fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Fókus

„Hann var loksins dæmdur og fór í fangelsi – En svo kom hann út og þá var bara allt alveg eins“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 25. desember 2021 20:00

Margrét Sif Sigurðardóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Sif Sigurðardóttir steig fram í byrjun desember og lýsti hrottalegu ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu barnsföður hennar. Hann beitti hana ofbeldi yfir margra ára skeið.

Hún sagði frá því hvernig barnsfaðir hennar réðst á hana fyrir framan foreldra hans og þáverandi kærustu hans og enginn greip inn í. Margrét sagði frá þessu í hlaðvarpsþættinum Eigin Konur.

Sjá einnig: Barnsfaðir Margrétar réðst á hana fyrir framan foreldra hans og son þeirra – „Það var bara þögn. Enginn gerði neitt“

Margrét var ekki eina konan sem maðurinn beitti ofbeldi, en það var ekki fyrr en að þriðja konan kærði barnsföður hennar fyrir ofbeldi sem málið komst á skrið og hann var dæmdur í fangelsi.

„Það er hræðilegt að hlutirnir hafi þurft að ganga svona langt. Þarna er ég með áverka og vitni en samt ekki nóg til þess að kæra. Síðan fer næsta sem hann beitir ofbeldi, kærir og fær sömu svör. Síðan fer sú þriðja og kærir. Þarna er þetta búið að ganga á í mörg ár og allir vita af þessu, allir hvísla um þetta en enginn gerir neitt. Hversu margar á hann að berja til þess að fá dóm?“ sagði hún.

Margrét vill ólm vekja athygli á málefnum þolenda í réttarkerfinu og ræddi frekar um málið í samtali við DV.

Margrét Sif Sigurðardóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Viðbrögðin við þættinum

Margrét segir að hún hafi fenguð mikil viðbrögð þegar þátturinn kom út. „Ég sagði eiginlega engum að ég væri á leið í viðtal. Ég ákvað bara að fara og ég var þvílíkt kvíðin,“ segir hún.

„Ég held að þetta hafi komið mörgum á óvart því það vissi enginn af ofbeldinu. Það eru mjög margir sem sendu og báðust afsökunar á að hafa ekki tekið eftir því,“ segir Margrét og bætir við að nokkrir fjölskyldumeðlimir barnsföður hennar hefðu einnig sent henni skilaboð sem henni þykir vænt um.

„Þeir sendu mér stuðningskveðju og sögðust standa með mér og syni mínum. Ég held líka að margt sem kom fram hafi fengið fólk til að aðeins átta sig á hversu alvarlegir hlutirnir geta verið og hafa verið, og líka aðeins að líta í eigin barm. Margir sem sendu: „Sorry að ég gerði ekki neitt.“ Eins og sameiginlegir vinir okkar þegar við vorum saman, sem kannski sáu hann gera eitthvað eða þurftu að halda honum frá því að gera mér eitthvað. Þeir báðust afsökunar að hafa ekki gert meira.“

„Hún man hvað hún hugsaði“

Margrét ræddi einnig við fyrrverandi kærustuna sem varð vitni að árásinni ásamt foreldrum hans.

„Hún sagði einmitt að á þessum tíma hefði hún hugsað: „Hvað er hún að gera, hún veit að hún á ekki að segja neitt, hún á ekki að styggja hann.“ Hún sagði að þetta væri svo mikil geðveiki, hvernig hugsunarhátturinn manns verður,“ segir Margrét.

„Hún talaði um það hvað hún mundi eftir því að hún hugsaði: „Oh af hverju var hún að þessu?“ Hún brást svona við því hún var sjálf svo rosalega hrædd við hann og ef hún hefði sagt eitthvað hefði hún orðið fyrir barðinu á honum.“

Fyrrverandi kærastan, sem kýs að koma fram nafnlaus en gefur leyfi fyrir birtingunni, deildi eftirfarandi færslum í Story á Instagram eftir að viðtalið við Margréti kom út.

Færslan á Instagram.

Þegar fólk vill ekki taka afstöðu

Margrét segir að það sem reynist einnig mjög erfitt í þessum aðstæðum er þegar fólk tekur afstöðu með gerendum í svona málum. Það leiðir til þess að það bitnar til dæmis á syni hennar sem er í litlu sem engu sambandi við föðurfjölskyldu sína.

„Svo var hann loksins dæmdur og fór í fangelsi. En svo kom hann út og þá var bara allt alveg eins,“ segir Margrét en hún vonaðist til að dómurinn myndi þýða að fólk myndi loksins sjá hann fyrir það sem hann er.

