fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Sakamál: Hið undarlega mál Sabrinu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 25. júlí 2020 21:25

Móðirin Lisa Knoefel, ættleidda dótturin Sabrina og fjölskyldufaðirinn Kevin. Mynd/Lögreglan í Willoughly Hills

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki löngu eftir miðnætti þann 16. nóvember árið 2012 átti sér stað ólýsanlega óhugnanlegt símtal í neyðarlínuna frá smábænum Willoughly Hills í Ohio, bæ þar sem búa um 10.000 manns. Þrettán ára stúlka var í símanum og náði vart að gera sig skiljanlega vegna örvæntingar og skelfingar. Hún sagði að systir hennar væri að myrða móður þeirra. Eftir nokkurt þref tókst starfsfólki neyðarlínunnar að fá heimilisfangið upp úr stúlkunni og lögregla var send á vettvang.

Aðkoman var skelfileg. Unglingsstúlkan sem hafði hringt kom öskrandi til dyra, hin 13 ára Megan, og sagði lögreglumönnum að stóra systir hennar, Sabrina, væri að myrða móður þeirra. Inni í húsinu hittu lögreglumennirnir fyrir eldri unglingsstúlku, sem hélt á hníf og bolurinn sem hún klæddist var alblóðugur. Inni í hjónaherberginu lá kona í blóði sínu og var látin. Þriggja ára gömul dóttir hennar sat kjökrandi inni í fataskápnum. Blóðuga stúlkan afhenti lögreglunni morðvopnið að eigin frumkvæði og veitti enga mótspyrnu við handtöku.

Hvaða fólk var þetta?

Þetta var á heimili hjónanna Kevins og Lisu Knoefel. Kevin var 43 ára gamall vörubílstjóri og var að heiman þessa hræðilegu nótt. Lisa Knoefel, sem nú var látin, var 41 árs og starfaði sem félagsráðgjafi. Kevin og Lisa áttu tvær blóðdætur, 3ja og 13 ára, og síðan hana Sabrinu sem var 17 ára og ættleidd. Hún bar eftirnafnið Zunich fyrir ættleiðinguna.

Sabrina hafði aðeins búið á heimilinu í liðlega ár. Með komu hennar á heimilið fannst félagsráðgjafanum Lisu fjölskylda sín vera fullkomnuð. Sabrina hafði átt erfiða æsku, hún hafði verið hjá öðrum fósturforeldrum þar sem hlutirnir gengu ekki upp, og dvalist á stofnunum. En þó að það hafi verið hugmynd Lisu að ættleiða unglingsstúlku þá liðu ekki margir mánuðir þar til sambandið milli Lisu og hinnar ættleiddu dóttur hennar var orðið stirt. Lisu virtist sem Sabrina væri að leitast við að taka yfir hennar hlutverk og sýndi það sig í því hvernig hún ráðskaðist með dætur hennar og daðraði við eiginmanninn.

Lisa hafði mikla reynslu af samskiptum við unglinga með hegðunarvandamál og markalausa hegðun og taldi sig því geta tekist á við þetta. Henni fannst hún aldrei hafa ástæðu til að óttast um líf sitt allt þar til þessa hræðilegu nótt er hún vaknaði við að dóttir hennar var að stinga hana með hnífi.

Sabrina játar allt og upplýsir um ástæðuna

Sabrina játaði greiðlega fyrir lögreglu að hafa myrt fósturmóður sína en sagði að um hefði verið að ræða sameiginlegt ráðabrugg hennar og Kevins. Þau hefðu átt í ástarsambandi mánuðum saman. Ráðagerðin hefði gengið út á að Sabrina myndi láta þetta líta út sem innbrot og ránsmorð ókunnugs manns. Átti hún að rífa og tæta og fjarlægja einhver verðmæti úr húsinu.

Eins og frásögnin hér að framan ber með sér fór þessi ráðagerð gjörsamlega út um þúfur enda vöknuðu Lisa og báðar dætur hennar við ósköpin. Jafnt í lögregluyfirheyrslum sem í réttarhöldunum harðneitaði Kevin nokkurri aðild að glæpnum. Hann neitaði því einnig að hafa átt í ástarsambandi við Sabrinu. Verjendur hans sögðu að félagslega kerfið hefði brugðist hræðilega með því að koma þessari andlega veiku stúlku fyrir á heimilinu.

Engin bein sönnunargögn staðfestu aðild Kevins en auk framburðar Sabrinu kom í ljós að Kevin hafði reynt að leysa út líftryggingu Lisu daginn eftir morðið. Enn fremur hafði hann krafist þess með látum að fá að heimsækja Sabrinu þegar hún sat í gæsluvarðhaldi. Kviðdómi þótti þetta nægja til að sakfella Kevin Knoefel fyrir samsæri um að fremja morð og skipulagningu á morði. Hann var ennfremur sakfelldur fyrir kynferðislega misnotkun á unglingi. Hlaut hann lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.

Sabrina hlaut einnig afar þungan dóm, lífstíðarfangelsi, en með möguleika á reynslulausn eftir 30 ár. Mál þetta hefur almennt vakið mikla viðurstyggð.

Þykir Kevin vera aðalsökudólgurinn og framferði hans vera ólýsanleg siðlaust. Svo virðist sem það hafi vakað fyrir honum að Sabrina tæki við hlutverki Lisu á heimilinu og saman myndu þau njóta betri fjárhags í krafti líftryggingar Lisu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda