fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Tinder, töffaraskapur og einstök ást – „Það er ekki hægt að lýsa þessu með orðum“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 1. maí 2021 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gamla Borg í Grímsnesi hefur gegnt mörgum hlutverkum í gegnum tíðina. Húsið var upphaflega byggt sem þinghús en varð síðar skóli, dansstaður, bílaverkstæði, kaffihús, samkomustaður og nú hefur það fengið enn annað hlutverk – sem heimili.

Hjónin Mummi Týr Þórarinsson og Þórunn Wolfram festu kaup á húsnæðinu í haust og lifa nú góðu og rólegu lífi í þessu merkilega menningarhúsi.

Þau taka á móti blaðamanni á heimili sínu. Þar er hátt til lofts og stórir gluggar gera það að verkum að engin þörf er að kveikja ljós á meðan sólin er á lofti. Upp á sviði er hjónarúm og á miðju gólfi er veglegt mótorhjól, nokkuð sem þykir sérstakt húsgagn í hefðbundinni stofu, en reyndar er ekkert hefðbundið við þetta sögulega húsnæði sem hjónin kalla heimili sitt.

Mummi og Þórunn eru í helgarviðtali DV. Hér að neðan er viðtalið í heild sinni en einnig er hægt að nálgast viðtalið með því að smella hér ef þú vilt frekar lesa helgarviðtalið umbrotið á PDF-formi.

Ljósmyndir: Ernir 

Ást við fyrsta klikk

Mummi og Þórunn voru hvorugt í leit að alvarlegu sambandi þegar þau kynntust í janúar 2019.

„Við kynntumst á Tinder,“ segir Mummi og Þórunn bætir við: „Ég get svo svarið það – gamla fólkið!“ „Og upp frá því hefur eiginlega ekki slefið slitnað á milli okkar,“ segir Mummi og brosir blítt til Þórunnar sinnar.

„Það er eiginlega svolítið svoleiðis,“ bætir Þórunn við. „Þetta var á föstudagskvöldi og ég nennti ekki að pikka þannig ég spurði hvort hann væri ekki til í að hringja. Við töluðum svo saman í þrjá tíma, hittumst á sunnudeginum og höfum verið hlið við hlið síðan.“

Þau voru því ekkert að bíða með hlutina og hentu sér strax út í samband. „Við erum orðin svo gömul,“ segir Þórunn og Mummi tekur undir með henni „Já, nú fer hver að verða síðastur.“

Brúðkaup í slagviðri

Þau tóku svo stóra skrefið í desember á sama ári og giftu sig í látlausri athöfn á Austurvelli.

„Það var aftur saga í kringum það,“ segir Þórunn. „Mumma langaði að fá Jörmund Reykjavíkurgoða til að blessa sambandið okkar og ég vildi þá taka þetta alla leið því þetta er maðurinn minn.

Það vildi svo til að slagviðri var þann daginn og mátti goðinn standa í ströngu við að halda saman pappírunum sem hann las upp af í athöfninni.

„Þetta var bara mjög látlaus athöfn,“ segir Mummi. „Besti vinur minn og dóttir Þórunnar voru þarna sem vottar. Við fengum svo einhvern sem labbaði fram hjá til að taka myndir. Þær eru flestar mislukkaðar. Jörmundur stóð þarna beint fyrir ljósinu og hann var eins og eitthvað úr hryllingsmynd.

Málið er það að þegar við hittumst þá bara small þetta. Það bara gerðist þannig. Ég meina það var bara allt rétt. Eiginlega bara frá fyrsta deiti höfum við verið klesst saman og í dag vinnum við í sama rýminu og erum saman allan sólarhringinn en fáum aldrei leið hvort á öðru. Síðan er hún að fara til Danmerkur í þrjár vikur og ég er bara eiginlega með aðskilnaðarkvíða,“ segir Mummi og tekur utan um konu sína.

„Þetta er bara ótrúlegt. Ég í alvörunni hélt að þetta væri ekki hægt. Við höfum áður verið í samböndum, Mummi er ríflega sextugur og ég rúmlega fimmtug svo það er ekkert skrítið við það. En þetta, það er ekki hægt að lýsa þessu með orðum,“ segir Þórunn.

Húsið tók vel á móti þeim

Mummi flutti til Þórunnar í Hveragerði fljótlega eftir að þau tóku saman en nú eru þau alsæl á Gömlu Borg.

„Konan mín er þeim hæfileikum gædd að hún er alls staðar og fylgist með öllu – ég er meira hellisbúi en hún er alls staðar – hún var búin að fylgjast með á fasteignavefjum.

