„Við sjáum nú þegar Flokk fólksins liðast í sundur. Hann er núna í herferð á móti fjölmiðlum sem er ekki góð pólitík. Fjölmiðlar eru svo vondir að þeir spyrja spurninga. Það kemur í ljós að þetta er ekki stjórnmálaflokkur, þetta er félagasamtök. Og hann hefur ekki að því virðist staðið við neitt af kosningaloforðunum sínum. En við heyrum ærandi þögn frá Viðreisn og Samfylkingu,“
segir Eyþór Arnalds sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður Flokks fólksins, lét hafa eftir sér í síðustu viku að fjölmiðlar sem hafi tekið þátt í þessari aðför að henni, sem eru í eigu auðmanna og stjórnmálaafla, séu að koma fram við fólkið í landinu eins og fífl.
Eyþór þekkir til stjórnmálanna. Hann var varaborgarfulltrúi í Reykjavík 1998-2002 þar sem hann sat meðal annars í fræðsluráði og hafnarstjórn. Hann var oddviti lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg 2006 og 2010 og var formaður bæjarráðs Árborgar 2010-2014. Eyþór var oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum árið 2018 og sat hann í minnihluta sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík kjörtímabilið 2018-2022. Eyþór hafði hug á að bjóða sig aftur fram í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningum árið 2022 en þann 21. desember 2021 lýsti hann því yfir að hann hygðist draga framboð sitt til baka.
Eyþór segist í viðtalinu við Frosta telja að vandræði Flokks fólksins í upphafi kjörtímabilsins eigi eftir að geta gert ríkisstjórninni mjög erfitt fyrir enda sé ljóst að fjármögnun flokksins sé í rúst og ekki alveg skýrt hvernig megi leysa þau mál. Hann ræðir einnig í þessu viðtali um stjórnmál beggja vegna Atlantshafsins, gervigreind, tæknimál og auðvitað um tónlistina sem hann hefur alltaf nostrað við með öðrum verkefnum í gegnum tíðina.
Frosti segir: „Það eru strax komin vandræði í Paradís.“ Og Eyþór segist ekkert heyra frá forsætisráðherra eða fjármálaráðherra um hvort það sé í lagi að taka við mörg hundruð milljónum án heimildar.
„Eða hvort ríkisstjórnin ætlar að standa við þetta loforð um 450.000 krónurnar sem ég heyri að Flokkur fólksins er ennþá að segja að verði.“
Frosti segir að Inga Sæland segi að aðeins sé um formgalla að ræða og það eigi bara eftir að skrá þetta rétt. „Og þetta sé ekkert stórmál og ég trúi alveg að hún sjái það þannig. En það er ekki svo einfalt að skera úr um að þetta sé bara í lagi.“
„Þetta er mjög einfalt Frosti. Félagasamtök fá ekki styrki sem stjórnmálaflokkar. Formgallinn er grundvallaratriði.“
Aðspurður um hver beri ábyrgðina á að greitt var segir Eyþór. „Minnsta kosti er sá sem tekur við peningunum ábyrgur, af því hann hefur ekki uppfyllt formskilyrðið. Sjálfsagt hafa verið gerð mistök bæði í úthlutun og eftirliti.“
„Það hefur verið bent á að þeir sem þiggja frá ríkinu hvort sem það eu atvinnuleysisbætur, örorkubætur eða ellilífeyrir, ef það kemur í ljós að það er eitthva skráð eða þú uppfyllir ekki öll skilyrði samkvæmt bókinni þá þarftu bara að greiða það til baka, það er alveg skýrt,“ segir Frosti.
Eyþór nefnir að ef aðili eins og Tryggingastofnun greiði einstaklingi of mikið þá sé litið á það sem saklaus mistök, en sá sem fékk greiðsluna beri að endurgreiða.
„Mér finnst Flokkur fólksins hafa farið illa af stað.“
Inga mætti í hlaðvarp Eyjunnar í síðustu viku. Þar sagði hún árásirnar á sig og sinn flokk grímulaust einelti, en hún væri hvergi bangin.
„Maður svo sem bjóst við ýmsu en ekki svona grímulausu einelti eins og ég er að verða vitni að þessa dagana. En, svona er þetta bara, þeir velja sér hvernig þeir kjósa að haga sér og sýna sitt innsta eðli og ég held nú að samfélagið, svona í heild sinni, sé farið að sjá í gegnum það, svo ekki sé meira sagt,“ segir Inga.
Inga segir hægt að taka fleiri flokka út fyrir sviga en Flokk fólksins en hún hafi enga löngun til að draga fram neitt um aðra, hvorki félaga hennar í ríkisstjórn né stjórnarandstöðuna, til að benda á agnúa sem gætu komið þeim illa.
Sjá einnig: Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði
Í dag var svo greint frá því að hörðustu gagnrýnendur á Ingu og Flokk fólksins vegna þessa máls, Sjálfstæðisflokkurinn, hefði sjálfur þegið 167 milljónir í styrk árið 2022, áður en skráningunni var breytt. Eins og fyrr var Eyþór
Eyþór og Frosti gagnrýna þó fleira í spjalli sínu, en þátturinn var birtur í dag.
Frosti segir að honum finnist einkennilegt þegar litið er til þess að flokksmenn Flokks fólksins hafi barist gegn bókun 35 og gegn borgarlínu, „að um leið og kjöri hefur verið náð og þú kominn í stólinn þá breytist það eins og hendi er veifað. Maður hefur sjaldan séð svo skýrt hvernig stjórnmálamenn geta breyst eftir kjör eins og í þessu tilfelli.“
„Þetta er mikill veikleiki fyrir ríkisstjórnina að faara svona af stað. Þing er ekki enn komið saman og þriðji flokkurinn er í raun og veru í rúst, bæði varðandi kosningaloforðin sín og fjármögnun sína. Við höfum séð tekið mjög hart á svona fjármögnungarmálum stjórnmálaflokka í öðrum löndum. Þannig að ég held að við séum ekki búin að tæma þennan bikar.“
Frosti rifjar upp að fyrsta verk Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra hafi verið „sá að fara til Brussel og fá það staðfest að aðaildarumsókn Íslands að ESB sé í gildi.“
„Það er eitthvað sem Flokkur fólksins hefur heldur betur lofað ljósendum sínum að verði ekki,“ segir Eyþór.
Eyþór segist spyrja hvað Ísland græði á inngöngu í Evrópusambandið.
„Við erum að sjá að Evrópa er í tilvistarkreppu og það er viðurkennt af foryustumönnum Evrópusmbandsins sjálfs. Hún er að dragast að óbreyttu enn meira inn í stríð, sem er ekki bara stjórnað af Rússum, heldur er Norður-Kórea komin inn, Íranir eru með sína dróna þarna inni. Það er möguleiki að hermenn frá Evrópusambandinu fari þarna inn ef ekki umsemst. Og Evrópa er í efnahagsstríði líka við nágranna sína. Evrópa er orðin þriðja heims land í tækni, það er að banna gervigreind. Bílaiðnaðurinn er ekki bara í tilvistarkreppu út af orkuverði og svoleiðis, heldur út af hugbúnaði. Hann er í Bandaríkjunum og Kína. Af hverju ætlum við að fara inn? Við sjáum nú bara Hvammsvirkjun, það virðist vera að innleiðing á Evróputilskipun hafi þvælst svo rækilega fyrir kerfinu að verkefni sem Landsvirkjun er búin að vera að undirbúa í aldarfjórðung er stefnt í hættu.“
Horfa má á viðtalið í heild sinni á brotkast.is.