé einhleyp

Segir sérkennilega kvöldrútínu vera ástæðuna fyrir því að hún sé einhleyp
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er því kannski ekki skrítið að þessi hópur leitar sér oft aðstoðar lýtalækna til að „laga” útlit sitt“

„Það er því kannski ekki skrítið að þessi hópur leitar sér oft aðstoðar lýtalækna til að „laga” útlit sitt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hélt að kærastinn vildi bara taka þátt í TikTok-trendi á Íslandi – „En hann hafði önnur plön“

Hélt að kærastinn vildi bara taka þátt í TikTok-trendi á Íslandi – „En hann hafði önnur plön“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vísindamenn hafa uppgötvað nýtt „töfralyf“ sem er sagt virka hraðar en Ozempic – Og það er helmingi ódýrara

Vísindamenn hafa uppgötvað nýtt „töfralyf“ sem er sagt virka hraðar en Ozempic – Og það er helmingi ódýrara