fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Þórhildur segir öllu í dag vera drekkt í hávaða – „Menning feðraveldisins er það hættulegasta“

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 9. febrúar 2020 20:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórhildi Þorleifsdóttur þarft vart að kynna en hún hefur starfað við allar stærstu menningarstofnanir landsins sem leikstjóri ásamt því að sinna starfi leikhússtjóra, kvenréttindafrömuðar og alþingiskonu.

Við hittum Þórhildi fyrir í Söngskóla Reykjavíkur þar sem nemendur á efsta stigi stóðu í ströngu við æfingar á Fiðlaranum á þakinu. „Ég hef margoft komið að uppsetningum sem þessum, bæði hjá menntaskólum sem og Stúdentaleikhúsinu,“ segir Þórhildur og býður blaðakonu í beinu framhaldi upp á laufléttan latte í tilefni dagsins. „Æfingar ganga vel en ég gef engan afslátt. Auðvitað er þetta mikil ögrun fyrir krakkana, þeir hafa aldrei stigið á svið en ég slæ ekkert af kröfunum þótt þeir séu byrjendur. Einhver sagði að við værum nú ekki á leiðinni með þetta verk á Broadway en mín skoðun er sú að auðvitað stefnum við alltaf á Broadway. Ég geri alltaf gríðarlegar kröfur og kannski fullmiklar, en þó held ég ekki.“

Allt sem ég geri reyni ég að gera vel
Alls koma milli tuttugu og þrjátíu nemendur að sýningunni ásamt hljómsveit og viðurkennir Þórhildur að þetta sé mikið batterí. „Ég veit ekki hvort þú vilt kalla það metnað, en allt sem ég geri reyni ég að gera vel. Ég teymi mitt fólk í að gera sitt ítrasta en þó ekki með það að  markmiði að sýningin verði gallalaus heldur miklu frekar til þess að þau átti sig á því að ef þau vilja staldra við í þessum bransa verða þau að geta lagt sig algjörlega í hann. Og þá sé það ekki ég sem sé að reyna toga út leik og tjáningu heldur fyrst og fremst reyni ég að kenna þeim þá afstöðu, hvernig maður hagar sér sem atvinnumanneskja í þessu fagi.“

Mynd: Eyþór Árnason

Nú hefur þú leikstýrt okkar stærstu söng-kanónum í gegnum tíðina, en hvernig er að fást við byrjendur?

„Það er ekki hægt að tala um þetta tvennt í sömu andrá, en gleymum því ekki að ég vann með því fólki líka þegar það var að stíga sín fyrstu skref. Ég setti upp fyrstu sýningar Íslensku ópersunnar og lagði þá ríka áherslu á að byggja fólk listrænt upp á hinu dramatíska sviði, því þannig vex söngurinn líka, þetta er nefnilega samofið. Að mínu mati getur enginn orðið góður söngvari nema hafa leikhæfileika líka. Ef þú hefur ekki innlifun og túlkunarhæfileika er alveg sama hversu fallega rödd þú hefur. Það verður að vera gaman að hlusta á hana. Fyrsti þröskuldurinn er því alltaf að rífa burtu þennan vegg og nýta sér dramatískan kraft. Með öðrum orðum geri ég engan greinarmun á söngvurum og leikurum og geri nákvæmlega sömu kröfur til þeirra beggja.“

Fallegar sögur týnast í söngleikjum
Sjálf steig Þórhildur fyrst á svið ellefu ára gömul í leikritinu Ferðin til tunglsins sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu. Í þá daga tíðkuðust engar áheyrendaprufur enda segir hún þær vera hluta af markaðssetningu samtímans sem og orðræðan um að uppgötva börn. „Þarna mættu bara leikstjórar og fylgdust með okkur á dansæfingum, en ég var á þessum tíma á öðru ári í listdansskóla Þjóðleikhússins. Eftir tímann var mér tilkynnt að ég fengi að vera með í sýningunni og veistu, mér leið eins og ég gæti hoppað hæð mína, svo ánægð var ég. Þetta var því minnisstæð reynsla sem ég tók gríðarlega alvarlega, enda var manni kennt frá byrjun að leikhúsið væri á þína ábyrgð og þannig fór ég á svið – með Þjóðleikhúsið á öxlunum. Að mínu mati eykur það sjálfsvirðinguna að bera slíkt hlutverk og finnast ábyrgðin vera þín. Það er ekki sligandi heldur uppbyggilegt.“
Í kjölfarið fór boltinn að rúlla og Þórhildur kom víða við, bæði í leik- og óperusýningum. Eftir landspróf lagði hún svo land undir fót og hélt til Englands þar sem hún nam stund á ballett. „Stundum æxlast hlutirnir bara og þótt ég hafi byrjað í leikhúsinu sem lítil stelpa í ballettinum hefði ég alveg eins getað farið út og lært leiklist eða söng. Það var leikhúsið sem heillaði mig, ekkert eitt innan þess heldur leikhúsheimurinn eins og hann leggur sig. Sama hvort hann birtist í söng, leik eða dansi þá stefnir það alltaf að sama ósi. Á þeim tíma sem ég ólst upp var menningarlegur metnaður þjóðarinnar annar en í dag. Þarna höfðum við nýverið öðlast sjálfstæði og þá vildi þjóðin eiga hvort tveggja Sinfóníu og Þjóðleikhús. Ég held að margir hafi tekið því alvarlega að kynna menninguna fyrir börnunum sínum, en þá ríkti líka önnur afstaða. Í dag er allt hólfað niður enda gerir markaðurinn það, vissulega voru sýnd barnaleikrit, en á þessum tíma var mun meira farið með börn á fullorðinsleikrit. Foreldrar mínir voru engir listamenn en það var mikið lesið á heimilinu og bókmenntir ræddar. Móðir mín var mikil ljóðakona og faðir minn áhugasamur um tónlist. Það var farið með okkur systkinin í leikhús og þá ekkert endilega á barnasýningar heldur vorum við dubbuð upp á allt mögulegt, svo var manni bara sagt að þegja og hlusta.“