Bæði áttum við þann draum þegar við kynntumst að kaupa einhverja hlöðu eða eitthvað gamalt hús sem okkur langaði að gera upp og búa í. Svo allt í einu birtist þetta,“ segir Mummi.

Þórunn rakst á söluauglýsingu fyrir Gömlu Borg og varð strax heilluð.

„Ég var ekkert að sturlast úr spennu fyrst,“ segir Mummi. Hann heillaðist þó um leið og þau fóru og skoðuðu húsið.

„Húsið tók svo vel á móti okkur, það er erfitt að útskýra það en það bara bauð okkur velkomin,“ segir Mummi.

„Svo við bara gerðum tilboð og fluttum,“ segir Þórunn. „Við erum með alls konar hugmyndir um að halda þessu húsi í einhvers konar rekstri. Menningarhús, pop-up-viðburði eða eitthvað. Ímyndaðu þér hvað væri geggjað að vera hér með gaurinn með gítarinn og bara stóla – hvað sem er. En aðallega erum við með þetta sem húsaverndunarverkefni því þetta er hús sem er byggt árið 1929 og hefur gengið í gegnum alls konar og hér eftir verður ekkert sem kemur fyrir það, ekki á meðan við eigum það og við ætlum að eiga það lengi.“

Á nærbuxunum á ZOOM-fund

Hjónin eru nú með aðsetur í húsinu og til þess að það gæti gengið upp þurfti að ráðast í ákveðnar breytingar. Nú má í gamla þinghúsinu finna sturtur, þvottavél og þurrkara, og sviðið sem Sigur Rós spilaði á í kvikmyndinni Heima er nú svefnherbergi. Barinn sem áður svalaði þorsta gesta hefur nú fengið nýtt hlutverk og bjórdælan hefur vikið fyrir eldavél.

„Lífið á Gömlu Borg er mjög gott,“ segir Mummi. „Ég er B-maður í eðli mínu og gaurinn sem er alltaf með svefnraskanir svo ég sef á mjög skringilegum tímum. En hún er meira bundin við klukkuna. Hún er mætt í vinnuna hér við borðið fyrir allar aldir og svo skrölti ég á fætur einhverjum klukkutímum seinna og labba fram hjá með hendurnar ofan í nærbuxunum á meðan hún er á Zoom-fundi – og nú ætlar hún að leiðrétta mig …“

„… Hah, það er ekki alveg svoleiðis,“ segir Þórunn. „En lífið hér er rosalega gott. Það var svolítið skrítið þegar við fluttum 16. október og komum hingað. Það vantaði sturtur og að tengja þvottavél, laga eldhúsið og það var allt í hönk. Okkar heimur er hér, við erum alltaf í sambandi í gegnum tölvuna, en okkar heimur er ofsalega „content“.“

Tíminn er svo afstæður hér. Ég veit aldrei hvaða dagur er, það er bara dagur. Dagarnir líða hratt,“ segir Mummi.

„Það er svo geggjað að vera hérna einhvers staðar lengst út í sveit,“ bætir Þórunn við. „En við löbbum út í búðina við hliðina sem er með allt. Sundlaugin er svo hérna örfáum metrum frá og það tekur korter að keyra upp á Selfoss. Svo miðað við að vera í sveitinni erum við ótrúlega vel sett.“

„Það er svo lítið mál að fara út á Selfoss, það er bara korter, og þar er hægt að sækja alla þjónustu. Svo vinnum við bæði heima. Við erum líka ekki rosalega mikið elda-fólk.“

Þórunn nýtir aftur tækifærið og leiðréttir hann og bendir á að þau eldi nú alveg mat, þau séu bara ekkert mikið fyrir að borða. Mummi grípur um magann og segir:

„Ég er alltaf jafn hissa hvað ég er feitur út af því að …“ og Þórunn klárar setninguna fyrir hann: „… við eldum þegar við erum svöng en við erum ekkert oft svöng.“

„Við erum með sama óheilbrigða sambandið við mat. Það er bara einhvern tímann og kannski,“ útskýrir Mummi. „Við mælum aðallega á syninum, hvað hann er orðinn horaður, hvort það þurfi þá að fara í búð eða ekki.“

Þá hlær Þórunn „Nei, það er ekki þannig.“

Fjarvinnan umhverfisvæn

Þórunn vinnur hjá Landgræðslunni þar sem hún starfar í dag sem sviðsstjóri og er með starfsstöð bæði í Reykjavík og Gunnarsholti. Vegna COVID-19 hefur vinnan þó að miklu leyti farið undanfarið ár fram í gegnum fjarvinnu. Þórunn segist vona að þetta vinnumynstur haldi sér eftir faraldurinn þar sem bæði nýtist frítími betur þegar ekki þarf að keyra sífellt til og frá vinnu sem og kolefnisfótspor minnkar við minni akstur.

„Svo sjáum við bara að þetta gengur svo vel. Það á ekki að vera hamlandi að þú búir á Gömlu Borg í Grímsnesi ef þú getur unnið í gegnum tölvuna og átt þar í samskiptum en svo mætt í vinnuna öðru hvoru. Öll störf sem eru þannig í eðli sínu að fjarvinna gengur upp ættu að geta verið unnin hvaðan sem er.“

Þórunn hefur unnið hjá Landgræðslunni í tæp tuttugu ár, þó ekki í sömu stöðunni. „Ég er búin að vera hjá Landgræðslunni síðan 2003 en er búin að færast fullt til. Ég var að vinna úti í felti með bændum og fólki við eitthvað sem tengist landinu og svo við rannsóknir. Svo fór ég í nám og fékk rannsóknarnámsstöðu hjá Evrópusambandinu 2010-2013. Síðan kom ég aftur heim og fór þá aftur í rannsóknartengda vinnu hjá Landgræðslunni.

Árið 2017 fylgi ég svo Björt Ólafsdóttur inn í umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem aðstoðarkona hennar og eftir það fer ég enn aftur til Landgræðslunnar í enn annað starfið. Í  febrúar 2019 tek ég við sem sviðsstjóri og er núna yfir sviði sem heitir sjálfbærni og loftslag.

Ég brenn svo fyrir umhverfismálunum og öllu sem tengist því að mér finnst þetta ennþá ofboðslega gaman. Þetta er svo stórt svið og það er svo margt í þessu sem þarf að sinna og það að vera ekki alltaf í sama staðnum það er líka hollt, þó þú sért hjá sömu stofnuninni þá ertu ekki orðin svona …“ „Bókaskápur?“, skýtur Mummi inn. „Nei mér finnst þetta ennþá jafn skemmtilegt og enn jafn mikið sem ég brenn fyrir verkefnunum,“ segir Þórunn.

Enn með puttana í pólitík

Hún hefur þó ekki sagt skilið við stjórnmálin.

„Ég hef áfram verið með puttana í pólitíkinni. Þegar ég kom heim að utan 2013 þá var ég enn að vinna doktorsritgerðina mína og vantaði að finna hvað ég væri að gera og ná utan um sjálfa mig. Vinnan var ekki að sinna öllu því sem mig langaði að gera og ég sá að Björt framtíð auglýsti eftir fólki í málefnanefndir og ég hugsa: Aha, umhverfisnefnd, ég þangað.

Það þarf að hjálpa til að koma þessum boðskap áfram. Fólk þarf að fatta að það þarf að hugsa betur um umhverfið og allt sem því tengist – loftslagsmálin og allt. Og eitt leiddi af öðru. Ég var meira og meira inni í pólitíkinni og endaði með Björt inni í ráðuneyti.

Svo þegar ég flutti til Hveragerðis þá fór ég að taka púlsinn. Það var einmitt rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar. Svo ég endaði í samtali við félaga mína í Hveragerði sem voru að íhuga að stofna nýtt framboð og ég tók þátt í því að stofna það og endaði í öðru sæti á lista fyrir Okkar Hveragerði. Svo var ég í bæjarstjórn í Hveragerði þar til við fluttum hingað.“

Nú er Þórunn í öðru sæti á lista Viðreisnar á Suðurlandi fyrir komandi þingkosningar. „Það er stutt á milli þess sem Björt framtíð var að gera og þess sem Viðreisn er að gera í dag og mikið af fólki sem var í kringum Bjarta framtíð fór yfir í Viðreisn, meðan aðrir fóru í Samfylkinguna eða Vinstri-Græna, svo dæmi séu tekin. Svo ég er ekki alveg búin að sleppa pólitíkinni.

Ég trúi því og veit í hjartanu að ég hef fullt að segja í umhverfismálum. Ég kláraði doktorinn í umhverfisfræðum og þessu sem snýr þá sérstaklega að landinu og hvernig við getum gert betur með allt sem tengist móður jörð. Ég fæ stundum að heyra að ég sé …“ „Umhverfispönkari?,“ spyr Mummi. „Já og það er ekki bara þú, þó þú segir það mest,“ segir Þórunn hlæjandi.

