fbpx
Fimmtudagur 26.nóvember 2020
Fókus

Bragi Valdimar: Stundum missi ég mig í nördaskapnum

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 25. október 2020 08:00

Bragi Valdimar Skúlason Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bragi Valdimar Skúlason hefur afskaplega gaman af orðum. Hann er einn vinsælasti textasmiður og tónskáld landsins og virðist hafa mun fleiri klukkutíma í sólarhringnum en við hin.

Hér birtist í heild sinni forsíðuviðtal við hann úr helgarblaði DV sem kom út 16. október.

Bragi Valdimar Skúlason er ekki eins og fólk er flest. Sem betur fer. Hann lýsir sér sjálfum sem „skrýtna karlinum með þverslaufuna í sjónvarpinu“. Hann er nú á skjánum alla föstudaga, ásamt Björgu Magnúsdóttur, í þáttunum Kappsmáli á RÚV – með þverslaufuna. Þar leysa keppendur hinar ýmsu þrautir tengdar tungumálinu og í síðasta þætti átti annað liðið til að mynda að giska á hvert eftirfarandi orða væri til í alvörunni: hælbeitir, frunti, ærufauti eða svekkill.

„Þetta er í raun leikjaþáttur um tungumálið. Grunnhugmyndin er að tungumálið er skemmtilegt og maður á ekki að vera feiminn við að nota það. Það er svo leitt þegar fólk þorir varla að tjá sig á íslensku því það er alltaf verið að leiðrétta það og skamma. Tungumálið er okkar helsta tæki í lífinu og við þurfum að passa upp á það,“ segir Bragi sem býr sjálfur yfir litríkara orðfæri en flestir og leyfir sér jafnvel að sletta þegar vel viðrar.

Stórkostleg eiginkona

Áður sá Bragi um skemmtiog fræðsluþættina Orðbragð, ásamt Brynju Þorgeirsdóttur, og það var þá sem hugmyndin að leikjaþætti vaknaði. Aðalstarf hans er hins vegar hjá auglýsingastofunni Brandenburg þar sem hann er meðeigandi. Hann er auk þess titlaður texta- og hugmyndasmiður en tekur í raun þátt í öllu sköpunarferlinu eins og tíðkast á auglýsingastofum hér á landi. Brandenburg er ein af fáum auglýsingastofum sem hafa ráðið fólk í miðjum heimsfaraldri og fagnar mikilli velgengni.

Hér lætur Bragi þó ekki staðar numið því hann er einnig hluti af fjöllistahópnum Baggalúti, hefur gefið út þrjár barnaplötur, samið texta fyrir fjölda tónlistarmanna og þýtt heil ósköp. Nú síðast var hann að leggja lokahönd á nýja þýðingu leikverksins Taktu lagið, Lóa – sem nú heitir reyndar bara Lóa – og kemur vonandi á fjalir Borgarleikhússins fyrr en seinna. Ef COVID lofar.

Hvernig geturðu eiginlega sinnt svona mörgum verkefnum?

„Ég er oft spurður að þessu. Galdurinn er að konan mín gerir allt á heimilinu.“ Bragi er augljóslega ekkert að grínast. Hann er giftur Heiðu, Þórdísi Heiðu Kristjánsdóttur, og saman eiga þau þrjár dætur sem eru sjö, tíu og fimmtán ára. „Heiða er stórkostleg,“ segir hann af mikilli innlifun. „Þú ættir eiginlega að taka viðtal við hana. Hún er miklu skemmtilegri en ég.“

Heiða er tónmenntakennari og flakkar almennt milli skóla með skapandi smiðjur en eðli málsins samkvæmt er það heldur torvelt á tímum heimsfaraldurs.

