fbpx
Föstudagur 01.mars 2024
Fókus

Erpur er sami villigrísinn og útilokar ekki að henda í yfirburðarbeibí: ,,Það er svo mikið af liði í bransanum að skíta í sig á bak við tjöldin“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 13. mars 2022 09:00

Erpur Eyvindarson Mynd/Sigryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Bíddu aðeins, ég ætla að ná mér í vindil,” byrjar Erpur ,,Blaz Roca” Eyvindarson í upphafi viðtals og kveikir í. ,,Ég elska vindla en hef aldrei reykt sígarettur, þær eru það hallærislegasta sem til er. Munur á sígarettu og Kúbuvindli er eins og að rúnka sér eða stunda gott kynlíf.” 

Geim í jarðarfarir

Aðspurður um hvað hann sé að gera þessa dagana segist Erpur vera í grunninn að gera það sama og síðustu 22 ár; tónlist, ,,Svo verður maður að sinna einhverju kjaftæði sem maður neyðist til að gera því maður er jú manneskja sem býr í samfélagi. En það sem er spennandi er að gera tónlist. Það er reyndar allskonar bull í gangi, ég er í útvarpi og dett í hlaðvörp. Núna er maður á fullu að bóka gigg því maður er náttúrulega er búinn að vera atvinnulaus með hléum í tvö ár.”

Erpur á aldamótatónleikum Rottweiler Mynd/Sigurjón Ragnar

Talið berst að atvinnuleysi tónlistarmanna í Covid þar sem sumir tónlistarmenn höfðu orð á því að jarðarfarir hefðu bjargað fjárhagnum á stundum. ,,Eðli málsins samkvæmt er ég lítið bókaður í jarðarfarir,” segir Erpur en bætir við að þegar hann verði jarðaður vilji hann enga hengingarsöngva, bara skemmtilegheit. ,,Auðvitað á fólk að ráða þessu sjálft en þegar maður er búinn að ná þeim aldri að lifa lífinu þá myndi ég vilja hafa þetta eins og er gert í fullt af menningaheimum þar sem haldið er upp á líf viðkomandi. Ef fleiri hefðu þessa skoðun væri ég í töluvert fleiri jarðarförum.”

Ekkert franskbrauð í rassgatið

Erpur var byrjaði ungur að semja ljóð enda kominn af listrænni fjölskyldu sem hann segir alltaf hafa verið sínar fyrirmyndir, ,,Pabbi minn, Eyvindur Pétur Eiríksson, er svakalega mikill listamaður, skáld og rithöfundur og hafði mikil áhrif á mig. Og mamma er listakona líka en meðvitaðri um hvað þarf til að halda úti heimili. Ég fékk mjög menningarlegt uppeldi en það var alþýðulegt, ekki verið að troða frönsku brauði upp í rassgatið á manni og setja á mann alpahúfu. Ef alþýðan er ekki að njóta menningarnar heldur bara einhverjir ráðherrar og möppudýr að drekka súrt hvítvín, þá er það ekki spennandi menning. 

Svo erum við reyndar af Ströndunum, ég væri ekki sá maður né listamaður sem ég er ef ég væri ekki þaðan. Afburðarfólk allt saman.”

Útlandameikið verst í rappinu

Erpur bjó ásamt fjölskyldu sinni í Danmörku sem barn. ,,Þar var rosalega mikil svört menning, blús, fönk og jazz og rapp og þá meina ég gamla rappið. Danirnir, eins og aðrar menningarþjóðir, gerðu rappið að sínu og voru farnir að rappa á dönsku, í hlýrabol og þröngum gallabuxum og Adidas skóm upp úr 1984-5. Eldri bróðir minn, Sesar, var alltaf að rappa og við bræður urðum fljótlega sterkir í þessu.” 

Rottweiler slógu í gegn sem rödd nýrrar kynslóðar.

Fjölskyldan flutti til Íslands og Erpur varð ungur ritstjóri Undirtóna sem var aðal tónlistarblaðið í lok tíunda áratugarins. ,,Ég var líka á fullu að rappa með bróður mínum og okkar tónlist var plönuð. Á þessum tíma voru öll böndin að reyna að meika það í útlöndum og það var verst í rappinu þar sem allir voru að rappa í ensku. Ég og bróður minn vissum alveg hvað við vorum að gera með því að hafa allt okkar efni á íslensku.”

Var og er klikkaður

Erpur var ekki bara á kafi í tónlistarsenunni, hann vann stuttmyndakeppnir í félagsmiðstöðvum og teiknimyndsamkeppni Gisp aðeins fjórtán ára. ,,Ég var alltaf að hamast. Maður hafði svo mikið að segja við heiminn. Guði sé lof að foreldrum datt aldrei í hug að senda mig í greiningu og setja mig á lyf því að maður var alveg klikkaður og er enn, ofvirkur eða einhver djöfullinn. Ef það er eitthvað sem er gaman, þá er maður á milljón í því.”

Erpur, ásamt Bent og Lúlla stofnuðu Rottweiler um aldamótin 2000. Stinni bættist við tveimur árum seinna. Um var að ræða fyrsta rappbandið sem rappaði alfarið á íslensku. Rottweiler sló ærlega í gegn og varð ímynd nýrra viðmiða og nýrrar hugsunar. Strákarnir höfðu boðskap fram að færa og urðu stórstjörnur. Diskarnir mokseldust og uppselt var á alla tónleika. 

En þá kom nýr vinkill hjá Erpi; Johnny Naz. 

Johnny Naz fæðist

,,Ég var á fullu að rappa með Rottweiler á þessum tíma og þegar mér var boðið þetta þurfti virkilega að sannfæra mig. Þá var ekki til þetta konsept að búa til einfeldningslega en úthugsaða týpu til að ná fram mikilvægum hlutum. Og það var nákvæmlega það sem Johnny Naz snerist um.”

Erpur sem Johnny Naz. Mynd/Facebook.

Erpur segist aldrei hafa dottið í hug hvernig Johnny Naz myndi þróast. ,,Ég kem af vinnandi fólki og hef alltaf unnið eins og göltur. Mér var boðinn fínn peningur fyrir þetta og ég hélt að þetta myndi kannski endast í mánuð eins og allt þetta flóð á Skjám einum á þessum tíma, Teiknileikni eða hvað sem þetta nú allt hét. Ég ætlaði bara inn og svo út aftur og halda áfram að gera mína hluti með Rottweiler. En eins og allt sem ég geri fann ég vinkil til að gera þetta gaman og það var rosalega mikið hlegið hjá okkur Sindra Kjartans og Árna Sveins sem gerðu þættina með mér.”

Johnny Naz varð eitt umtalaðasta sjónvarpsefni Íslandssögunnar. ,,Þetta sprakk út og það klikkaðist bara allt. Á þessum tíma átti ég virkilega erfitt með að reyna að keyra alvarlegan rapp- og listamannsferil en vera á sama tíma heimsfrægur á Íslandi fyrir hálfgerð fíflalæti þótt það væri dýpri merking í þessu öllu. Og það sem fór illa í mig var að allir héldu að ég væri þessi týpa, væri Johnny Naz. En þetta var helvíti gaman.”

Drekkum enn alla undir borðið

Aðspurður um hvort Erpur hafi dottið í eitthvað rugl á þessum árum fer hann að hlæja. ,,Við vorum bannaðir í félagsmiðstöðvum á sínum tíma því vorum stundum fullir en við fórum aldrei í felur með neitt. Og við drekkum enn alla undir borðið, það hefur ekkert breyst. Mér finnst gott að romma mig en ég tek reglulega 2-3 mánuði þar sem ég drekk ekkert áfengi. Ég er einmitt í þriggja mánaða pásu núna. Það er ógeðslega gott, maður nær svo góðum fókus og virkni í því sem maður er að gera. En mér finnst mér líka gott þegar vorið kemur að opna eina eða tuttugu og eina rommflösku og dýfa mér í þetta.“

Þetta lið er þvættingur

Erpur er mikill romm, gin, vodka og vindlaáhugamaður og hefur aldrei falið það. ,,Það er svo mikið af liði í bransanum sem er að leika einhverja týpu sem er bara þvættingur. Það er að skíta í sig á bak við tjöldin sem er pressa sem ég myndi aldrei umbera. Það er eitthvað sem alvöru listamenn gera ekki, það er eitthvað sem popparar gera, búa til einhverja týpu sem er auðseljanleg. Þess vegna eru Rottweiler eilífir, fólk treystir okkur, við erum með sama kjarnann sama hvaða bylgja er í gangi. Okkar hópur er frá krökkum og upp í fólk á sjötugsaldri því fólk veit fyrir hvað við stöndum. Við erum alltaf með stappaða tónleika þvi við erum með kjarnann sem elskar tónlist, ekki vinsælasta slagarann á einhverjum tíma.”

Erpur hefur reglulega gefið út sólóefni í gegnum tíðina en segir Rottweiler vera eilífa. ,,Við erum eru teymi, erum alltaf að vinna saman og munum alltaf gefa út tónlist.” 

Erpur Eyvindarson Mynd/Sigtryggur Ari

Yfirburðargen Strandamanna

Erpur segir af og frá að hann sé að róast með árunum.  ,,Maður er alltaf sami villigrísinn. Það er þægilegt að vera villigrís því svín eru gáfaðri en hundar og kettir. Ég hef unnið á svínabúi og veit hvað ég er að tala um. Það er gaman að vera villisvín, þau rúlla sér upp og moldinni, eðla sig og eru í fíling. Gáfuðustu dýrin gera klikkuðustu hlutina. Aftur á móti þarf maður stundum að hvíla villigrísinn til að vera fullorðinn að vera korter og korter.”

Erpur er barnlaus en þrefaldur guðfaðir, ,,Ég er ekki búinn að glussa í beibí sjálfur. Ég veit ekki hversu skynsamlegt það er, eins og heimurinn er í dag. Það er margt gott og jákvætt í uppeldi krakka í dag en margt er sulta. Ég hugsa stundum að maður ætti að henda í eitt beibí til að fá alvöru megamix í umferð. Strandagenin eru blanda af baskneskum, frönskum og spænsku sjómönnum, og síðan náttúrulega úr lókal fólkinu okkar á Ströndunum. Þetta eru yfirburðargen sem landið þarf á að halda. Ég yrði geggjaður pabbi og held áfram að íhuga það. En ég myndi ekki nenna að eiga barn með einhverri píu sem væri ekki á sömu línu og ég” 

Meika ekki afbrýðissemisrugl

,,Hið hefðbundna sambandsform er ekki áskrift að eilífri hamingju og ég á rosalega erfitt með það sem þykir eðlilegt í samböndum. Ég meika ekki svona afbrýðissemisrugl enda skilur helmingur hjóna eftir korter.  Best væri ef eini munurinn á besta vini mínum og kærustu væri sá að ég gæti sofið hjá kærustunni en ekki verið að böðlast á vini mínum. En það er bara vegna minnar kynhneigðar. Lífið væri fullkomið ef allir væru rammpólaðir. Þetta eru leifarnar af einhverju feðraveldi sem var fundið upp af einhverjum dúddum í sloppum í eyðimörk fyrir þúsund árum og hefur eyðilagt fjölda mannslífa. En sem betur fer held ég fólk sé að finna vísindalegri nálgun hvað gerir þig hamingjusaman í stað þess að láta trúarbrögð og vitleysu segja þér hvernig þú átt að lifa.

Sjálfur er ég trúlaus, nema þegar kemur að náttúrunni sem er eini guðinn sem skiptir máli.  Ef náttúran fær leið á okkur dúndrar hún á okkur hamförum enda er manneskjan fokking herpes sýking á jörðinni.“

Sólveig Anna og vöfflubakararnir

Talið berst að pólitík og Erpi verður heitt í hamsi. ,,Það hafa fjórir flokkar haft samband við mig og beðið mig alvarlega að fara í framboð. Það væri sniðugt ef valdakerfið væri ekki búið að tryggja sig. Það er sama hvað þú ferð inn með stórt umboð frá almenningi, þá eru einhver möppudýr sem stoppa þig. Sjáðu Sólveigu Önnu þegar hún fór inn í Eflingu. Þá komu einhver sérfræðingar í vöfflubakstri í veg fyrir að kjósendur og meðlimir í verkalýðshreyfingunni fengju sínu fram. Sama gerðist með  Jón Gnarr, kerfið passar að ekkert breytist.” 

Erpur tekur kvótakerfið sem dæmi. ,,Yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar á móti kerfinu, auðvitað fyrir utan vísindalegar veiðar Hafró, en það er búið koma aftan að þjóðinni og laumueinkavæða auðlindina okkar. Sjáðu Norðmenn eru með olíusjóðinn. Þeir geta farið á hausinn tuttugu sinnum á hausinn á meðan okkar auðlind er snekkjusjóður fyrir Samherja og félaga. Er þetta lýðræði þegar ekkert breytist?“

 Lifum í fantasíubúbblu

Og ekki minnkar hitinn þegar umræðan berst að alþjóðamálum. ,,Þetta er sama dæmið með alþjóðasamvinnu. Jú, sumt er gott eins og Sameinuðu þjóðirnar og Mannréttindadómstóllinn en hversu sjálfstætt ríki er Ísland þegar það þarf að hringja til Washington og Brussel til að láta segja okkur hver sé okkar utanríkisstefna? Það sem ég er að segja er að ef maður fer í pólitík með umboð frá þjóðinni þá er ekkert þar með sagt að maður nái vilja þjóðarinnar fram. Við höldum að allt sé geggjað hér í hinu svokalla lýðræði Vesturlöndum en svo er ekki. Við lifum í fantasíubúbblu þar sem stórfyrirtæki stjórna heiminum. Þeir sem eiga mesta peninga í kapítalísku samfélagi eru mótandi, enda kaupa allir milljónamæringar fjölmiðla til að tryggja að þeirra stefna verði stefna almennings.”  

Erpur tekur pásu og hlær, ,,Þetta var helvíti pólitísk ræða hjá mér, eins og jómfrúarræða á Alþingi. Enda er ég er ekki búinn að slá neitt út af borðinu.”

Erpur Eyvindarson
Mynd/Sigtryggur Ari

Alltaf til í vitleysu

Hvað liggur næst fyrir hjá Erpi? ,,Það er alltaf tónlistin. Það er geðveikt að vinna með gæjum eins og Agli Ólafs og Ragga Bjarna, sem eru af gjörólíkri tónlistarkynslóð, og fara með þeim inn á allt aðrar lendur.  Svo er auðvitað afmæli Rottweiler sem er meiriháttar og við ætlum að halda upp á það. Mig langar líka að taka skrens í að ferðast, það skiptir svo miklu fyrir lífshamingjuna að upplifa og sjá nýja hluti. Ég veit ekki nákvæmlega hvert ég fer, við ætlum að sigla skútu frá Svíþjóð til Íslands í sumar og svo langar til mig  Rússlands, sem er reyndar flóknara núna.  

Ég þarf líka að klára Evrópu, kjánalönd eins og Lichtenstein, Luxemborg eða Andorra. Svo er fólk alltaf að hafa samband með góðar hugmyndir og ef það er nógu skemmtilegt er ég alltaf til. Auðvitað þarf maður að borga reikninga og svoleiðis leiðindi en ef maður finnur vinkil á því er maður til í allskonar vitleysu.” 

Greiningardeild Kaupþings versta martröðin

Versta martröðin? ,,Að sitja á Port 9 að ræða við verðbréfasala í flíspeysu með göngustafi. Ef ég haga mér illa í þessu lífi fæðist ég samkvæmt hindúatrú í lægsta þrepi; Í greiningardeild Kaupþings með bindi að skipuleggja næstu golfferð. Það er mín stærsta martröð.

Ég ætla að halda áfram að vera villgrís. Það mun aldrei breytast,” segir Erpur ,,Blaz Roca” Eyvindarson og drepur í vindlinum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Manst þú eftir kyntröllinu úr Desperate Housewives? – Svona lítur hann út í dag

Manst þú eftir kyntröllinu úr Desperate Housewives? – Svona lítur hann út í dag
Fókus
Í gær

Hugi lagði til ríkisstyrktar vændiskonur fyrir karlmenn sem hyggjast nauðga

Hugi lagði til ríkisstyrktar vændiskonur fyrir karlmenn sem hyggjast nauðga
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fékk áfall þegar hún fór í gegnum tölvu látins eiginmanns síns – „Ég áttaði mig á því að ég þekkti hann aldrei“

Fékk áfall þegar hún fór í gegnum tölvu látins eiginmanns síns – „Ég áttaði mig á því að ég þekkti hann aldrei“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Katla orðlaus eftir að hafa orðið vitni að óheiðarleika fastakúnna – „Ég er svo reið. Þetta er manneskja sem ég hef afgreitt margoft niður í búð“

Katla orðlaus eftir að hafa orðið vitni að óheiðarleika fastakúnna – „Ég er svo reið. Þetta er manneskja sem ég hef afgreitt margoft niður í búð“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Raunveruleikastjarna lét næstum lífið eftir vinsæla fegrunaraðgerð – „Þetta var helvíti“

Raunveruleikastjarna lét næstum lífið eftir vinsæla fegrunaraðgerð – „Þetta var helvíti“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Rifjar upp hryllilegu dagana eftir hvarf systur sinnar – Málið sem heimurinn stóð á öndinni yfir

Rifjar upp hryllilegu dagana eftir hvarf systur sinnar – Málið sem heimurinn stóð á öndinni yfir