fbpx
Mánudagur 01.júní 2020
Fókus

Bríet hélt hún væri álfakona: „Ég læri mest af mistökum annarra“

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 20. október 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Söngkonan Bríet hefur á skömmum tíma getið sér gott orð innan tónlistargeirans bæði hér heima sem og erlendis. Hún segir söngferilinn hafi byrjað með þeirri ákvörðun að segja já frekar en nei. „Ég hef aldrei verið feimin við að prófa nýja hluti, en ég hef líka alltaf verið mjög ákveðin í því sem ég ætla mér. Ég hef enga sérstaka tónlistarmenntun og lærði aldrei söng hjá neinum sérstökum söngkennara, en ég hef lært mikið á því að spila djass á veitingastöðum. Þar er enginn í raun að pæla í manni og þannig fær maður frelsi til að leika sér og dvelja í sínum eigin heimi. Í seinni tíð hef ég svo lært mikið af minni eigin sviðsframkomu og þá sérstaklega þeim mistökum sem ég hef gert á leiðinni.“

Alltaf að leita að nýjum drullupolli

Bríet hefur slegið í gegn undanfarið. Mynd: Eyþór Árnason

Þrátt fyrir að lýsa sér sem afar söngelsku barni segist Bríet aldrei hafa kæft fjölskyldu sína með tónleikahaldi í stofunni eins og tíðkast gjarnan hjá tónelskum börnum.

„Ég var aldrei týpan sem stóð uppi á matarborði og bað fjölskylduna um að þegja meðan ég stæði fyrir söngatriðum. Ég var miklu meira í því að hlusta á pabba minn spila á gítar og æfa mig með honum. Svo læddist ég inn á baðherbergi til þess að taka sjálfa mig upp syngja Wonderwall. Ég átti alveg frábæra æsku, enda var ég mjög lífsglöð stelpa, alltaf að leita að nýjum drullupolli til að hoppa í. Ég ólst upp í Grafarvogi og hélt meðal annars um tíma að ég væri álfadrottning. Við erum fimm systkinin og ég er í dag mikil fjölskyldukona. Ég held að það að mamma mín hafi leitt mig í það að stunda „svett“ sem barn hafi mótað mig mjög og sé í raun skýringin á því hver ég er í dag. Ég hef aldrei viljað falla inn í hópinn, en frá fjórtán ára aldri hef ég verið dugleg að fara á milli flóamarkaða og finna mér notuð föt. Nú þegar ég er orðin tvítug heyri ég mömmu enn spyrja í forundran hvort ég ætli virkilega að klæðast þessum fötum eða benda mér góðfúslega á að sumt af því sem ég fer í sé kannski aðeins of lúðalegt. Mér finnst ótrúlega gaman að nýta stöðu mína sem sviðslistakona með áberandi fötum og fá að vinna með og vekja athygli á upprennandi fatahönnuðum.“

Að gera áhorfendur að aðdáendum

Bríet var valin Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum sem og Söngkona ársins. Hún segir tilfinninguna að stíga á svið í fyrsta sinn hafa verið spennuþrungna en hún fái sjaldnast sviðsskrekk. „Ég man sérstaklega eftir tilfinningunni hvað ljósin voru sterk þegar ég steig í fyrsta skipti á svið. Ég hugsaði bara af hverju eru ljóskastararnir svona sterkir, ég sé ekki neitt. Ofar öllu var ég þó bara yfirdrifið spennt að fá að spila fyrir fullum sal af fólki. Ég myndi ekki segja að ég finni fyrir kvíða áður en ég stíg á svið en auðvitað set ég pressu á mig um að gera eins vel og ég get í hvert skipti og stundum finn ég kannski aðeins of mikið fyrir þessari pressu. Ég finn samt mikinn mun á að spila hér heima og erlendis, því úti kann fólk síður lögin og er jafnvel að heyra þau í fyrsta skiptið. Þá skiptir öllu að fanga athygli áhorfendanna og gera þá vonandi að nýjum aðdáendum. Mín reynsla hefur í flestum tilfellum verið góð og alltaf mikið fjör, fólk duglegt að dilla sér og hlusta á tilfinningaþrungnu sögurnar á bak við ástarlögin mín. Þó hafa öll gigg sína kosti og galla, mitt versta gigg var sennilega í Svíþjóð þegar ég kom fram á lestarstöð. Þetta var á nítján ára afmælisdaginn minn og ég var fárveik. Ég er ansi hrædd um að ég hafi ekki safnað mörgum aðdáendum í það skipti, svona ef ég dæmi út frá undirtektum hópsins. Það var hins vegar ótrúlegt egóbúst að vinna þessa titla og um leið ákveðin staðfesting á að harkan og vinnan hafi borgað sig. Það sem ég kunni mest að meta við verðlaunin var sú staðreynd að þau voru ekki ákvörðuð af einhverri fámennri dómnefnd heldur var það lýðurinn sem átti valið. Það var góð tilfinning.“

Stefnir hátt. Mynd: Eyþór Árnason

Erfitt samstarf við Frikka Dór?

Textana semur Bríet bæði á íslensku og ensku enda vill hún höfða til sem flestra. „Ég reyni að hafa jafnt hlutfall laga en hugmyndir að textunum geta komið við ótrúlegustu aðstæður. Oft spretta þær frá skrítinni tilfinningu, atviki eða einfaldlega einhverju sem ég vil koma frá mér. Öll lög sem ég í samvinnu við besta vin minn, Pálma Ragnar. Ferlið er síðan aldrei eins og það er alltaf ráðgáta hvernig blómið muni blómstra. Stundum taka lög meira á en önnur meðan önnur koma eins og þeim hafi verið snýtt úr nös.

Þegar ég var að semja Feimin(n) kom aldrei neitt annað til greina en að fá Aron Can til liðs við mig. Ferlið gekk eins og í sögu enda er Aron náttúrulega bara æði og algjör Já-manneskja. Þegar orkan er þannig í stúdíóinu rúllar boltinn nánast sjálfkrafa. Það var hins vegar mjög erfitt að vinna með Frikka Dór,“ segir Bríet og skellir upp úr. „Nei, að öllu gríni slepptu var alltaf stutt í brosið þegar við tókum upp lagið Hata að hafa þig ekki hér. Reyndar vissi ég ekki að við værum að taka upp lagið, ég hélt við værum að fara á æfingu fyrir tónleikana hans. Í bílnum á leiðinni spurði Frikki mig svo í hálfkæringi hvort ég væri ekki tilbúin fyrir upptökuna og hvernig lagið væri að leggjast í mig. Það gekk auðvitað glimrandi vel og við vel sátt við útkomuna. Það er aldrei eins að vinna með tónlistarfólki því allir hafa sínar aðferðir. Stundum er maður ekki á sömu bylgjulengd og þá nær það ekki lengra en mér finnst vera mikil gróska í tónlistarsenunni og mikil fjölbreytni í gangi sem gaman er að fylgjast með og fá að vera partur af. Það hefur átt sér stað mikil lýðræðisvæðing hjá íslensku tónlistarsenunni sem hefur opnað leikvöllinn fyrir hvern sem er að senda frá sér efni og spreyta sig. Ég væri samt til í að sjá fleiri stelpur stíga fram. Maður er alltaf að læra af tónlistarfólkinu í kring og tileinka sér það sem heillar mann. Það sem ég læri mest af er reynsla og mistök annarra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Gísli Marteinn hélt að grín sitt um Garðabæ væri ýkjur en annað kom á daginn

Gísli Marteinn hélt að grín sitt um Garðabæ væri ýkjur en annað kom á daginn
Fókus
Fyrir 5 dögum

Detox-drottningin ánægð með Krýsuvík

Detox-drottningin ánægð með Krýsuvík
Fókus
Fyrir 6 dögum

Vikan á Instagram: „Í sumar ætla ég einungis að drekka kokteila með skvísunum“

Vikan á Instagram: „Í sumar ætla ég einungis að drekka kokteila með skvísunum“
Fókus
Fyrir 1 viku

„Mér finnst eins og við séum allt í einu hætt að vera par og frekar bara bestu vinir“

„Mér finnst eins og við séum allt í einu hætt að vera par og frekar bara bestu vinir“