Bragi Valdimar Mynd/Valli

Las líka Ástarbréf til Ara

Fimm ára gamall flutti Bragi með foreldrum sínum til Hnífsdals þar sem pabbi hans starfaði sem fiskifræðingur og mamma hans starfaði hjá Símanum. „Ég bjó þar þegar vídeóspólurnar mættu á svæðið. Ég tók auðvitað upp áramótaskaupið og horfði síðan á það átta þúsund sinnum. Ég kom helst í borgina til að kaupa þungarokksboli og bætur á gallajakka. Þungarokkið yfirtók unglingamenninguna á Íslandi árin 1989 til 1991 og ég varð fyrir barðinu á því. Ég fór á tónleika Whitesnake í Reiðhöllinni og var mættur fremst í Laugardalshöllina þegar Iron Maiden hélt tónleika þar. Ég var svolítið í rokki og róli en það jafnaði sig.“

Og þá fórstu yfir í kántríið. „Já, kántrí og Barböru Streisand,“ segir Bragi sem hefur allt annað en fyrirsjáanlegan smekk og hlustaði á uppáhaldsbarnaplötuna sína, Hrekkjusvínin, langt fram á fullorðinsaldur.

Ólíkt því sem einhverjir kynnu að halda lá Bragi ekki yfir forníslenskum ritum sem barn heldur las Ástarbréf til Ara eins og aðrir unglingar. Honum fannst þó bækurnar um Frank og Jóa öllu skemmtilegri og fór seinna að lesa bækur eftir Alistair MacLean.

„Það er líka gott að lesa það sem manni finnst ekki endilega skemmtilegt. Þú ert þá að neyta textans, myndar þér smekk og greinir hvað er gott og hvað er slæmt. Fólk ratar alltaf á endanum á góða stöffið.“

Giftu sig í Vegas

Fjölskylda Braga flutti til Reykjavíkur skömmu áður en hann byrjaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þar kynntist hann mörgum af sínum bestu vinum enn í dag, og þar kynntust líka þau Heiða. „Við vorum saman í Hamrahlíðarkórnum, þeirri góðu hjónabandsmiðlun. Við fórum ekki að vera saman fyrr en seinna, áttum marga sameiginlega vini, og erum nú gift með þrjár stelpur.“

Heiða og Bragi höfðu verið saman í yfir áratug þegar þau gengu í formlegt hjónaband þar sem enginn annar en Elvis Presley vígði hjónin, eða allavega staðgengill hans. „Já, við fórum til Vegas þar sem Elvis var ræstur út.“ Giftingin fór fram 7. september 2013 – sjö, níu, þrettán – og skelltu þau sér til Bandaríkjanna ásamt vinapari sem gekk í hjónaband á sama tíma. „Ég get ekki sagt að þetta sé endilega dæmigert fyrir okkur. Við erum almennt róleg í tíðinni en temmilega spontant.“

Bragi segir fjölskylduna sannarlega vera sér innblástur – sem dæmi hafi dæturnar allar fengið sína barnaplötu sem hann gerði með Memfismafíunni. „Sú elsta fékk Gilligill, miðjan fékk Diskóeyjuna og sú yngsta fékk Karnivalíu. Nú bíð ég bara eftir barnabörnunum til að gera nýja barnaplötu. Þó þessar plötur hafi verið hugsaðar sem barnaplötur var þetta ekki endilega sérstök barnatónlist. Ég veit í raun ekki einu sinni hvað það er. Barnatónlist á ekki að vera öðruvísi en önnur tónlist. Þarna var mikill metnaður á ferð og frábærir tónlistarmenn sem koma við sögu. Það þarf að vera gleði og við þurfum að smita henni áfram. Hættum að smita COVID og smitum fólk frekar af gleði.“

Allir komnir á Youtube

Hann segir þau hjónin vissulega halda íslensku að dætrunum en að þau séu ekkert að fara yfir beygingarfræði við matarborðið. „Við leggjum áherslu á að þær séu að lesa. Ég held að lesturinn sé alltaf grunnurinn að því að ná tengslum við tungumálið. Síðan erum við líka dugleg að tala við þær,“ segir hann og hlær. „Þær hafa gott af því að heyra í pabba með öll skrýtnu orðin sín,“ segir Bragi með sínum hægláta og sjarmerandi talanda.

