fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Karen Ösp birtir fermingarmyndina: „Þarna var ég föst í grófu ofbeldissambandi, sérð þú það?“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 12. maí 2021 09:30

Fermingarmynd Karenar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karen Ösp Friðriksdóttir er markþjálfi, eiginkona og móðir. Hún opnaði sig nýverið um hrottalegt ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu þáverandi kærasta.

„Ég hef oft sagt frá þessu og talað við fermingarbörn á Álftanesi í níu ár um þessa lífsreynslu. Ég ætlaði ekki að taka þátt í þessari byltingu núna því mér fannst ég ekki eiga þátt í henni vegna þess að ég er búin að vinna mig mjög úr þessu áfalli og það áreitir mig ekki alla daga. Svo fór ég að lesa allar sögurnar og áttaði mig á því að sagan mín má aldrei hætta að heyrast,“ segir Karen í samtali við DV.

„Hún skiptir máli og hjálpar alltaf einhverjum. En í þetta skipti treysti ég mér að segja frá meiri smáatriðum og því sem samfélagið hefur sagt við mig, öll þessi skipti sem ég hef þurft að svara fyrir að þetta var ofbeldi. Ég gerði þetta líka fyrir litlu Karen Ösp sem lenti í ofbeldinu, að standa með henni og segja söguna hennar. Það eru svo margir á þeim stað að treysta sér ekki til þess og það er í góðu lagi. Það að segja: „ég á sögu en treysti mér ekki til að segja hana“ er svo mikið hugrekki, ég var einu sinni þar líka.“

Karen deilir mynd af sér frá tímabilinu sem hún varð fyrir ofbeldinu. Það er fermingarmynd, en Karen var aðeins þrettán ára þegar ofbeldið hófst.

„Þarna var ég föst í grófu ofbeldissambandi, sérð þú það?“ segir Karen Ösp.

Fermingarmynd Karenar.

„Ég lék minn besta stórleik þarna. Ég var stöðugt í ótta, ég var alltaf með hnút í maganum og mér brá við minnsta hljóð. Ég var þrettán að verða fjórtán og fór í mitt fyrsta samband, ég vissi mín mörk upp á tíu og taldi mig vera að fara í saklaust unglingasamband.

Eftir tvo mánuði hélt hann mér niðri og bjó til stóran sogblett á hálsinum mínum. Þarna fann ég fyrst að hann fór yfir mörkin mín. Mörkin áttu svo eftir að færast lengra og lengra þar til það voru engin mörk. Hann heyrði ekki „nei“, „hættu“ og „ég vil þetta ekki.“ Hann sá ekki tárin mín, sorgina og óttann.

Á fermingardaginn var ég búin að upplifa grófustu klámmyndir sem ég hef séð. Hann var búinn að halda framhjá mér og tala mig til að hætta ekki með honum því við ættum að verða gömul saman. Hann tók meydóminn minn og allt sem heitir fyrsta skiptið mitt.

Ég horfði fast á klukkuna mína sem lýsti upp í loftið og var farin að vita hvað það tæki hann langan tíma að klára, ég taldi niður mínúturnar.

Mánuðirnir liðu og ég fjarlægðist vini og fjölskyldu meira og meira, en mest fjarlægðist ég sjálfa mig.“

Karen í dag.

Var 26 ára þegar hún áttaði sig á alvarleikanum

Tæplega tveimur árum seinna, eða 21 mánuðum seinna, komst Karen Ösp úr sambandinu. „Hann hætti samt aldrei að áreita mig. Tveimur mánuðum seinna talaði hann mig í það að hitta sig, hann nauðgaði mér,“ segir hún.

„Ég eignaðist nýjan kærasta og passaði mig að vera alltaf í sambandi svo ég hefði afsökun að hitta hann ekki eftir. Ég var tuttugu og sex ára þegar ég áttaði mig á alvarleika ofbeldisins. Hann fékk dóm frá annarri stelpu en ég kærði hann aldrei. Rétturinn minn er svo lítill því hann var jafngamall og ég. Þú kærir bara eftir fimmtán ára aldur. Ég veit ekki hvað gerðist fyrir eða eftir fimmtán ára.

Sárin mín eru eins gróin og hægt er. Ég ætla ekki að skera þau upp því ég get ekki treyst dómskerfinu okkar fyrir þeim. Ég vel mig.

Í dag kvíði ég því ekki að mæta honum og ég stend þráðbein að skrifa þetta. Ég hef oft sagt mína sögu en ekki með svona smáatriðum. Ég hef fengið að upplifa gerendameðvirkni með spurningum eins og „var hann ekki miklu eldri en þú?“, „varstu nokkuð nógu skýr?“, „voruð þið ekki bara börn að prófa ykkur áfram?“, „sagðir þú örugglega nei?“ og svo lengi mætti telja.

Gerendur líta hvernig sem er út, eru á alls konar aldri og af hvaða kyni sem er. Þeir eru meistarar í að láta þig trúa sér og finnast þeir frábærir. Elsku hugrökku stelpur, takk fyrir ykkur, styrkinn og ljósið.“

Færsluna má nálgast hér.

Síðustu vikur

Ný #MeToo-bylgja hófst í síðustu viku eftir að tvær konur lögðu fram kæru gegn Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður. Mikill fjöldi hefur stigið fram með sínar sögur af ofbeldi á samfélagsmiðlum. Aðspurð hvernig síðustu vikur hafa verið viðurkennir Karen Ösp að þær hafa verið skrýtnar.

„Þær taka öðruvísi á andlega en í síðustu #MeToo-byltingu. Núna er ég meira á hliðarlínunni og stend sterkari, en ég er mjög þreytt og líður alltaf eins og einhver sitji á öxlunum á mér. Ég er alla daga að rifja upp minningar frá þessum tíma en ég á svo svakalega sterkan mann sem hlustar á mig endalaust, auk þess er fjölskylda og vinir stöðugt að athuga með mig. Ég hef alltaf verið með sterka réttlætiskennd og hún drífur mig áfram, núna þarf eitthvað að breytast í samfélaginu og kerfinu okkar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“