Mynd: Eyþór Árnason

Þegar talið berst að minnisstæðustu leiksýningunni nefnir Þórhildur strax Jónsmessunæturdraum. „Ég get ekki hafa verið meira en tíu ára því þarna hafði ég ekki stigið sjálf á svið en ég var algjörlega heilluð og keypti þennan ævintýraheim skilyrðislaust. Ég tók ekkert eftir því að sýningin hefði verið í bundnu máli og hafði á þessum tíma aldrei heyrt minnst á Shakespeare, en mér fannst þetta æðislegt allt saman og var upprifin í marga daga á eftir. Ég held að við leggjum of mikla áherslu á að börn þurfi að skilja allt, því upplifun er líka svo mikils virði. Í dag er öllu drekkt í hávaða og steypt í söngleiki sama hvað það er. Þá á ég ekki við að það megi ekki sýna börnum söngleiki en mér finnst það miður þegar fallegar sögur týnast í söngleikjum. Ég sakna þess að sjá leikhúsið sem sögu og samverustað, en það kann að vera íhaldssamt af mér. Ég held þó fast í þá skoðun, enda hef ég séð börn halda fyrir eyrun í leikhúsi, slíkur er hávaðinn og þau hafa nóg af honum. Sjálf myndi ég frekar vilja að leikhúsið byði börnum upp á kyrrð og upplifun, ævintýri og tilfinningar hvort sem verið er að hræða þau eða fá þau til að hlægja eða gráta. Að vera tekin í tilfinningalegt ferðalag er svo mikils virði.“

Fátt nýtt ögrandi og örvandi
Sjálf segist Þórhildur vera latari að fara í leikhús en hún var. „Það er einfaldlega ekki margt sem kallar á mig. Ég held að þetta sé ekki óalgeng afstaða og ástríðan til að vinna er sannarlega enn til staðar en staðreyndin er sú að þú sérð ekki margt tónlistarfólk á sinfóníutónleikum. Lengi vel fór ég í leikhús til að læra og það að horfa á margar sýningar er mikill háskóli fyrir leikstjóra, en svo kemur að því að það er fátt nýtt sem er bæði ögrandi og örvandi, en þegar það gerist hef ég auðvitað gaman af því.“

Mynd: Eyþór Árnason

Eiginmanni sínum, Arnari Jónssyni leikara, kynntist Þórhildur eðli málsins samkvæmt í leikhúsinu en þau voru þá bæði aukaleikarar í Pétri Gauti. Það tók þau þó talsverðan tíma að ákveða formlega að fella hugi saman. „Ég hafði heyrt um þennan æðislega sæta strák í leiklistarskólanum sem væri víst mikið talent og næstu sex mánuði þreifuðum við fyrir okkur, en þegar líða tók á vor ákváðum við að verða par. Ég hef alltaf verið hans strangasti gagnrýnandi og þarna, þegar hann var ungur og allir dáðust að honum, var ég sú eina sem togaði hann niður. Ég hef aldrei verið hvorki móðir né eiginkona sem klappstýri mínu fólki enda finnst mér ég sýna mesta umhyggju með því að rýna til gagns. Það álít ég vera mitt hlutverk enda verður hitt svo fljótt merkingarlaust. Mömmu finnst ég alltaf frábær, hvað þýðir það? Eftir þrjú skipti hættirðu að taka mark á því. Auðvitað eiga ekki allir að standa í því að gagnrýna börnin sín á sviði, en sjálf er ég í faginu og byrjaði mjög snemma að gagnrýna Arnar grimmilega. Hann var ekkert alltaf hrifinn en ég held að það hafi ekki orðið honum til skaða.“

Áhættu fylgja hættur
Saman eignuðust hjónin fimm börn og segist Þórhildur í góðlátlegum tón hugsa með hryllingi til þess tíma. „Í dag fæ ég hroll og skil ég ekki hvernig ég fór að þessu án þess að hafa upplifað það þannig á þeim tíma. Margir minntust á hvað ég væri heppin því Arnar væri alltaf með börnin og það gat auðvitað sært mig pínulítið, en ég hefði aldrei komist í gegnum þennan barnaþunga ein. Við vorum heppin með það að ekkert barna okkar vakti á næturnar, en á þessum tíma dvöldu mæðurnar í viku á spítalanum eftir fæðingu, þarna voru börnin vanin á reglu sem við héldum svo áfram. Ég tók aldrei neitt fæðingarorlof en blessuð börnin sváfu sem betur fer öll sína tólf tíma á nóttu og voru heilsuhraust. Ég held ég geti með sanni sagt að ég hafi aldrei vakað nótt með barni.“

Mynd: Eyþór Árnason

Þórhildur segir þá hugsun aldrei hafa hvarflað að henni að láta barneignir hægja á framaferlinum. „Nei, við héldum bæði okkar striki samhliða barnauppeldinu. Þau komu auðvitað oft með mér í vinnuna, en þá fengu þau ekkert að hlaupa um leikhúsið og allra síst trufla nokkurn mann. Það var frekar að þau hnýttu í leikarana til að segja þeim ef þau hefðu ekki gert það sem mamma bað um í gær, en fólk hafði bara gaman af því. Á þessum vettvangi var ég aldrei til afnota fyrir þau sem mamma, enda var ég í vinnunni, en ég held að þeim hafi fundist þetta fínt, í það minnsta minnist ég þess ekki að þau hafi kvartað. Það var þó alveg sama hversu mikið við höfðum að gera við misstum aldrei út kvöldstund þar sem við lásum með börnunum. Þá áttum við rólega stund hvort sem við lásum eða sungum og maður taldi sér trú um að það kæmi að góðu gagni, þetta vanræktum við aldrei.“

Mynd: Eyþór Árnason

Tvö barnanna hafa fetað sömu braut og foreldrarnir og segist Þórhildur telja það jafn algengt og þegar börn í öðrum starfsstéttum feti sömu braut og þau alist upp við. „Sólveig hefur sagt að þetta hafi verið skortur á ímyndunarafli en Þorleifur stefndi sömuleiðis alltaf á að verða leikari. Hann, rétt eins og ég, komst þó fljótt að því að hann var sleipari í að fylgjast með öllu í kringum sig heldur en einbeita sér að sjálfum sér svo hann gerðist leikstjóri. Ég held að ég hefði ekkert orðið verri leikari en aðrir, en ég fann fljótt að það var ekki það sem mig langaði að gera. Ég hef alltaf verið svo upptekin af heildarmyndinni. Þorleifur er óumdeilanlega framúrstefnulegur leikstjóri og það var ég líka á sínum tíma, og því fylgja áhættur. Hann hefur upplifað að vera valinn besti leikstjóri Þýskalands yfir í að vera slalaður niður. Ég get þó ekki talað um verkin hans sem heild því ég hef verið mjög hrifin af sumu sem hann hefur gert, miður hrifin af öðru og beinlínis óánægð með annað. Oftast reyni ég að koma út og sjá verkin sem hann og Sólveig setja upp og lengi vel fylgdist ég með Þorleifi á æfingum, en í dag hef ég sleppt af honum hendinni. Hann er farinn að ganga sjálfur, en ég fylgdist grannt með honum fyrstu árin og reyndi að styðja hann og kenna allt sem ég kunni.“

Fámennur fundur leiddi til kvennaframboðs
Þórhildur er óneitanlega í stórskotaliði íslenskra listakvenna enda hefur hún barist ötullega fyrir jöfnum réttindum kynjanna, bæði á sviði sem og í samfélaginu öllu. Leið hennar í pólitík var þó talsvert tilviljunarkennd. „Ég var ung kona á mjög pólitískum tímum. Þarna var kalda stríðið í algleymingi og Víetnamstríðið sem og baráttan gegn kjarnorkuvopnum. Hippahreyfingin hristi náttúrlega upp í fólki og leiddi mjög margt gott af sér eins og friðar- og umhverfishreyfingu og kvennahreyfinguna. Misrétti kynjanna hafði alltaf blundað í mér en eins og flestar ungar konur hélt ég að það væri einungis undir sjálfri mér komið – ef ég væri bara nógu dugleg og nógu eitthvað yrði engin mismunun, en svo rekur maður sig á að það er nákvæmlega þetta sem er að. Ungar konur myndu allar gefast upp fyrirfram ef þær viðurkenndu það strax, svo þess í stað telja þær sér trú um að þetta sé allt í lagi og þær þurfi bara að vera rosalega duglegar, þá reddist allt. Þannig hugsaði ég sjálf, en á þessum tíma voru líka að koma út bækur á borð við Kvengeldinginn og Second sex sem maður drakk í sig. Þessi bylting lá í tímanum og fullnægði einhverju hjá manni – eða öllu heldur æsti það upp.“

