fbpx
Miðvikudagur 23.september 2020
Fókus

Valdimar Brynjar lést af völdum lyfjaeitrunar – „Ég veit ekki hvar við værum staddar í dag ef stuðningur samfélagsins hefði ekki verið til staðar“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 26. ágúst 2018 20:00

Mæðgurnar Rakel Rut, Kristjana Rut og Sara Ísabel.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valdimar Brynjar Atlason lést á heimili sínu þann 13. júlí 2016 af völdum lyfjaeitrunar vegna misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum. Hann var 23 ára gamall, fæddur 26. febrúar 1993. Hann glímdi við kvíða frá barnsaldri og var búinn að leita margra leiða til að vinna bug á honum. Valdimar Brynjar er einn af þeim mörgu unglingum og ungmennum sem fallið hafa frá síðustu ár vegna misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum.

Myndir af Valdimar og munir sem hann smíðaði og gerði, eiga sinn heiðurssess á heimilinu.

Blaðamaður DV settist niður með móður og systur Valdimars, Rakel Rut Valdimarsdóttur og Kristjönu Rut Atladóttur, og ræddi við þær um Valdimar, baráttu hans við kvíða frá barnsaldri og misnotkun á lyfseðilsskyldu lyfjunum og hvernig þær tókust á við sorgina.

„Valdimar var gleðigjafi,“ segir Rakel, um leið og hún flettir í minningabókinni sem hún hefur búið til um son sinn. „Hann var alltaf glaður, alltaf þakklátur, alltaf lítillátur og krafðist einskis.“

Rakel heldur upp á teikningar og fleiri muni eftir son sinn.

Valdimar var annar í röðinni í fimm barna hópi Rakelar. Elst er Birgitta, fædd 1988, Kristjana Rut, fædd 1995, Guðlaug Díana, fædd 2000, og Sara Ísabel, fædd 2003. Einnig eru tvö hálfsystkini föður Valdimars megin, Heiðar Páll, fæddur 1982, og Mýa Ýrr, fædd 1983.

Guðlaug Díana.

Foreldrar hans skildu þegar Valdimar var þriggja ára og segir móðir hans að skilnaðurinn hafi fengið á hann, þrátt fyrir að hann væri ungur að árum. „En hann elskaði okkur bæði skilyrðislaust.“

Þegar Valdimar var 15 ára flutti hann heim til föður síns. Á sama tíma var hann greindur með ADHD og settur á Concerta. „Þá byrjaði hann að reykja gras til að geta sofnað að hans sögn og var kominn með eigin plöntu heima. Þegar hann var 17 ára ákvað hann að fara í meðferð. Þegar hann var 13 ára þá fannst mér farið að bera á þunglyndi hjá honum, hann hafði ekki áhuga á neinu. Hann var alltaf glaður, en latur. Svo fór hann að nota stera upp úr því og mig grunar að það hafi ekki haft góð áhrif á geðheilsu hans,“ segir Rakel, sem segist aldrei hafa verið sátt við greininguna á syni sínum. „Hann var afbragðs námsmaður og vel yfir meðalgreind þegar hann var sjö ára. Skólaleiðinn kom hins vegar strax í upphafi og það einkenndi hann að hanga fram á borðið, hann var búinn að öllu í tíma á fyrstu mínútunum. Kvíðinn fór að gera vart við sig þegar hann var í grunnskóla og vanlíðan, einhver líðan sem hann vissi ekki hvað hann átti að gera við. Og hann upplifði sig sem vondan einstakling.“

Þegar Valdimar var í meðferð á Vogi eignaðist hann góðan vin. „Þeir urðu einu vinir hvor annars, þrátt fyrir að vera hvor á sínum staðnum á landinu,“ segir Rakel og Kristjana bætir við að þegar hann hafi verið yngri þá hafi hann átt stóran vinahóp, en af því að sambandið hafi rofnað þá þorði hann ekki að eiga frumkvæðið að því að endurvekja það. „Besti vinur hans hér flutti til Noregs og hann talaði oft um að hafa samband við hann en þorði því ekki.“

Eftir andlát hans hafa þó margir vina hans haft samband og margir þeirra eru í reglulegu sambandi við mæðgurnar í dag.

Valdimar drakk áfengi tvisvar sinnum eftir að hann fór í meðferðina á Vogi 17 ára, í fyrra skiptið tók hann lyf með því, sagði föður sínum frá sem hringdi á sjúkrabíl og var Valdimar fluttur á geðdeild. „Í seinna skiptið, í desember árið 2015, ætlaði hann að detta í það með vini sínum, en var kominn heim sólarhring síðar. Sagðist hann bara hafa viljað prófa þetta af því að hann hefði aldrei prófað það áður.“

Fann loksins tilgang í iðjuþjálfun

Þegar Valdimar fór í meðferð 17 ára hætti hann á Concerta og leitaði sér stuðnings hjá geðlækni skömmu eftir það. Hann var settur á ýmis þunglyndis- og kvíðalyf í gengum árin, en gafst oft upp á þeim og notaði stera samhliða eða þegar hann var ekki á geðlyfjum. Hann fann sig í iðjuþjálfuninni á göngudeild Geðdeildar Landspítalans. „Honum var til dæmis boðið að taka við umsjón á smíðaverkstæðið þar, hann sagði mér ekki frá því og líklega hefur þessi tilvonandi ábyrgð valdið honum kvíða, líkt og aðrar breytingar í lífi hans,“ segir Rakel.

„Það hjálpaði honum þó mest að vera þarna, þar fann hann loksins tilgang. Og líka að vera innan um annað fólk sem var statt á sama stað og hann og að skilja að hann var ekki einn. En svo er þjálfuninni lokað yfir lengri tímabil árlega, því það er ekki hægt að fjármagna hana. Hvað átti hann að gera þegar var lokað?“ segir Kristjana og bætir við að hana langi til að stofna sjóð til að styrkja iðjuþjálfunina.

Segja þær mæðgur að Valdimar hafi talað um að hann vildi læra húsgagnasmíði og á heimili mæðgnanna er fjöldi fallegra muna sem hann smíðaði í iðjuþjálfuninni og verða þeir varðveittir til minningar um hann.

Heltekinn af kvíða en fór að líða betur stuttu fyrir andlátið

„Kvíðinn heltók hann, hann einblíndi stöðugt á hann og vildi vita af hverju hann væri kvíðinn núna og slíkt. En honum var byrjað að líða betur og það var allt á uppleið. Hann komst á örorku 1. júlí og létti það af honum ákveðnum áhyggjum,“ segir Rakel. „Á þriðjudeginum fyrir andlát hans keypti hann sér gönguskó sem hann hafði lengi dreymt um að eignast og einnig hafði hann nýlega keypt sér draumatölvuna og setti hana saman sjálfur.“

Fyrir andlát sitt var Valdimar búinn að vera í nokkra daga heima hjá móður sinni. „En svo vildi hann bara komast heim, ég keyrði hann þangað og bauð honum að koma með mér í Hvalfjörð, en hann afþakkaði og vildi bara fara heim og tala við vin sinn. Sem hann gerði frá um klukkan 18.00 og til miðnættis, ef frá er talinn tíminn þegar hann fór út að ganga með Tind, hundinn minn sem hann bað um að fá að taka með sér heim.

Hann sagði vini sínum að hann væri búinn að taka lyf, Oxycontin, og af því að ekkert gerðist tók hann meira. Hann hafði gert þessar tilraunir 2–3 áður og hafði tekið meira magn þá, en núna hafði hann lést mikið og var væntanlega ekki með það í huga. Um var að ræða lyf sem faðir hans var á vegna veikinda og Valdimar sótti sér. Um miðnætti sagðist hann sjá tvöfalt og ætlaði að hvíla sig og lofaði vini sínum að taka ekki meira inn því hann ætti að sækja pabba sinn daginn eftir á spítalann. Og hann vildi ekki að pabbi sinn vissi að hann hefði aftur stolist í lyfin hans.“

Valdimar mætti hins vegar ekki á spítalann til að sækja föður sinn, sem hringdi þá í hálfbróður hans og bað hann að fara og athuga með Valdimar. Rakel var á leið í veislu með dæturnar þegar hún fékk símtal frá föður Valdimars þar sem hann sagðist vera með slæmar fréttir.

Eftir krufningu kom í ljós að um lyfjaeitrun var að ræða og fékk Rakel þær upplýsingar hjá lögreglu að mikil fjölgun væri í andlátum af þeim toga. „Það var nokkuð ljóst að þetta var ekki viljaverk hjá honum, hann var svo mikill pælari, las sér til um allt og hafði sterkar skoðanir, þarna bara feilar hann, en hann vissi að þetta var áhætta,“ segir Rakel.

„Ein tafla getur drepið, það er sannleikurinn og ég vil frekar segja eitthvað en bara horfa upp á þetta. Það er mikilvægt að gera börnum grein fyrir því að það er nóg að taka eina. Margir telja hins vegar að þetta sé í lagi af því að þetta er læknadóp.“

Hundurinn Tindur sem var hjá Valdimar þegar hann lést.

„Það eru allir hræddir við að tala um Valdimar við mig“

Eftir andlát Valdimars voru mæðgurnar heima hjá foreldrum Rakelar. Prestur kom heim til þeirra þar, fjölskylduvinur hafði hringt í hann og beðið hann um að heimsækja fjölskylduna. „Okkur var ekki boðin áfallahjálp og ég hafði ekki orku til að bera mig eftir henni.  Ég var að vinna með sálfræðingi, sem reyndi að koma mér í áfallateymi, en ég uppfyllti ekki skilyrði til að komast í það, þar sem ég kom ekki sjálf að Valdimar látnum.

Allir buðu okkur að koma í heimsókn og voru til staðar, en ég hafði mig aldrei í að koma mér út úr húsi. Hins vegar komu fáir í heimsókn,“ segir Rakel.

„Ég ætlaði að hringja til hans þetta kvöld en ákvað að bíða með það til morguns,“ segir Kristjana. „Svo vöknuðu spurningarnar: Af hverju hringdi ég ekki? Hefði ég getað stoppað þetta? Maður fer að hugsa svona og má ekki gera það. Það voru tvær vikur í að ég myndi flytja heim og við vorum búin að tala um að flytja inn saman, af hverju flutti ég ekki fyrr heim?

Það eru allir svo hræddir við að tala við mig um bróður minn, það eru allir svo hræddir um að mér muni líða illa. En mig langar að tala um bróður minn og minnast hans, ég á bara góðar minningar um hann.“

Mæðgurnar fengu þó allar aðstoð á endanum með stuðningi sálfræðings á vinnustað Rakelar. „Ég fór og hitti geðlækni, hjúkrunarfræðing og sálfræðing á Landspítalanum og fór í HAM-meðferð. Síðan komst ég inn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og er með sálfræðing þar ennþá. Við fengum allar hver sinn sálfræðinginn; Kristjana komst inn á Hvíta bandið. Við fórum líka til SÁÁ, þar bjóða þeir upp á sálfræðiþjónustu fyrir börn sinna skjólstæðinga.

Stuttu eftir andlát Valdimars fóru mæðgurnar hringferð um landið. Á því ferðalagi hitti Rakel konu sem misst hafði sjö ára gamalt barn fyrir 20 árum. Segir hún að orð konunnar hafi verið  mikilvæg fyrir hana: „Það eru 20 ár síðan sonur minn lést og ég er hér, það er allt í lagi með mig. Ég fékk sjö ár með syni mínum, þú fékkst 23 ár, vertu þakklát.“ Ég tileinkaði mér strax þessi fallegu orð og er eingöngu þakklát fyrir þau 23 ár sem við Valdimar fengum að að njóta samfylgdar. Ég get ekki sett mig í spor þeirra sem hafa misst ung börn.“

 

Leitaði sér stanslaust hjálpar við kvíðanum

„Valdimar var meðvitaður um kvíðann og þunglyndið og leitaði sér hjálpar á mörgum stöðum, hann leitaði sér stanslaust aðstoðar. Hann var búinn að hitta og tala við nokkra sálfræðinga sem náðu þá ekki til hans, honum fannst þeir ekkert sérlega gáfaðir og sagðist hafa gaman af því að spila með þá. Hann var vel gefinn og sá fljótt í gegnum fólk og valdi út frá því það fólk sem hann vildi eiga samskipti við. Hann spilaði sig annan þar til hann hitti þann sem hann var með undir lokin, hann var mjög ánægður með hann. Hann var um tíma á AA-fundum, um tíma á samkomum, hann spilaði tölvuleiki til að ná tökum á kvíðanum,“ segir Rakel.

„Hvernig var mögulegt að ekki væri búið að vinna úr þessu, fyrst hann fór til allra þessara sálfræðinga og geðlækna,“ segir Kristjana. „Ég var reiðust yfir því að honum leið svona illa, af hverju gat eg ekki fengið eitthvað af þessu? Mér finnst þetta óréttlæti.

Börnum í dag fjölgar sem eru að fá kvíðatengdar greiningar og þeim fjölgar einnig sem eru að fá fleiri en eina til tvær greiningar. Það er svo margt sem spilar saman og það þarf að fjölga teymisúrræðum fyrir þessi börn. Það er að sjálfsögðu margt gott í boði, en vantar heildrænni stefnu í þennan málaflokk eins og svo marga aðra í okkar þjóðfélagi, því miður.

Mér datt til dæmis hug hvort það væri möguleiki að setja upp heilsusumarbúðir/heilsuskóla  fyrir börn með kvíðagreiningar, þá eins fljótt og mögulegt er eftir að þau hafa fengið greiningu. Ef kvíðinn er ekki almennilega greindur þá vefur hann bara upp á sig og verður einstaklingnum óskiljanlegur og óbærilegur. Þá held ég að það geti verið ansi erfitt og flókið ferli sem þarf að fara í gang til að hjálpa þeim einstaklingi, og með aðkomu fjölda heilbrigðisstarfsmanna.

Af hverju erum við ekki með svona úrræði, af hverju vantar okkur svona mörg úrræði, af hverju er þetta svona mikið vandamál, af hverju erum við ekki að gera neitt í þessum verkefnum sem okkur er ætlað að leysa af hendi?“ segir Rakel.

Sorgin er persónulegt ferli – Sálin var að springa af sársauka

Fyrst eftir andlát Valdimars kaffærðu mæðgurnar sig í vinnu og öðru og fjarlægðust hver aðra. Þær segjast vera að koma saman aftur í dag og leggja áherslu á að sorgarferlið sé persónulegt ferli.

„Á tímabili leið mér þannig að ég var alveg tilbúin að fara með honum, ég fór rosalega langt niður, ég var komin á þann stað fyrir einu til einu og hálfu ári síðan að ég var einfaldlega búin að dæma mig úr leik,“ segir Rakel. „Maður má ekki hugsa neikvætt til sín sjálfs, það er búið að taka mig 40 ár að læra það. Eins hrikalegur sársauki og þetta var þá ýlfraði ég eins og úlfur, sálin bara gólaði og ég leyfði því að gerast. Sálin var að springa, þetta eru ekki mannleg hljóð, maður er svo stútfullur af sársauka. Ég mæli með að fólk leyfi sorginni algjörlega að sleppa út,“ segir Rakel.

„Það sem hefur hjálpað mér mest er að ég geri það sem ég vil og mig langar til,“ segir Kristjana. „Eins og núna, ég er að fara til Kostaríku sem au-pair, en allir eru að spyrja mig hvort ég hafi ekki ætlað í skóla,“ bætir hún við, en hún var komin inn í lögreglunám í Háskólanum á Akureyri.

„Það eru svo miklir fordómar varðandi það ef maður fer ekki strax í háskóla. Ég á vini sem hafa ekki klárað framhaldsskóla ennþá, eru að ströggla við þetta, jafnvel með kvíða og þunglyndi, og fá bara að heyra að þeir séu aumingjar. Ég held einmitt að Valdimar hafi liðið svona.

Svo er annað að detta ekki inn í vorkunnina,“ segir Kristjana, sem segist iðulega fá að heyra að hún sé svo sterk. „Valdimar hefði aldrei viljað að ég lægi grenjandi á sófanum. Ég verð stundum reið þegar fólk er að tala um smávægileg vandamál sem skipta engu máli og eru að vorkenna sér. Um leið og maður dettur í þessa vorkunn þá er maður að hamla batanum.“

Stuðningur samfélagsins mikilvægur – Börn í samfélaginu eru börn samfélagsins

Rakel og yngstu tvær dætur hennar búa í Vogum á Vatnsleysuströnd og segir Rakel að samfélagið hafi hlúð að þeim eftir andlát Valdimars. „Samstarfsmenn mínir og yfirmenn hafa hlúð að mér og sýnt mér mikinn skilning. Að búa í samfélagi þar sem allir taka höndum saman er ómetanleg. Ég á ótrúlega góða vinkonu hér sem fór bara í gírinn og sá um að leita til fólks og félagasamtaka hér í bænum. Stuðningurinn sem ég fékk hér í þessu góða samfélagi er algerlega ómetanlegur og verður ekki metinn til fjár. Þegar Valdimar lést átti ég 3.000 krónur, ég átti ekki fyrir útför Valdimars. Það var ekki á sorgina sem ég upplifði vegna þess bætandi. Ég veit ekki hvar við værum staddar í dag ef þessi stuðningur samfélagsins hefði ekki verið til staðar.  Ég hef fengið að læra það að í hverju samfélagi erum við öll ein stór fjölskylda. Við gætum kannski staldrað við og hugað aðeins að náungakærleiknum.“

 

Brot úr dagbók Valdimars Brynjars:
30. maí 2016 mánudagur

„Þegar mér leið sem verst í dag lá ég uppi í rúmi og hugsaði um að drepa mig, þó ekki svo alvarlega að ég myndi gera eitthvað í því.“

  1. maí 2016 þriðjudagur

„Þetta er ekki búinn að vera góður dagur, ég er búinn að upplifa rosalega mikinn kvíða og auðvitað þunglyndi sem fylgir því.“

  1. júní 2016 fimmtudagur

„Furðuleg tilfinning. Ofsaleg vellíðan og þó nokkur vanlíðan bæði á sama tíma. Hrikaleg þreyta og heilmikill þróttur í góðu samlyndi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Það getur verið viss áskorun fyrir þau að láta sambandið ganga“

„Það getur verið viss áskorun fyrir þau að láta sambandið ganga“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sunneva Einars og Birta Líf spjalla um OnlyFans – „Af hverju ertu ekki löngu búin að þessu?“

Sunneva Einars og Birta Líf spjalla um OnlyFans – „Af hverju ertu ekki löngu búin að þessu?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vigfús Bjarni: Þeim fjölskyldum gengur langbest sem ekki stunda hugsanalestur

Vigfús Bjarni: Þeim fjölskyldum gengur langbest sem ekki stunda hugsanalestur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona brást íslenska þjóðin við smitunum – „Varstu í alvöru að gera grín um kórónuveiruna?“

Svona brást íslenska þjóðin við smitunum – „Varstu í alvöru að gera grín um kórónuveiruna?“