Heimurinn hefur gjörbreyst á fáum árum þegar kemur að aðgengi barna og ungmenna að afþreyingu á ensku. „Nú eru bara allir á YouTube. Áreitið í kring um krakkana er svo svakalegt. Ef við ætlum að halda í þetta tungumál okkar þurfa þau að lesa. Það hjálpar líka til að hafa aðgang að talsettu barnaefni eða með texta. Hér hefur lengi vel verið mjög mikill metnaður lagður í talsetningu og það væri synd ef það myndi glatast. Nú eru að koma inn á markaðinn nýjar efnisveitur og það er fáránlegt að bjóða ekki upp á þetta talsetta efni sem við eigum. Tölvuleikir eru líka algjörlega óþýtt svæði. Þeir hafa fyrir löngu tekið fram úr kvikmyndaheiminum þegar kemur að umfangi. Við sitjum ekkert ein í súpunni. Það deyja út tungumál á hverju ári. Við Íslendingar erum samt merkilega þrjósk.“

Bragi tekur smá kúnstpásu en kemur síðan með játningu. „Ég brjálaðist á netinu um daginn. Hvatti fólk til að fara inn á netspjallið hjá Mikka mús og taka tryllinginn yfir því að það sé ekkert efni á íslensku á Disney plús,“ segir hann en aðgangur að Disney+ var opnaður á Íslandi í síðasta mánuði. „Það er eins og þeir sem vinna hjá þessum veitum geri ekki ráð fyrir að við eigum okkar eigin tungumál. Netflix lætur sér til að mynda nægja að setja inn danskan texta fyrir okkur,“ segir Bragi sem áfram hvetur fólk til að láta í sér heyra vegna þessa.

Spenntur fyrir samhverfum

Honum finnst hvað skemmtilegast við íslenskuna hversu sérstök hún er. „Þetta er sérkennilegt tungumál. Við eigum mjög furðulega bókstafi. Þetta er ljótt mál áheyrnar fyrir marga, inniheldur skrýtin hljóð en hefur líka að geyma mikla mýkt. Mér finnst gaman að finna orð sem ég veit ekki hvað þýða, grúska í orðabókum og finna eitthvað skemmtilegt. Við eigum ógrynni af ónotuðum orðum. Daglegur orðaforði er afskaplega takmarkaður.“

Bragi er með BA-gráðu í íslensku frá Háskóla Íslands en það var sannarlega ekki fyrirfram ákveðið að hann myndi vinna með tungumálið jafn mikið og raun ber vitni. „Eins og fólk hefur kannski tekið eftir finnst mér mjög gaman að orðum. Ég hef gaman af skrýtnum hlutum eins og bragfræði, furðulegum orðum og samsetningu orða. Samhverfur er ein veilan. Orð sem hægt er að lesa bæði fram og til baka. Ég fékk þær alveg á heilann á tímabili.“

Að því sögðu kemur það kannski á óvart að íslenska hafi ekki orðið strax fyrir valinu en Bragi skráði sig í undirbúningsnám fyrir læknadeildina og marði þar nokkra mánuði en fann lítið sem ekkert af samhverfum. Fruman eða The Cell ku vera bókin sem endaði hugmyndir Braga um að verða dr. Bragi. Í stað þess að bæta líkamlega heilsu landsmanna hefur hann lagt sitt af mörkum við að upphefja geðheilsu og orðaforða samlanda sinna.

Hann segist aðspurður í raun ekki eiga neitt uppáhalds orð en er tilbúinn til að nefna orð dagsins, samhverfuna tillit. „Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af útlitinu og eðli orðsins tillit. Þetta er ein fyrsta samhverfan sem ég stoppaði við í bók og hugsaði með mér: Þetta er andskoti gott orð! Merkingin er líka góð. Að taka tillit er falleg hugsun. Tillit lítur líka vel út á prenti. Þetta eru langir stafir og orðið lítur svolítið út eins og strikamerki. Tillit er orð dagsins. Síðan verð ég kominn með annað orð á morgun.“

Bragi Valdimar Skúlason Mynd/Valli

Knáir epalhommar

Auglýsingastofan Brandenburg er til húsa á Lækjartorgi en flytur á næstu vikum í Grósku – hugmyndahús í Vatnsmýrinni. Húsinu er ætlað að vera suðupottur nýsköpunar og samstarfs háskóla og atvinnulífs. Hönnunarmiðstöð Íslands, CCP og Nýsköpunarsetur eru meðal þeirra sem þarna verða til húsa, ásamt hinum ýmsu sprotafyrirtækjum. „Og síðan verður þarna ein auglýsingastofa. Þarna verður líka World Class – nýja stöðin sem mátti ekki opna um daginn.“

Bragi var upphaflega ráðinn inn á auglýsingastofuna Fíton árið 2005 þar sem hann starfaði við textagerð. Þeir fóru síðan nokkrir út úr Fíton og stofnuðu sína eigin stofu – Brandenburg – árið 2012. „Þetta er magnaður bransi. Maður er aldrei að gera það sama og alltaf krafa um að gera eitthvað skemmtilegt og öðruvísi.“

Hann segist almennt stoltur af þeim verkefnum sem stofan sinni hverju sinni. „Mér finnst skemmtilegast að vinna að stórum verkefnum og herferðum sem vekja mikla athygli. Við höfum gert margar herferðir fyrir Krabbameinsfélagið sem ég er mjög ánægður með. Mottumars hefur tekist mjög vel síðustu ár. Sopranos-herferðin fyrir Sorpu var vel heppnuð og vakti mikla athygli. Við gerðum líka skemmtilega auglýsingu fyrir Epal sem var eins konar skyndiverkefni. Orðið epalhommi kom þá upp í samfélagsumræðunni og við gripum þetta á lofti. Ég hringdi þá í Ara Magg ljósmyndara og svo nokkra knáa epalhomma á borð við Bergþór Pálsson, og við skelltum í auglýsingu fyrir Epal. Það er mjög gaman þegar hugmynd kviknar, hún er útfærð og auglýsingin er komin út um allt. Þetta var til dæmis bara þriggja daga prósess.“

Verkefni Brandenburg hafa síðustu mánuði að hluta litast af því sérstaka samfélagsástandi sem ríkir. Í sumar stóð yfir herferð sem miðaði að því að hvetja fólk til að ferðast innanlands og nýlega hófst herferð þar sem fólk er hvatt til að velja íslenskt undir yfirskriftinni Láttu það ganga. „Við höfum tekið þátt í að reyna að peppa mannskapinn. Það hefur ekki verið vanþörf á því.“

Allt botnfrosið

Bragi er formaður STEFs, samtaka um höfundarrétt tónskálda og textahöfunda, og sömuleiðis formaður FTT, félags tónskálda og textahöfunda. Hann segir fólk í þessum samtökum upplifa að það hafi verið skilið eftir í björgunaraðgerðum stjórnvalda vegna áhrifa COVID. „Fólk er orðið mjög örvæntingarfullt. Þau úrræði sem hafa verið kynnt grípa ekki þetta fólk. Það kemur skýrt í ljós núna að það er ekkert net sem grípur fólk í þessari tegund starfa. Hér erum við ekki bara að tala um tónlistarfólk heldur líka sjálfstætt starfandi listamenn og sviðslistafólk.“

Hann segir þessa endalausu bið og óvissu taka á. „Sumir eru búnir að vera tekjulausir í tíu mánuði. Það er búið að auka við styrktarfé á ýmsum sviðum sem og listamannalaun. Þetta er hins vegar ekki sú innspýting sem gagnast þessum hópi. Eðli málsins samkvæmt eru tónlistarmenn og sviðslistafólk bara heima núna þegar það má ekki koma fram. Fólk er ekki einu sinni að syngja í afmælum og fermingum. Stjórnvöld hafa lofað aðgerðum sem eiga einnig að gagnast aftur í tímann. Ég hef hins vegar miklar áhyggjur ef ástandið verður svona áfram. Þá er þessi skapandi framkomubransi í svokölluðum djúpum skít, vægast sagt.“ Sem formaður þessara samtaka hefur Bragi setið fjölda funda síðustu mánuði og upplifað örvæntingu fólks á eigin skinni.

„Það er bara allt botnfrosið. Það er líka sorglegt því þetta er það fólk sem er fyrst til að stökkva til þegar þarf að hjálpa öðrum og halda styrktartónleika. Í sumar var komin smá bjartsýni í mannskapinn og margir ferðuðust um landið og héldu tónleika. Ýmsir náðu jafnvel tveimur góðum mánuðum. Í september var síðan farið af stað með miðasölu á þessa hefðbundnu jólatónleika og þá bankar þriðja bylgja COVID upp á. Desember er risavaxinn mánuður og ég hef ekki tölu á öllum þeim jólatónleikum sem eru haldnir árlega. Þá eru ótaldar allar kirkjuathafnirnar sem tónlistarfólk tekur þátt í. Fólk vill halda í gleðina á jólunum og það er hart að þagga það niður.“

Bragi Valdimar Skúlason Mynd/Valli

Grúskar í gömlum ljóðum

Mögulegar takmarkanir á tónleikahaldi fyrir jólin snerta Braga beint sem meðlim Baggalúts. „Við höfum verið með átján jólatónleika árlega síðustu ár. Þetta er hins vegar stærra en hljómsveitin því það er heilt hagkerfi sem myndast í kringum stóra tónleikaröð. Það eru hátt í fjörutíu manns sem hafa unnið að tónleikunum okkar í desember. Síðan er það starfsfólk í miðasölu, Háskólabíói, Tix, veitingasala í tengslum við tónleika. Umfang tónleikahalds á Íslandi er vel rannsakað og senan hefur blásið út síðustu ár. Við eigum líka frábært tónlistarfólk sem hefur verið að gera það gott á erlendri grundu, svo sem Of Monsters and Men, Kaleo, Ólafur Arnalds og Björk. Allt þetta fólk er núna bara heima hjá sér.“

Af Baggalúti er það annars helst að frétta að sveitin er að gefa út plötu með lögum við texta vestur-íslenska skáldsins Káins. „Káinn dó árið 1936 þannig að þetta er kannski ekki mest hipp og kúl. Ég komst í ljóðasafnið hans og byrjaði að búa til lög við þau. Mér finnst virkilega gaman að grúska í svona gömlum ljóðum og stundum gjörsamlega missi ég mig í nördaskapnum. Káinn bjó í Norður-Dakóta, starfaði sem vinnumaður og var sagður svolítið blautur. Ævisagan hans, eftir Jón Hjaltason, er einmitt að koma út í haust, þannig að það er algert Káinæði í uppsiglingu. Oft eru þessi gömlu ljóð frekar stirð en ljóð Káins eru alþýðleg. Hann hefur verið kallaður grínskáld en ljóðin voru líka gjarnan melankólísk. En þetta er svona það sem ég hef verið að dunda mér við í heimsfaraldrinum.“

Bragi segir að sér hafi tekist að raða lífi sínu þannig niður að hann fái tækifæri til að gera skemmtilega hluti.

„Stundum verður maður þreyttur á atinu en ég hef gaman af því að hafa mikið að gera. Ég fann snemma að það átti ekki við mig að hjakka í sama hjólfarinu og vil vinna við skapandi hluti. Ég vil líka sýna stelpunum mínum að það er hægt að framkvæma skrýtna og skemmtilega hluti. Yfirleitt er bara aðeins hægt að draga andann og sjá að maður getur gert það sem maður vill við lífið. Ég bara vona að þessi vetur verði ekki eitthvert helvítis fokking fokk.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Arna grét þegar hún sá myndina af sér – „Mér fannst ég bara skítug“‘

Arna grét þegar hún sá myndina af sér – „Mér fannst ég bara skítug“‘
Fókus
Fyrir 2 dögum

Konan sem uppljóstraði um framhjáhald í Reykjavík Síðdegis fræg á ný – „Klárlega í topp 5“

Konan sem uppljóstraði um framhjáhald í Reykjavík Síðdegis fræg á ný – „Klárlega í topp 5“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hjón á áttræðisaldri ósammála um sóttvarnaraðgerðir – „Mamma er eiginlega orðin hrædd við pabba“

Hjón á áttræðisaldri ósammála um sóttvarnaraðgerðir – „Mamma er eiginlega orðin hrædd við pabba“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Grænn heilsudrykkur og jólaskreytingar í Matur & heimili

Grænn heilsudrykkur og jólaskreytingar í Matur & heimili
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gekk í gegnum sáran missi -„Mér finnst ég sjálf hafa verið að koma upp úr kafinu“

Gekk í gegnum sáran missi -„Mér finnst ég sjálf hafa verið að koma upp úr kafinu“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sakamál: Lifði tvöföldu lífi eftir skilnaðinn – Kynlífsvinna, karlmannshárkollur og stinningarlyf

Sakamál: Lifði tvöföldu lífi eftir skilnaðinn – Kynlífsvinna, karlmannshárkollur og stinningarlyf