Mynd: Eyþór Árnason

Þórhildur bjó á þessum tíma norður í landi en sótti fundi hjá Rauðsokkahreyfingunni þegar hún átti erindi í höfuðborgina. „Nokkrum árum eftir að ég flutti suður heyrði ég fyrir tilviljun af fundi í Norræna húsinu og ákvað í kjölfarið að mæta. Þetta reyndist heldur fámennur fundur sem síðar átti eftir að stækka og leiddi að lokum til kvennaframboðs og síðar kvennalista.“

Feðraveldismenningin er að eyðileggja heiminn
Spurð hvort pólitíkin sé harðari heimur en leikhúsið segir Þórhildur allt snúast um hversu alvarlega fólk taki hlutunum. „Leikhúsið er harður húsbóndi en jafnframt örlátur. Ég væri ekki að sveitast blóðug í leikhúsi árum saman, því ekki eru launin að trekkja að. Það er gríðarlega erfitt starf að vera leikstjóri, bæði líkamlega og andlega, en áfram heldur maður enda er mikil gæfa að vinna við sköpun og þá skiptir ekki máli í hvaða fagi þú ert. Einungis það að fá að deila dögum með öðrum í sams konar sköpun eru stórkostleg forréttindi. Í Kvennalistanum var líka mikil sköpun því þar voru konur sem köstuðu frá sér öllum viðteknum hugmyndum og spurðu sig – í hvernig heimi viljum við búa í? Það er gríðarlega skapandi. Á þessum tíma var ég að ala upp fimm börn samhliða því að setja upp að meðaltali fjórar leiksýningar á ári og að vinna í stjórnmálaflokki – hvernig fór ég að þessu? Jú, af því sköpun gefur svo mikla orku. Það er ótrúlegt að upplifa hvað maður fær mikla orku við að eyða orku, en þetta er eins og mylluhjól, vatnið kemur upp aftur og virkjast. Öðruvísi hefði þetta aldrei gengið – ef gleðin og sköpunin hefði ekki verið fyrir hendi. Í mínu tilfelli nærði leikhúsið kvennapólitíkina og öfugt. Auðvitað hafði ég alltaf haft einhverja femíníska sýn, en þarna varð hún miklu skýrari – og þótt það hafi farið framhjá mörgum, hef ég alltaf horft með kvenfrelsisgleraugum á öll verk. Ýmsir kollegar mínir hafa látið í ljós þá skoðun að þetta geti þrent mitt sjónarhorn sem leikstjóra, en engum dettur í hug að þeirra karllægu skoðanir þrengi þeirra sjónarhorn. Ég þekki vel það sjónarhorn enda alin upp í því og samfélagið er þar ennþá, en ég bæti bara kvenlega sjónarhorninu við, svo ég myndi segja að ég hefði víðara sjónarhorn ef eitthvað er.“

Mynd: Eyþór Árnason

Það er ekki hægt að segja það dans á rósum að vera kona í íslensku leikhúsi enda oft og tíðum talið hefðbundið karlasvið. Þórhildur tekur heilshugar undir það og staðfestir að karlar hafi í gegnum tíðina ráðið bæði yfir menningu, trúarbrögðum og samfélagsgerðinni allri. Konum hafi þó tekist með tímanum að rjúfa örlítið skarð á karlamúrinn. „Baráttan hefur auðvitað breyst og í dag eru konur sýnilegri, fleiri sem mennta sig, fá stöður og gera sig gildandi á ýmsum sviðum. Lagaumhverfið hefur sömuleiðis breyst og öll umræða er opnari, en þetta er langtímaverkefni og menning feðraveldisins er það hættulegasta. Hún stendur nánast óhögguð. Feðraveldið er höfundur allra hugmynda sem samfélög byggja á, hvort sem það eru trúarbrögð, hagfræðikenningar eða menningin en það hættulegasta og feitasta afkvæmið er óheftur kapítalismi. helsta stoð feðraveldisins, er ofbeldi sem menn sýna hver öðrum, sem og konum, börnum og náttúrunni. Það eru þessar hugmyndir, þær verða að láta undan því annars eigum við enga von.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta