fbpx
Þriðjudagur 10.september 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað á að gera við skakka heildarmynd?

Eyjan
Fimmtudaginn 15. ágúst 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar verðbólga hækkaði verulega í síðasta mánuði hafði Innherji á Vísi eftir hagfræðingum Arion banka að óvænt hækkun breytti ekki heildarmyndinni.

Fáeinir hrukku þó í kút af þessu tilefni. Í Danmörku hefði 0,5% hækkun verðbólgu verið líkt við jarðskjálfta. Í okkar umhverfi bera viðbrögð bankahagfræðinganna hins vegar vott um raunsæi og yfirvegun.

Það er einfaldlega rétt hjá þeim að verðbólguhækkun af þessari stærðargráðu breytir ekki heildarmyndinni. Það er heildarmyndin, sem er skökk. Munurinn á okkur og Dönum liggur þar.

Framtíðarsýn

Viðskipta-Mogginn skýrði þessa skekkju vel 24. júlí. Þar er minnt á að í byrjun þess mánaðar ákvað fjármálaráðherra að auka framboð ríkisskuldabréfa um 30 milljarða króna.

Auk þess er minnt á að útgáfa ríkisvíxla hafi verið aukin um 16 milljarða króna þar sem skattborgararnir greiða hátt í 10% árlega vexti.

Í ofanálag hefur ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf til tveggja ára rokið upp. Ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf til lengri tíma hefur einnig hækkað verulega að undanförnu. Markaðurinn virðist meta það svo að undir lok næsta kjörtímabils verði ávöxtunarkrafan um 7%.

Snjóboltaáhrif

Agnar Tómas Möller fjárfestir og stjórnarmaður í Íslandsbanka segir í fréttaskýringu Viðskipta-Moggans að hann minnist þess ekki að endurfjármögnunarþörf íslenska ríkisins hafi verið jafn mikil frá árunum eftir fjármálakreppu.

Hann segir enn fremur að markaðurinn sé að verðleggja hægara vaxtalækkunarferli og hærri vexti í framtíðinni en áður þar sem þróun raun- og nafnvaxta í framtíðinni hafi verið of bjartsýn.

Ef allt er tekið saman; útistandandi víxlar, lánsfjárjöfnuður, afborganir og vextir til 2026, gæti það verið yfir 700 milljarðar króna, sem ríkið þarf að fjármagna að mati Agnars Tómasar. Af því dregur hann þessa ályktun:

„Ríkið er að taka lán á mun hærri vöxtum en það hefur gert í langan tíma og ef vextir koma ekki mikið niður gæti það haft snjóboltaáhrif á afkomu og fjármögnun ríkissjóðs þar sem hækkandi vaxtabyrði gæti haft neikvæð áhrif á langtímavexti, og svo koll af kolli.“

Þessi þungu aðvörunarorð falla á sama tíma og þingmenn stjórnarflokkanna telji aðhald í ríkisfjármálum fullnægjandi.

Háir raunvextir óhjákvæmilegur fylgifiskur

Þá fjallar Agnar Tómas Möller um aðlögunarleið heimila og fyrirtækja:

„Við erum með tvo gjaldmiðla í landinu, verðtryggðu og óverðtryggðu krónuna, sem leiðir til þess að þegar aðhald peningastefnunefndarinnar er í hámarki færir hagkerfið sig úr óverðtryggðu krónunni í þá verðtryggðu, sem miðað við útlánsvexti í dag, þýðir um helmingi lægri greiðslubyrði hefðbundinna lána-

því eru háir raunvextir líklega óhjákvæmilegur fylgifiskur hinnar tvíkynja krónu á meðan efnahagslífið gengur bærilega.“

Hin hliðin á því sem sérfræðingurinn er að segja er þessi:

Ríkissjóður, íslensk heimili og íslensk fyrirtæki, önnur en útflutningsfyrirtækin, þurfa að laga sig að skekkju í heildarmyndinni. Dönsk heimili og dönsk fyrirtæki hafa hins vegar aldrei heyrt um hugtakið skekkjuaðlögun.

Skakka heildarmyndin

Þetta er kjarni málsins: Þó að við náum verðbólgumarkmiðinu verða raunvextir í fyrirsjáanlegri framtíð um 4%. Það er viðvarandi tvöfalt eða jafnvel þrefalt meiri raunvaxtabyrði en í grannlöndunum.

Þetta er viðmiðið, sem hagfræðingar Arion banka nota. Þar breytir 0,5% verðbólguhækkun eðlilega ekki heildarmyndinni og aðhald í ríkisfjármálum virðist fullnægjandi í augum meirihluta þingmanna.

Nauðvörn heimila og fyrirtækja er að aðlagast skekkjunni með verðtryggðum lánum. Það er deyfilyf.

Að óbreyttu felst aðlögun ríkissjóðs í vali á milli skertrar þjónustu heilbrigðiskerfisins, skólanna, löggæslunnar og vegakerfisins eða umtalsverðra skattahækkana.

Þrjár leiðir

Eigendur útflutningsfyrirtækja með yfir 40% þjóðarframleiðslunnar standa utan skökku heildarmyndarinnar og þurfa því ekki aðlögun. Þeir vilja ekki leiðrétta heildarmyndina af því að það eyðir forskoti þeirra á innlendum fjárfestingamarkaði.

· Þingmenn stjórnarflokkanna vilja af sömu ástæðu aðlögun með skertri almannaþjónustu.

· Samfylkingin vill aðlögun með hærri sköttum.

· Viðreisn vill hins vegar rétta heildarmyndina af með aðlögun að því vaxtaumhverfi sem Danir búa við.

Þingmenn þurfa ekki að hafa meiri áhyggjur en hagfræðingar Arion banka. Hausverkurinn er kjósenda. Þeir þurfa að velja milli þessara þriggja leiða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Hinn ærandi skarkali

Björn Jón skrifar: Hinn ærandi skarkali
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Afhjúpun á íhaldsins nekt

Sigmundur Ernir skrifar: Afhjúpun á íhaldsins nekt
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: 1150 ár

Björn Jón skrifar: 1150 ár
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það má jafnt virða söguna og læra af henni

Sigmundur Ernir skrifar: Það má jafnt virða söguna og læra af henni
EyjanFastir pennar
04.08.2024

Björn Jón skrifar: Af setningarhátíðum og guðlasti

Björn Jón skrifar: Af setningarhátíðum og guðlasti
EyjanFastir pennar
03.08.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið
EyjanFastir pennar
28.07.2024

Björn Jón skrifar: Trénað Alþingi

Björn Jón skrifar: Trénað Alþingi
EyjanFastir pennar
27.07.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Það er tímabært að meirihlutinn ráði

Sigmundur Ernir skrifar: Það er tímabært að meirihlutinn ráði