„En hann sneri aftur út í samfélagið eins og ekkert hafi gerst. Það eru margir sem héldu áfram að verja hann, segja að ég væri klikkuð og svona. Þetta var bara ógeðslega fúlt, það var ekki tekin nein ábyrgð. Það var engin samfélagsleg ábyrgð,“ segir hún.

Margrét segir að fyrsta atvikið þar sem barnsfaðirinn hefði beitt stelpu ofbeldi var fyrir sautján árum síðan.

„Þetta er eitthvað sem hefur verið í gangi í allavega sautján ár, loksins er maðurinn dæmdur og fólk sér ekki sóma sinn í að segja: „Ókei fyrirgefðu. Ég stend með ykkur.“ Það vill „ekki blanda sér“ inn í þetta. Hvað þarf eiginlega til?“

Frelsissvipting og líkamsárás

„Ég hef heyrt fólk segja, og séð það skrifa á samfélagsmiðlum, að svona eigi að fara í gegnum réttarkerfið og að dómstólar götunnar, eins og Edda Falak og Öfgar, eigi ekki að vera að dæma fólk. En ef þú veist af manneskju sem er búin að koma upp með svona hluti í sautján ár, og er svo loksins dæmd og afleiðingarnar eru næstum engar, hvað áttu þá að gera? Hann fékk sex mánuði, og það var það sem ríkið bað um,“ segir Margrét.

Umrætt brot sem maðurinn var dæmdur fyrir var gegn þáverandi kærustu hans, Emilíönu Bened Andrésdóttur. DV tók viðtal við hana árið 2019 þar sem hún sagði frá því hvernig hann hélt henni fanginni á heimili sínu á Akureyri og hún beitt hrottalegu ofbeldi í rúmlega þrjár klukkustundir.

Sjá einnig: Frelsissvipt af barnsföður sínum – Borin út af heimilinu nakin, blóðug og marin

Hann var kærður fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og fleiri brot en ákæran var alls í sjö liðum. Fyrirtaka í málinu fór fram í Héraðsdómi Norðurlands eystra sumarið 2019 og þar játaði hann á sig sök samkvæmt öllum liðum ákærunnar og fékk sex mánaða dóm. Emilíana sagði að það hefði verið mjög sárt að ríkið hefði ekki farið fram á þyngri refsingu.

Emilíana sagði að andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu mannsins hefði staðið yfir í fjögur ár, og í mörg skipti hafi kornung dóttir þeirra verið viðstödd.

„Það þarf fólk eins og Eddu og Öfga, því miður, því réttarkerfið gerir ekkert fyrir þolendur,“ segir Margrét.

Margrét Sif Sigurðardóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Vill sjá réttarkerfið tekið í gegn

Aðspurð hvað hún vill sjá gerast segist Margrét vilja sjá réttarkerfið tekið í gegn. „Mér finnst margar konur ekki mæta miklum skilning og taldar trúverðugar. Það þarf líka að skoða hversu mikil sönnunarbyrðin þarf að vera. Eins og það var stelpa sem var með skrifaða játningu, svo fór strákurinn í yfirheyrslu og neitaði og það var tekið gott og gilt. Þetta er fáránlegt að skrifuð játning sé ekki nóg, hvað er þá nóg?“

Hún líka spyr sig af hverju þolendur mega ekki bera vitni fyrir hvor aðra ef gerandinn er sá sami. Eins og hún fór í vitnisskýrslu fyrir annan þolanda barnsföður hennar, til að bera vitni um hvernig hann kom fram við hana og hvers konar persóna hann er, en henni var sagt að það yrði ekki tekið mark á því þar sem þetta væru tvö mismunandi mál. „Þetta er sami maðurinn að gera þetta við maka, hvernig tengist þetta ekki? Líka refsiþyngd, allar sannanir lágu fyrir, hann játaði brotin en fékk aðeins sex mánuði. Hvað meira þarf til?“

Margrét segir að hún vill einnig sjá að dæmdir ofbeldismenn þurfi að fara í sjálfsvinnu og einhvers konar sálfræðimeðferð. „Oft eru þetta menn sem eru að glíma við alls konar vandamál. Enginn sem lendir í fangelsi er á góðum stað andlega. Það þarf að gera þá reiðubúna að fara aftur í samfélagið.“

Þeirra eigin fjölskylda

Margrét og Emilíana eru í góðu sambandi í dag.

„Við pössum okkur að systkinin umgangist hvort annað. Við höfum okkar litlu fjölskyldu saman, það er alveg dásamlegt,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur standi í vegi fyrir sáttum og beri nú sjálfur sök á stöðunni

Vilhjálmur standi í vegi fyrir sáttum og beri nú sjálfur sök á stöðunni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fær annað tækifæri til að finna ástina

Fær annað tækifæri til að finna ástina
Fókus
Fyrir 4 dögum

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí