fbpx
Sunnudagur 14.ágúst 2022
Fókus

Ragnar Jón er með geðhvarfasýki – „Ég er ekki sjúklingur, en ég passa að muna að ég er veikur“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 4. febrúar 2019 22:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Jón Humi Ragnarsson var 26 ára gamall þegar hann var greindur með geðhvarfasýki árið 2013. Hann segir að þungu fargi hafi verið létt af honum þegar hann fékk loksins að vita hvað var að honum en hann hafði glímt við þunglyndi frá menntaskólaaldri. Eftir mikla sjálfsvinnu hefur hann lært inn á sjálfan sig og veikindi sín og nýtur daglegrar rútínu og hversdagslífs.

Blaðamaður DV settist niður með nafna sínum og ræddi hversdaginn, veikindin, batann til betra lífs og baklandið sem er stoð og stytta Ragnars.

Það er ekki að sjá á Ragnari að hann sé veikur þegar hann bankar upp á heima hjá blaðamanni á sunnudegi, brosmildur og léttur í bragði, búinn að bregða sér yfir götuna, því Ísland er svo lítið að í ljós kom að aðeins nokkur hús skilja viðmælendur að í Hlíðunum.

„Ég heiti Ragnar Jón Ragnarsson, nánast alltaf kallaður Humi, sem er gamalt og skemmtilegt gælunafn sem festist við mig þegar ég var 13 ára. Það er pínu eins og listamannsnafn, sem mér þykir voða vænt um,“ segir Ragnar.

Hann er giftur, á tvo börn, dóttur sem er 10 ára og son sem er sjö ára, kennaramenntaður og hefur starfað hjá Isavia síðan árið 2015 í þjálfunarmálum. „Í einfaldaðri mynd þá kenni ég starfsfólki að slökkva eld og ryðja snjó á flugvelli. Ég er skrifstofurækja, vinn frá 9–17, þrjá daga í viku í Keflavík og tvo daga í Reykjavík, keyri á milli og hlusta rosa mikið á podkast,“ segir Ragnar og hlær.

Menntaskólaárin tími vanlíðunar og þunglyndis

Vanlíðanin hjá Ragnari byrjaði strax í gagnfræðaskóla, í 8.–10. bekk, og hann segist seinna hafa lesið sér til og yfirleitt komi áhrif geðhvarfasýki ekki fram fyrr en eftir grunnskólaaldur, eða kringum tvítugt. Á öðru eða þriðja ári í menntaskóla byrjuðu svo geðsveiflurnar og á sama tíma byrjaði Ragnar að drekka meira og reykja sígarettur.

„Ég drakk til að slæva þunglyndið, og ég man að ég drakk líka þegar ég var manískur og ég drakk þangað til ég fór í blakkát. Á einhverjum tímapunkti hugsaði ég að þetta væri ekki gott, ekki sniðugt. Svo kom næsta helgi, eða þar næsta helgi og geðveikin var komin aftur. Ég drakk til að slæva þetta og halda því niðri. Á síðasta ári í menntaskóla fór þunglyndið að bíta mig mikið, ég fór að hætta að mæta í skólann, en var ekki farinn að missa tökin á raunveruleikanum heldur leið mér bara ömurlega,“ segir Ragnar sem segist hafa skrönglað gegnum síðasta árið og hann skilji ekki alveg hvernig.

„Ég man ágætlega eftir stúdentsprófunum og það hitti þannig á að ég tók þau í geðhæð svo ég gat vakað allar nætur, rosa peppaður og þurfti ekkert að sofa. Í eitt skipti vorum ég og vinkona mín bæði ósofin á leið í mjög erfitt próf og ég spurði hana hvernig þetta ætti að ganga upp hjá okkur, 14 próf í heildina, þarna erum við á prófi 11 og hún segir þessa frábæru setningu: „Hlutirnir hafa afgerandi tilhneigingu til að reddast.“

Sem þeir gerðu þarna, ég útskrifaðist. Ég man samt lítið eftir menntaskólaárunum og þegar fólk er að rifja eitthvað upp frá þeim tíma, þá segi oft bara „nei ég man það ekki“.“

Hélt að geðrof væri að vera í hvítum serk og segjast vera Jesús

„Síðan kemur fyrsta alvöru manían þar sem ég byrja að missa tengslin við raunveruleikann. Og það sem ég hef lært eftir að ég greinist er að þetta orð, geðrof, er miklu flóknara og stærra en ég hélt. Ég hélt að geðrof væri að maður stæði einhvers staðar í hvítum serk og segði „ég er Jesús,“ eða „ég er Napóleon,“ með sverð og skrítinn hatt. En það er svona bíómyndar- eða poppmenningarútgáfa af geðrofi,“ segir Ragnar.

„Næstu ár verður það svo þannig að það sem gerist í heilanum á mér og það sem ég upplifi er ekki það sama og er að gerast í raunveruleikanum. Veruleikanum sem þið hin sjáið. Það er eitthvert rof þarna á milli og geðlæknirinn minn útskýrði fyrir mér að það væri líka geðrof. Það sem er að gerast í heilanum á mér er raunveruleikinn og þú getur ekki sannfært mig um að það sem ég upplifi sé nokkuð öðruvísi.“

Á þessum tíma vann Ragnar sem sölumaður í Kaupþingi, á þeim tíma sem ríkti manískt ástand í bönkum landsins, og segist hann líklega ekki móðga neinn með þvi að segja að hann hafi passað vel þar inn.

„Ég hef stundum kallað þetta bankamaníuna, ég var agalega spliffaður gaur í jakkafötum, algjörlega ruglaður. Á þessum tíma var The Secret vinsælt, og maður átti að sjá fyrir sér milljónkall og hengja á vegginn. Og eftir árið endaði ég með milljónkall í skuld, sem er pínu fyndið eftir á, en ekki þá. Ég endaði bara í steik. Þarna var ég í mjög manísku ástandi.“

Hluti af tilvistarkreppunni að líða illa

Á svipuðum tíma og Ragnar og kona hans áttu von á sínu fyrra barni fluttu þau til Akureyrar og hann fór að kenna tónmennt við Brekkuskóla. „Ég var að vinna sem tónmenntakennari á veturna, á sumrin hjá Isavia og svo var ég inni á milli í námi. Ég bý að því að vera manískur kennari. Og það að vera manískur tónmenntakennari er geggjað, fullt af hugmyndum og fullt af krafti. Það voru 400 krakkar sem rúlluðu í gegn hjá mér á viku og við gerðum alls konar vitleysu þegar ég var í geðhæð, svo þegar ég fór niður þá voru YouTube-tímar, þar sem þau fengu bara að velja sér tónlistamyndbönd,“ segir Ragnar, sem oftast mætti til vinnu, þrátt fyrir að þetta væri mjög erfiður tími, en þarna vissi hann ekkert hvað það var sem hrjáði hann. „Þetta flaug alltaf einhvern veginn undir radarinn. Sú skoðun hefur fylgt mér frá menntaskóla eða jafnvel fyrr að mér ætti að líða svolítið illa, að það væri hluti af þessari eilífu tilvistarkreppu, sem það er alls ekki. Auk þess sem að þegar ég er ekki í þessari „tilvistarkreppu,“ þá komu uppsveiflurnar svo svakalega á móti, og ég hélt líka að það væri eðlilegt. Að ég væri bara svona peppaður gaur, að það væri eðlilegt að vera svona peppaður gaur.“

Fæðing dótturinnar var jákvætt áfall

Ragnar segir tilkomu dótturinnar hafa verið jákvætt áfall, eins skrítið og það kann að hljóma. „Ég kalla það jákvætt áfall, því það að eignast barn er verulegt innslag í lífið. Það eru milljón tilfinningar sem fara í gang, spenna, kvíði, en á sama tíma missti ég alveg tengslin við raunveruleikann. Fyrir norðan átti ég mín veikustu ár og ég var í manísku ástandi í allavega eitt og hálft ár, það var allt eins og hvirfilbylur í kringum mig.

Það er svolítið ólán að öll þessi ár þá náðu maníurnar mínar aldrei yfir ákveðinn þröskuld, ég var bullandi veikur, rosalega lasinn, en náði samt einhvern veginn aldrei að toppa yfir. Í mörgum tímabilum átti ég heima inni á spítala og það hefði verið gott að taka mig aðeins úr umferð; „heyrðu þú átt heima hér, við ætlum ekki að hafa þig með þarna úti“, segir Ragnar og hlær.

Manískur heimilisfaðir í Hrísey

Þegar dóttirin var nýfædd og Ragnar í fæðingarorlofi sannfærði hann konuna sína um að það væri góð hugmynd að flytja út í Hrísey. „Ég hafði farið þangað með 10. bekk í útskriftarferð og kom heim alveg uppnuminn og fannst það frábær hugmynd, sem var góð maníuhugmynd, að við yrðum að flytja til Hríseyjar.“ Fljótlega eftir komuna þangað voru þau síðan bæði fengin til að kenna við grunnskólann, og síðar tók hann ákvörðun um að fara í kennaranám. „Það liggur vel fyrir mér að ná til krakka og þegar ég ákvað að verða kennari þá kom ekkert annað til greina, alveg sama þótt það væri illa borgað. Svo er þetta bara svo ógeðslega skemmtilegt.“

Í Hrísey gat Ragnar tekið fullt af maníum að eigin sögn án þess að gera eitthvað stórvægilegt af sér, og segir hann að þar hafi hann tekið margar fyndnar og skrítnar maníur. „Ég bakaði alla daga, tvær tegundir á dag hið minnsta og það fóru mörg kíló af hveiti hjá mér í viku. Ég fékk þráhyggju fyrir að steikja karamellu, með smábarnið upp á aðra höndina, sem var ekkert svo sniðugt. Einhvern tíma bakaði ég til dæmis Twix; kexið, karamelluna og súkkulaðið, og mætti svo með það í skólann til konunnar minnar í fyrra kaffi, í fyrra kaffi sjáðu til!, þá var ég búinn að baka síðan fimm um morguninn og tókst að láta þetta ganga upp eins og allt væri eðlilegt. Allir að tala um hvað ég væri rosalega duglegur. Ég á margar skemmtilegar maníusögur frá þessu tímabili.

Einhvern tímann voru 14 prentarar í steik í kjallaranum, þá ætlaði ég að smíða einhvern rafstýrðan fræsara og það var allt undirlagt og úti um allt. Ég fékk eitt sinn þá flugu í höfuðið að smíða hjól með svona risakassa framan á og fór og sótti tíu hjól á haugana og byrjaði að sanka að mér efni, sem var gott og blessað, fólk smíðar alls konar hluti, nema ég ætlaði að smíða þetta hjól og hjóla svo um hverfið og sækja öll börnin og skila þeim á leikskólann, þannig að það er gott að varð ekki af þeirri hugmynd.

Þarna var manían uppi og þá er maður fullur af orku og sjálfstrú og getur gert alls konar skemmtilegt, sagt skemmtilegar sögur þar sem allir hlægja með, maður þarf lítið að sofa og er bestur. Svo geturðu farið upp og haldið áfram og þá ferðu upp úr „ég er bestur“ og upp í „það eru allir á móti mér paranoju“ og þú missir raunveruleikatengslin. Það er mikilvægt fyrir mig að skoða alla þessa reynslu og vera meðvitaður um hvar ég get staðsett mig í dag.

Konan mín spyr mig oft: „hvar ertu núna?“, og oftast er ég í miðjunni, stundum fer ég niður í fjóra eða þrjá og stundum upp í sex. Ég er á miðlínu í fimm, ef ég er í tíu er ég líklega floginn út í geim að tala við geimverur og við núll er ég búinn að kála mér, eða hér um bil. Konan mín hefur fylgt mér alla þessa sögu og þegar hún segir við mig, „nú ertu farinn að hreyfast eitthvað niður á við,“ þá er ég búinn að læra að það er rétt því hún sér merki sem ég sé ekki. Í dag hreyfist ég blessunarlega mjög stutt frá miðlínu.“

Háskólaárin tímabil erfiðs ástands

Þegar Ragnar og kona hans byrjuðu bæði í háskólanum, fór þunglyndið að hrjá hann verulega og það komu tímabil þar sem hann gat ekki sinnt námi, börnunum eða vinnu. „Svo fór ég neðar og neðar, þar til kom að þessum sjálfsmorðsmörkum þar sem maður fer verulega að hugsa um að kála sér. Þarna fyrst fór ég að verða hræddur um hvað væri að gerast og af hverju þetta væri svona erfitt. Ég man eftir að hafa farið niður og var kominn mjög langt niður. Mér leið svo illa að mér var farið að finnast sem ég væri byrði á öðrum. Mig langaði raunverulega að hætta þessu og hætta að lifa. Skömmin var svo ótrúlega rík í þessu og mig langaði ekkert endilega að hætta að lifa út af mér, heldur var ég sannfærður um að heimurinn væri betri staður án mín. Ég veit í dag að þetta virkar ekki svona, þetta er ekki svoleiðis, en það er erfitt að lýsa þessu. Þetta var langt, þungt og erfitt ástand.“

Jólin 2012 var kona Ragnars að skrifa lokaritgerðina sína í háskóla, hann var heima með börnin, og manískur. Þá kom upp atvik, sem varð til þess að hann fékk loksins greiningu.

„Ég fór í Fjölsmiðjuna og fann þar píanó, sem ég keypti á 15 þúsund kall. Tilkynnti konunni minni það sem spurði bæði hvar ég ætlaði að hafa það og hvernig ég ætlaði að koma því heim, upp á aðra hæð í gömlu timburhúsi. Ég fékk svo fimm sterka karlmenn með mér, píanóinu var rúllað upp þröngan stigann og allir voða glaðir. Konan mín opnaði svo píanóið og það var svo falskt að það þrítónaði á hverri nótu. Ég sagðist auðvitað ætla að stilla það, með því að læra það bara á YouTube. Ég fór og keypti stillihamar og sat löng kvöld að stilla, og þegar ég var búinn að slíta þrjá strengi kláraðist manían. Síðan var píanóið bara í stofunni, skrúfað í sundur og allt í tætlum, þar til konan mín sagði að við yrðum að losna við það, það væru að koma jól.“

Þarna var Ragnar kominn niður úr maníunni og segir hann að skömmin hafi verið komin líka, að hann hafi ekki getað hugsað sér að hringja aftur í sömu menn til að koma og fjarlægja píanóið. „Svo fór ég aftur í sveiflu upp og konan mín kom að mér þar sem ég sat á nærbuxunum með sög og slípirokk að saga píanóið í sundur til þess að koma því út. Þarna skildi hún að eitthvað var að. Svo liðu nokkrir mánuðir og þá kom aftur niðursveifla og þá endaði ég hjá heimilislækni.

Ég fór til heimilislæknis í svona 10 mínútna tíma og karlgreyið sem tók á móti mér, ég tók hann alveg í herkví. Hann leysti þetta hins vegar fagmannlega, útbjó beiðni sem varð til þess að ég róaðist og beið í tvær vikur þar til ég komst að hjá geðlækni á spítalanum á Akureyri, þar sem ég vissi að núna myndi ég fá aðstoð.

Ég fór til geðlæknis sem ávísaði mér lyfjum og í dag fær enginn að hafa skoðun á lyfjunum mínum nema hann, ekki einu sinni ég og ég breyti ekki skammtinum mínum nema í samráði við hann. Geðlæknirinn minn lagar geðsjúkdóma. Fyrst þegar ég hitti hann vildi ég bara svona einfalt trix sem myndi laga allt, en hann gaf lítið fyrir það. Sagði mér að taka lyfin mín, það tæki tíma fyrir geðið að stilla sig af. Eina trixið sem hann átti handa mér var reglubundið líf. Ég sagði bara já, en vissi ekkert hvað hann var að tala um, ég hafði ekki lifað eðlilegu lífi í mörg ár. Þremur árum og ýmiss konar geðsveiflum seinna náði ég því sem heitir reglubundið líf. Ég tek ábyrgð á sjálfum mér og sinni grunnþörfunum: ég borða góða næringu, sef nóg og ég hreyfi mig. Árið 2016 áttaði ég mig til dæmis á að þó svo að ég sé ekki alkóhólisti þá hentar mér betur að drekka ekki eða djamma, það fylgir þessu reglubundna lífi. Litlar breytingar yfir lengri tíma henta mér best, ekki kúrar eða fögur fyrirheit.

Þetta virkar til að stabílísera lífið og í dag tekst mér að finna hvað virkar fyrir mig og hvað ekki. Geðsveiflurnar hverfa aldrei eða það að ég er veikur á geði, en reglusemi styttir þær og minnkar og gerir að verkum að langoftast er ég virkur samfélagsþegn.“

 

Geðsjúkdómur á ekki að vera tabú

Ragnar segir það mikilvægt að geðsjúkdómar séu ekki tabú, ekki frekar en líkamlegir sjúkdómar. Hann segist hafa upplifað fordóma og þá ekki síst hjá sér sjálfum, en eftir að hann opnaði sig um veikindi sín, segir hann fordóma gagnvart sér vera hverfandi.

„Tabúið og fordómarnir eru í heilanum á mér, ekki hjá fólkinu í kringum mig. Þegar ég er á miðlínu, þá upplifi ég stundum fordóma hér og þar og að samfélagið sé litað af fordómum og ég get leitt það hjá mér. En þegar ég er á þeim punkti að ég spyr mig: „Á ég að leita mér hjálpar? Eða á ég að kála mér?“, þá eru fordómarnir bara hjá mér.

Fordómarnir eru að segja: „Þú getur ekki verið byrði á öðru fólki, fólk hefur svo miklar áhyggjur af þér ef þú segir frá að þér líði svo illa að þú viljir kála þér, fólk sefur ekki á næturnar ef þú segir þeim frá hvað þér líður illa, heilbrigðiskerfið hefur ekki tíma fyrir fólk eins og þig.“

Mig langar varla að segja þetta upphátt, en ég fæ svona minikomplexa af því ég að ég reyndi aldrei sjálfsvíg, ég var bara á brúninni að reyna og ég upplifi að ég sé ekki þess verðugur að vera með í einhverjum ímynduðum klúbbi af því að ég reyndi aldrei sjálfsmorð.

Ef það er eitthvað sem ég get komið til skila þá er það að grípa þessar hugsanir strax, leita sér hjálpar strax.“

Skíthræddur við að koma út úr skápnum í vinnunni

Líkt og áður segir þá vinnur Ragnar hjá Isavia, og segir hann að hann hafi verið búinn að vinna þar í svolítinn tíma þegar hann varð að segja frá veikindum sínum. „Það var stórt skref að vinna úr þessari skömm og hluti af því var að koma út úr skápnum í vinnunni með veikindi mín. Ég var þá með þrjá yfirmenn sem ég þurfti að tala við. Ég var skíthræddur og var viss um að ég myndi missa vinnuna, en mér var alls staðar tekið vel. Einn þeirra horfði á mig hugsi og sagði að lokum: „Láttu mig bara vita ef þú hættir að taka lyfin þín.“ Svo hlógum við báðir.

Ég mæti alltaf í vinnu, nema á 2–3 mánaða fresti þá kemur niðursveifla sem varir í 2–4 daga og þá stimpla ég mig bara út á meðan og fer í veikindaleyfi í þann tíma og svo kem ég inn aftur. Þau sem vinna með mér vita að ég svara ekki síma eða tölvupósti þegar ég er veikur. Þó að ég sé bara heima að spila tölvuleik, þá lem ég mig ekki niður fyrir það, af því að ég veit að þetta tímabil klárast. Ef ég væri búinn að spila í tvær vikur þá væri konan mín búin að segja við mig: „Jæja, Humi, þarftu nú ekki að fara að gera eitthvað, tala við lækninn?“

Ef ég gef sjálfum mér andrými til að vera lasinn þá er þetta rútína sem virkar fyrir mig. Þegar ég er ekki veikur vinn ég forvinnuna mína; að skapa mér heilbrigða sjálfsmynd, mataræði, hreyfingu og allt það gerir að verkum að mér líður betur, og fyrir vikið verða veikindatímabilin styttri.“

Erfiðasta verkefnið að taka ábyrgð á sjálfum sér

Ragnar segir að erfiðasta verkefnið eftir að hann greindist hafi verið að vinna úr allri skömminni: „Það er verkefni sem ég fæ upp í hendurnar og það hefur verið einn stærsti hlutinn af því að taka ábyrgð á sjálfum mér. Eitt af verkfærunum sem ég nota er að ég á engin leyndarmál, ég á fullt af hlutum sem eru prívat, en engin leyndarmál, ég á alltaf einhvern að sem ég treysti og get rætt við.

Það hefur virkað vel fyrir mig að átta mig á að ég get ekki borið ábyrgð á hlutum sem ég gerði þegar ég var lasinn og gat ekki betur, en þótt ég geti ekki borið ábyrgð á þeim þá get ég tekið ábyrgð á þeim og stundum felst það í því að segja: „Ég var ofboðslega lasinn og ég gat ekki betur en mér þykir ofboðslega leitt að þetta hafi gerst.“ Ég þarf að fyrirgefa sjálfum mér þessa hluti og það er ekki alltaf auðvelt.

Það er erfitt að biðjast fyrirgefningar á einhverju sem ég ber ekki ábyrgð á, en ég tek ábyrgð með því að tala um það. Það var mjög stór hluti af þessu að taka ábyrgð á mínu dóti, þá get ég lifað sáttur með því og farið að sofa á nóttunni.“

Fjölskyldan stærsti fjársjóðurinn

Þegar eitthvað kemur upp á segist Ragnar svo lánsamur að eiga fólk í kringum sig sem hann getur talað við, foreldra sína, konuna, vini og systkini. „Ég er svo lánsamur og ég get trúað þeim fyrir öllu þessu dóti, það er minn stærsti fjársjóður.

Þegar ég er spurður að því hvernig mér líður þá á ég oft erfitt með að svara og stundum á ég engin orð til að lýsa hvernig mér líður. Þetta meikar engan sens fyrir aðra, en stundum þegar konan mín spyr mig hvernig mér líður þá svara ég: „Þetta er eins og fjólublátt flauel og það er rifflað og ógeðslega dimmt. Þá er svona herbergi í höfðinu á mér, sem alla jafna er bjart og hvítt og hvítmálað. Ég finn þegar ég er niðri að það er öðruvísi þar inni og öðruvísi áferð.

Það sem mér finnst svo fallegt er að aðstandendur mínir spyrja: „Hvernig líður þér?“ og þeir vilja fá svarið: „Það er fjólublátt, það er drungalegt,“ af því að þeir vilja fá heiðarlegt svar þó að þeir geti ekki lagað ástandið.

Stundum set ég upp grímu, sem er alltaf talað um sem eitthvað neikvætt, en stundum þarf ég bara að passa upp á mig. Til dæmis þegar ég er að koma upp úr lægðinni, þá hef ég ekki gagn af því að segja: „Ég er búinn að vera rosalega lasinn og allt er hellað“ það hjálpar mér oft ekkert. Stundum set ég því upp grímu og brynja mig og segi að ég hafi það bara fínt. Stundum er ég þó algjörlega heiðarlegur við viðkomandi og segi nákvæmlega hvað er búið að gerast. Þetta er hluti af því að læra inn á mig og hverjum ég hleypi að mér og hverjum ekki. Þetta snýst allt um að læra inn á mig og mín viðbrögð.

Ég set mörk gagnvart öðrum og gagnvart sjálfum mér. Þegar ég er niðri þá get ég samt græjað morgunmat handa krökkunum, þá er ég að taka þátt. Ég get kannski gengið með þeim í skólann þennan dag, en ekki hinn.“

Daglegar Kringluferðir eru mælikvarði

Ragnar á eina rútínu sem hann gerir daglega þegar hann er þunglyndur, sem hjálpar honum að staðsetja sig. „Það sem ég geri er að ég geng alltaf í Kringluna, fer á sama kaffihúsið, og reyni að sitja í sama stólnum þar sem ég horfi út yfir Stjörnutorg og skrifa í dagbók. Ástæðan fyrir því að ég geri þetta er að ég er að passa upp á að einangra mig ekki og svo er þetta ákveðið sýrutest. Þegar ég geng inn í Kringluna þá finn ég að annaðhvort vil ég ekki tala við neinn, hafa hettuna á mér og það á enginn að sjá mig eða ég ætla að taka af mér hettuna og mögulega horfa framan í fólk. Þetta er svona samanburðartilraun og þannig veit ég hvar ég er í kúrfunni eftir því hvernig mér líður.“

Börn Ragnars vita að hann er veikur, enda hafa þau hjónin rætt veikindi hans við þau. „Þau vita að ég er lasinn í heilanum og þegar ég er veikur heima, þá vita þau að ég er lasinn. Þau fá að vera ærslabelgir, þau þurfa ekki að tipla á tánum í kringum mig, en þau finna að sjálfsögðu fyrir þessu og ábyggilega seinna, þurfa þau að tala um hvernig er að eiga veikan föður. Það hefur áhrif þegar einhver í fjölskyldunni er veikur og mitt hlutverk gagnvart þeim er að bera virðingu fyrir því, vera opinn fyrir því og geta tekið þessar samræður við þau.

Aðalatriðið í þessu er kannski að þegar fólk er lasið eins og ég, er ekki hægt að „hressa sig við“ eða að laga ástandið með einhverjum einföldum trixum en það er hægt að gera ótrúlega mikið gagn með því að vera til staðar.

Eftir að ég kom út úr skápnum með veikindi mín þá heyri ég eiginlega aldrei neitt sem er stuðandi og fólk sýnir mér mikinn skilning, mun meiri en ég hélt að ég fengi. Í mínu tilviki þá getur það verið gott að fólk viti af mínum veikindum þegar ég mæti einhvers staðar, þá get ég verið rólegur og ég sjálfur, í stað þess að þurfa að passa að haga mér á einhvern ákveðinn máta.“

Er hægt að lækna geðsjúkdóm?

„Það er spurning sem ég á ekki svar við. Minn verður ekki læknaður, ég er ekki sjúklingur, en ég passa mig að muna að ég er veikur. Ef ég man það þá tek ég lyfin mín og ber ábyrgð á sjálfum mér. Ef ég gleymi því þá er hætt við að ég fari að skrensa.

Ég er með geðsjúkdóminn geðhvarfasýki, þetta er sjúkdómur með ákveðna greiningu. Mér finnst það mjög hughreystandi að það er heilt vísindasamfélag búið að skoða þetta og rannsaka og það er viðurkennd meðferð og til viðurkennd lyf. Um leið og ég vissi að ég var með geðhvarfasýki og það var læknir fyrir framan mig sem staðfesti það, þá var þungu fargi af mér létt. Ég var kominn með bjargráð og ekki lengur einn í heiminum. Ég er með mjög gott bakland, öll mín kjarnafjölskylda stendur þétt í kringum mig; konan mín, börnin, mamma og pabbi, bræður mínir, vinir og tengdafjölskyldan. Það má koma skýrt fram, það skiptir mig miklu máli. Það er ekkert tabú að ég er veikur og það að eiga bakland skiptir ótrúlega miklu máli, en það þýðir að ég þarf að rækta baklandið mitt, þau vita ekki hvernig þetta virkar nema ég tali við þau. Ég er líka mjög lánsamur, lífið gengur vel og ég get unnið fulla vinnu, það er alls ekki gefið en maður veit það ekki fyrr en á reynir.“

——————-

SETJA Í BOX

Aðstoð og fræðslu fyrir einstaklinga sem glíma við þunglyndi og geðsjúkdóma er að finna hjá:
*Hjálparsími Rauða krossins sími 1717 Heimasíða: 1717.is
*Píetasamtökin sími 552-2218 Heimasíða: pieta.is
*Geðdeild Landspítala sími 543-4050
*Einnig má finna fróðleik og upplýsingar á heimasíðu Hugrúnar, gedfraedsla.is. Félagið Hugrún hefur það að markmiði að fræða ungt fólk um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði, sem og að auka samfélagslega vitund.

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Haraldur geðlæknir segir að góðmennska nútímans sé að snúast upp í andhverfu sína -„Það er augljóslega eitthvað mikið að“

Haraldur geðlæknir segir að góðmennska nútímans sé að snúast upp í andhverfu sína -„Það er augljóslega eitthvað mikið að“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Lögreglan finnur ekki móður og börnin hennar þrjú eftir dvöl þeirra með Ezra Miller

Lögreglan finnur ekki móður og börnin hennar þrjú eftir dvöl þeirra með Ezra Miller
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kristján Jón er sterkasti maður Íslands 2022

Kristján Jón er sterkasti maður Íslands 2022
Fókus
Fyrir 5 dögum

Svona lengi á kynlífið að endast samkvæmt kynlífssérfræðingnum

Svona lengi á kynlífið að endast samkvæmt kynlífssérfræðingnum