„Ég trúi því að við þurfum fólk inn á þing sem hefur hugsjón fyrir einhverjum málefnum og brennur fyrir því og hefur líka þekkingu. Ég lærði mikið á stjórnsýsluna þegar ég var inni í ráðuneytinu með Björt og ég vil nota það. Því ég vil hafa áhrif á að breyta kerfinu okkar því það er ekki nógu vel upp byggt. Við getum gert það betra, fyrir okkur, fyrir jörðina – mömmu náttúru – og við eigum að gera það. Og ég veit að það er fullt af svoleiðis fólki sem hefur hugsjónir sem er að gefa kost á sér núna.“

Rændur mannorðinu

Mummi var eins og margir muna maðurinn á bak við Götusmiðjuna, sérhæft meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga sem komin voru út í heim vímuefna og afbrota. Götusmiðjan var starfrækt frá árinu 1997 til ársins 2010 þegar henni var lokað að kröfu barnaverndaryfirvalda.

„Ég er náttúrulega kvikmyndagerðarmaður í grunninn og listaspíra inn við hjartað. Eftir að Götusmiðjan var tekin af lífi, sem var mjög óvægið og ekki klárað mál ennþá, þá gerðist það eiginlega bara að ég fór í dvala. Ég bara viðurkenni það að ég áttaði mig ekki á því þá en þegar ég lít til baka þá var ég svolítið traumatíseraður eftir aðförina, hvernig var farið með mig, bæði mannorðið mitt og það sem ég var sakaður um.

Ég var bara svolítið í tætlum eftir þetta. Ég var búinn að vinna mikið, fá hjartaáfall, standa einn með þetta í fanginu í mörg ár, alltaf í fjársvelti, fullt af fólki í vinnu, tuttugu unglinga í meðferð. Ég vissi að það kæmi að mér að hætta eða drepast úr þessu. En mig grunaði aldrei að það yrði gert með þessum hætti sem Barnaverndarstofa gerði.“

Ekki búið ennþá

Mummi var meðal annars sakaður um að hafa hótað ungmennum ofbeldi, einelti, fjármálaóreiðu og fleira.

„Þetta var svakaleg umræða og hún er ekki búin ennþá því ég og lögmaður minn erum að fara fram á það við ráðherra að hún verði rannsökuð þessi lokun og ég fái mannorðið mitt til baka því þetta var ljót aðför og illa gerð því þetta snerist allt um peninga. Þetta snerist um það eftir hrun að það átti að skera niður í barnaverndarkerfinu og ég og ónefndur maður hjá þessari stofnun vorum aldrei vinir.

Þannig að hann sá sér leik á borði að rifta samningi með þessum hætti. Ég var með þjónustusamning við ríkið og það var ekki hægt að rifta honum nema það væru alvarlega vanefndir. Svo það voru búnar til alvarlegar vanefndir, þar sem ég átti að hafa hótað unglingum hnébroti. Eftir að hafa haft í meðferð hátt í tvö þúsund ungmenni, heldurðu ef ég væri ofbeldismaður að það væru ekki allir fjölmiðlar fullir af fórnarlömbunum mínum? Maður hefði haldið að einhver stigi fram og segði: „Mummi barði mig“ eða eitthvað og ég auglýsi eftir því. Ég kærði mig sjálfur en það er víst ekki hægt. Ég bauðst til að flytja af staðnum, ég bauðst til að stíga til hliðar og annar forstöðumaður kæmi inn, það var bara öllu lokað.

Ég fékk aldrei rödd gagnvart kerfinu, fékk aldrei að tala við neinn, ekki hjá barnavernd, Barnaverndarstofu eða ráðuneytinu og nú eru liðin tíu ár.“

Þórunn bendir á að nú eftir að umræðan opnaðist um þá meðferð og ofbeldi sem konur máttu sæta á meðferðarheimilinu Laugalandi, sem Barnaverndarstofa hefur nú beðist afsökunar á, ætti eðlilega að hefja rannsókn á fleiri slíkum heimilum, meðal annars Götusmiðjunni.

„Ef ég má hoppa aðeins inn í. Þá varðandi þessa umræðu sem tengist Laugalandi og allar þessar flottu konur sem hafa stigið fram. Allt sem gerðist í kringum Götusmiðjuna og lokunina eins brútal og það var, þarna stíga fram þessar flottu konur til að skila skömminni og hreinsa til, af hverju fær hann ekki líka að skila skömminni sem hann á ekki? Og þess vegna á ríkið að taka þetta mál, eins og öll önnur mál frá barnavernd á þessum tíma og skoða upp á nýtt. Það á allt að vera upp á borði.“

Gamalt götubarn

Mummi segir atburðarásina minna á kvikmyndahandrit.

„Þetta hljómar eins og handrit að bíómynd, atburðarásin í þessu. Ég vissi það að einhvern daginn myndi ég klassa við þessa stofnun og það stefndi allt í það. Það fór rosalega mikið í taugarnar á mörgum í þessum bransa að ég var kvikmyndagerðarmaður en ekki sálfræðingur eða félagsráðgjafi – ég var ekki menntaður. Þetta var bara mitt hjartalag.“

Ég er gamalt götubarn. Ég er alinn upp við mjög erfiðar aðstæður og fer mjög ungur á sjó og fer alla þessa leið sem þessar krakkar fóru. Ég er kominn fjórtán ára á togara og var í rauninni týnda barnið og ég þekkti þennan heim mjög vel. Ég geri þetta og stofna, eins og hún [Þórunn] með umhverfismálin, með hjartanu.

Þetta byrjar þannig að ég er starfandi kvikmyndagerðarmaður eftir nám erlendis, þá loksins rennur af mér fyrir þrjátíu árum síðan, og ég er fenginn til að kenna kvikmyndagerð í félagsmiðstöð og einhverjum klúbbum. Ég sé þá mína líka í þeim hópum. Þarna eru einhverjir Mummar og Mummur og ég náði strax sambandi við þessa krakka. Þannig byrjar mitt unglingastarf.

Ég ætlaði aldrei að reka einhverja meðferðarstofnun. Svo bara þróast þetta, fyrst Mótorsmiðjan, svo Mótorsendlar og rauði þráðurinn er alltaf neyðarathvarf í stríði við kerfið sem sagði að það væru engin börn á götunni. Ég sagði: Jú þau eru sofandi heima hjá mér nokkur núna, þau eru á götunni.

Svo heyri ég útvarpsviðtal þar sem barnavernd er að segja að það séu engin götubörn á Íslandi svo kerfið var í bullandi afneitun í þessum málaflokki og er svolítið þannig enn í dag.

Fyrsta sjónvarpsmyndin sem ég gerði eftir að ég varð kvikmyndagerðarmaður var heimildarmynd fyrir RÚV um utangarðs unglinga. Þar er ég að tala við og taka viðtöl við unglinga á götunni sem kerfið sagði að væru ekki til. Þannig að kerfið hefur opnast. Ég gef þeim alveg kredit fyrir það. Umræðan orðin víðari en það er samt mikið af ungu fólki þarna úti sem á ekki í nein hús að venda og það er bara staðreynd. Fólk á svo erfitt með að trúa þessu en þetta er enn raunveruleikinn.

Ég innviklast í þennan unglingaheim í gegnum kvikmyndagerð. Svo er það eitthvað Jesús-heilkenni í mér að ég varð að gera eitthvað, ég fann þjáningu þeirra, angist og skömm og tengdi við hana og fannst ég verða að gera eitthvað. Þannig verður mitt unglingastarf til. Svo vefur þetta upp á sig og verður stærra og stærra.

Ég hugsaði allt mitt unglingastarf – hvernig vildi ég að einhver hefði nálgast mig þegar ég var ungur reiður maður að misnota vímugjafa. Á því var allt þetta meðferðarstarf byggt, á þessari grunnhugmynd. Það þarf að sýna vinsemd og virðingu, saman hvaðan börnin koma, hvað þau hafa gert og hvernig kerfið hefur merkt þau. Ég las ekki eina einustu skýrslu um þá sem leituðu til Götusmiðjunnar fyrr en ég var búinn að kynnast þeim fyrst.

Þau koma inn í meðferðarstarf og þau þurfa að læra að fóta sig – læra að treysta. Óvinurinn er heimur hinna fullorðnu. Þau hafa verið í alls konar úrræðum og ekkert gengið en svo fóru þau að stoppa í Götusmiðjunni og það fór nett í taugarnar á kerfinu hvað þetta gekk vel.

Ég var til dæmis með fyrirlestra, eins og poppstjarna um allt land og það var alltaf einn í hópnum sem spurði í lok hvers fyrirlestrar hvað ég væri menntaður. Svo ég var downgrade-aður í hverjum einasta fyrirlestri en ég svaraði alltaf því sama – ég er bara kvikmyndagerðarmaður. Það var svolítið verið að segja við mig – hver heldurðu eiginlega að þú sért?

Missti allt með Götusmiðjunni

„Þetta er löng og mikil saga en ekki nóg með það að Götusmiðjan hafi verið tekin af mér þá tóku þau allt annað af mér líka því ég var í sjálfsskuldaraábyrgð fyrir stofnunina sem var loksins réttum megin við núllið. Við skulduðum milljónir, ég var alltaf í slökkvistarfi hver mánaðamót, borga launin og allt saman. Svo loksins þegar þetta fer að stefna í lygnan sjó þá gerst þetta.

Ég fer bara alveg á pípandi hausinn og missi íbúðina, mótorhjólið og allt saman. Og var svo úthrópaður sem ofbeldismaður. Þess vegna vil ég fá rannsókn á þessu því ég get verið alls konar, kjaftfor og you name it, en ég er ekki ofbeldismaður.

Það er aldrei of seint. Ég meina ég er gamalt Silungapollsbarn, sem var barnaheimili eins og Breiðavík þar sem börn voru send frá félagslega erfiðum heimilum. Ég var þar 3-4 ára og get alveg sagt það hér, var misnotaður þar. Ég kem brotinn inn í fullorðinsárin og auðvitað geri ég bara það sem ég þarf til að lifa af. Ég var í rómantísku ástarsambandi við vímuefni.

Ég sem sagt var gaurinn sem var inn og út úr meðferðum, fór inn á geðdeild, slóst við lögguna, var í götuslagsmálum. Reiður ungur maður. Svo er ekki fyrr en ég verð þrítugur að ég krassa í lífinu og verð nógu hræddur til að hugsa að annað hvort verði ég að deyja og stimpla mig alveg út eða gefa enn einni meðferðinni séns. Og ég fer í meðferð og mér var hent út sjö dögum seinna því ég var svo lélegur alkóhólisti. Ég var ekki að taka leiðsögn og eitthvað guð og var eitthvað með skoðanir á þessu öllu og þótti ekki fýsilegur skjólstæðingur og var beðinn um að vera úti.

12 sporin hafa aldrei gert neitt fyrir mig en eru fín fyrir þau sem þetta virkar fyrir. En ég hef aldrei tengt við að vera alkóhólisti eða dópisti, það var birtingarmynd af sársauka mínum og ég var alltaf að reyna að deyfa hann niður.“

Örlagastund á landlínunni

„Ég var einskis virði í eigin augum svo auðvitað reyndi ég að deyfa það. En alki eða ekki alki, mér finnst það ekki skipta öllu máli en ég tengdi ekki við þetta kombó. Það sem ég á lífi mínu að launa og sá sem bjargaði lífi mínu raunverulega var Bjarni bróðir minn. Ég var þá nýkominn út af þessari stofnun, liðnar einhverjar vikur og ég er í símanum, á gömlu landlínunni, við eldri bróður minn sem er þerapisti og ég skynja að hann er eitthvað pirraður á mér.

Ég gleymi ekki þessu mómenti því þetta var … hvað segir maður? U-beygja. Örlagastund. Ég spyr Bjarna: „Af hverju ertu svona leiðinlegur?“ og hann svarar: „Mummi, þú ert svo mikill heigull að ég þoli þig ekki.“

Ég taldi mig vita hvað heigull þýddi og garga í símann: „Ég hef rotað ísbirni fyrir hádegi og ég er sko enginn heigull.“ En þá segir hann: „Þú ert heigull því þú þorir ekki að birta hver þú ert og þar af leiðandi verður þú aldrei edrú.“

Ég braut símann og skellti honum mörgum sinnum en ég man að ég var staddur á Laugaveginum þegar ég skildi hvað hann sagði. Hann hafði skynjað að ég var að gefast upp á lífinu og fannst ég vera heigull vegna þess. Og það var rétt. Ég var svo mikill heigull að ég þorði ekki að birta hver ég var, og þá gat ég ekki vitað hver ég var því lífið er spegill.

Þá hófst vinnan. Ég fór í stólavinnu, ég fór til sálfræðinga, ég fór í strákagrúppur, stofnaði strákagrúppur, ég fór bara á kaf í þetta og þá loksins náði ég lífinu mínu til baka. En það tók mörg mörg ár.“

Lærði að elska

Mummi segir að hann hafi þurft að læra að elska sjálfan sig skilyrðislaust. Þáttaskil urðu hjá honum árið 2019 þegar hann prófaði hugbreytandi efnið Ayahuasca og horfðist í augu við sjálfan sig og náði að setja lífið í samhengi.

„Það var upphafið að þessu lífið sem ég á í dag og þegar við hittumst í fyrsta sinn þá upplifði ég það í fyrsta sinn með fullri virðingu fyrir allri minni fortíð – að svona er það að elska því einhvers staðar var ég búinn að taka sjálfan mig í fangið og ekki bara það heldur leyfði ég henni að elska mig.

Ég var alinn upp við það alla ævi sem svarti sauðurinn í fjölskyldunni að vera alinn upp á skilyrðum. Ef ég væri til friðs, þá yrði allt gott. En það var ekki raunveruleikinn. Þannig ég var elskaður á því skilyrði að ég væri til friðs. En ég var krakkinn sem löggan kom stundum með heim. Braust inn í sjoppu níu ára og alls konar.

Svo verð ég fullorðinn með öllu því brambolti og allt það vesen. Málið er að enn þann dag í dag á ég daga þar sem ég elska mig á skilyrðum en heilt yfir elska ég mig og leyfi konunni minni að elska mig.“

Á meðan á viðtalinu stendur sitja hjónin þétt og virðist hvorugt þeirra hafa áhuga á að hafa ekki höndina á hinu.

„Ég trúði ekkert sérstaklega á ástina,“ segir Þórunn. „Ég ætlaði bara að vera ein því ég væri best þannig. En mig langaði svolítið í einhvern til að tala við, fara með í bíó og svoleiðis. Svo bara BÚMM.“

„Þetta var bara sturlun strax,“ segir Mummi og Þórunn bætir við: „Það er eins og við höfum alltaf verið par. Það er svo skrítið. Við höfum varið svo miklum tíma saman, fáum aldrei leið hvort á öðru. Verðum stundum ósátt eins og lífið er, en við tölum okkur í gegnum það og gerum allt saman í ást.“

Kvikmynd og þáttaröð

Í dag er Mummi í VIRK starfsendurhæfingu eftir bílslys sem hann lenti í árið 2015.

„Ég eyðilagði á mér bakið og það hefur alltaf verið að há mér. Ég er í því prógrammi núna að reyna að ná heilsunni til baka og er að dunda mér við listsköpun. En svo hef ég alltaf verið að skrifa kvikmyndahandrit og er núna búinn að fjármagna eina mynd sem er að fara í tökur í haust og ætla að leikstýra henni. Það er mjög svört mynd, very dark, og endar illa en þetta er bara sjónvarpsmynd sem er 20-30 mínútur. Harmsaga. Það er búið að velja í þetta leikara og framleiðslufyrirtæki. Tökur frestuðust aðeins út af COVID, þær áttu að hefjast í apríl en nú er orðið of bjart úti.

Svo er ég að skrifa þáttaröð í tíu þáttum sem eru grín. Hún er öll byggð á gömlum fylleríssögum, ekki bara frá mér heldur vinum mínum og sögur sem ég hef heyrt í gegnum tíðina og er svona dark satíra. Allt sem hefur gerst í þessum þáttum gerðist raunverulega.

Þeir sem hafa farið inn í þennan neysluheim eiga endalausar sögur. En svo er rauður þráður sem gengur í gengum þættina sem sagan er byggð á. Það verða líklega einhverjir félagar mínir hissa sem þekkja sjálfa sig úr atvikunum og sum atvikin eru lyginni líkust en þau gerðust. Svo í gegnum VIRK er ég að fara að vera með kvikmyndaklúbb á Selfossi fyrir batterí sem heitir Birta starfsendurhæfingarstöð. En mig langar ekki aftur inn í fíkniheiminn. Ég hef heilmargt að gefa fólki sem á erfitt að fóta sig en mér er alveg sama þó ég sjái aldrei dópaðan einstakling aftur. Ég er til í að vinna með fólki sem vill aðstoð og hef heilmargt fram að færa.

Ég er með doktorsgráðu í lífsreynslu báðum megin við borðið, sukk-megin og edrúmegin, og hef heilmikið að gefa og ef einhver vill þiggja. Það hefur vantað í mig þetta veraldlega element. Í gamla daga fór ég kannski á loðnuvertíð og átti rosalega mikinn pening einu sinni í mánuði. Ég tók þá kannski leigubíl á Þingvelli og það var rosalega gaman og kláraði peningana. Síðan var ég bara kominn út á sjó aftur.

Mér er alveg sama um peninga, ég þarf þá og við til að lifa af en ég hef aldrei keppst við að eignast hvorki eignir né bíla. Ég er bara rosalega sáttur ef að konan er enn skotin í mér, og það er til mótorhjól, kaffi og það rignir ekki á mig. Þá er ég bara happy.

Eins og þú heyrir er rosalega mikið í gangi hér á Gömlu Borg, en fyrst og fremst er ég kvikmyndagerðarmaður. Þetta var æskudraumurinn minn. Ég er lesblindur með ADHD og gekk skelfilega í skóla en myndmálið, það var alltaf mitt outlet og mig dreymdi um að verða kvikmyndagerðarmaður frá því ég var lítill krakki í bíó. Hjálparhliðin í lífinu var hliðarspor. Ofsalega langt, gefandi, sársaukafullt og allar tilfinningar í því og ég sé ekki eftir því.“

Mynd/ERNIR

Forréttindapésar

Blaðamaður spyr þá hvað það besta sé við lífið á Gömlu Borg.

„Húsið, andinn í húsinu. Gamli panellinn hérna í loftinu, rósettan, barinn. Að vakna hérna inni í þessu umhverfi,“ segir Þórunn. Þeim hjónum dreymir um að færa húsið aftur til vegs og virðingar, gera upp lóðina og jafnvel bæta við fallegum palli. Þetta er hús með sögu, hús þar sem fólk hefur dansað, orðið ástfangið, stundað pólitík, borðað og glaðst.

„Það besta við að vera hér er að vera hérna með þér,“ segir Þórunn og brosir til Mumma síns. Það er meira búið en eftir í lífinu, það er bara staðreynd og það að vera á þessum stað í svona djúpu tilfinningasambandi og vakna alltaf fullur af þakklæti, það er bara svo gott.“

Mummi er þessu hjartanlega sammála. „Þetta eru forréttindi. Bæði að vinna við það sem okkur langar að gera í lífinu, svo við erum eiginlega bara forréttindapésar.“

Bæði eru þau með fullt af verkefnum á prjónunum, og svo Gömlu Borg þar að auki. Það er einnig líf og fjör í kringum hjónin því þau eiga rúmlega tuttugu afkomendur.

„Við eigum bæði 17 ára gutta sem eru hrútar, aprílgaurar, og það eru svona síðustu börnin okkar og eftir ár eru þeir sjálfráða og þá dettum við í að eiga engin börn heldur bara fullorðin börn,“ segir Mummi. „Elsti sonur minn er 42 ára. Fullorðinn maður og hann á fimm börn í Svíþjóð.“

Mummi á sex börn og átta barnabörn og Þórunn á fjögur börn og fjögur barnabörn. Allt í allt eru afkomendurnir því tuttugu og tveir.

Lífsbreytandi símtal

Mummi fékk óvenjulegt símtal árið 1996.

„Gamla lífið mitt er ekki nýja lífið mitt og 1996 fæ ég símtal frá konu sem segir orðrétt: Ég veit ekki hvernig ég á að segja þér þetta en þú átt dóttur sem er sextán að verða sautján ára. Ég hélt að þetta væri svona símaat því það hafði verið hringt í mig frá útvarpsstöðvum með alls konar bull í beinni og ég segi bara: „Hahah, ógeðslega fyndið.“

Svo fór ég að fá hjartslátt. Fór að reyna að raða þessu saman og hitti konuna og hún var með myndir sem ég þurfti ekki annað en að líta á til að sjá að ég átti þessa stelpu. Ég kannast við þennan svip. Það fór í gegnum DNA og ég er pabbi hennar. Það er rosalega sérstakt að kynnast barninu sínu þegar það er orðið fullorðið, hún var orðin 17 ára þegar við hittumst. Það er sérstakt að hafa misst af æskunni, en kannski heppilegt fyrir hana eins og lífið mitt var svo hún var líklega heppin líka en ég elska hana ofurheitt og hún er ein af börnunum mínum.

Hún er í dag gift kona úti í bæ, á mann og tvo yndislega stráka. En það sem er sérstakt við þetta var að ég hafði tvisvar sinnum verið með fyrirlestur í skólanum hjá henni áður en ég vissi að hún væri til. Hefði ég vitað að hún væri til hefði ég auðvitað teygt mig til hennar og allt það en þetta var mjög sérstök tilfinning,“ segir Mummi og þau hjónin horfast í augu, alsæl og ástfangin upp fyrir haus í nær hundrað ára gömlu húsi sem án efa geymir ófáa fyrstu kossa af sveitaböllum og enn fleiri nýja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta