fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Eyjan
Fimmtudaginn 31. október 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmenn fráfarandi stjórnarflokka hafa allt þetta kjörtímabil skýrt fallandi fylgi í könnunum með því að það sé orðið lögmál í lýðræðisríkjum að allar ríkisstjórnir tapi fylgi óháð því hvernig þær standi sig.

Á sama tíma staðhæfðu þeir að samstaðan í ríkisstjórninni væri einstök og engin ríkisstjórn hefði sýnt meiri færni í málamiðlunum. Hins vegar réðist fylgistapið af þessu alþjóðlega lögmáli um sjálfkrafa óvinsældir ríkisstjórna.

Eina leiðin til að bæta stöðuna var því að slíta samstarfinu. Til þess þurfti málefnalegan ágreining. Þau vildu ekki lengur þykjast vera alvöru stjórn.

Var ágreiningurinn búinn til þegar í óefni var komið? Eða skrökvuðu þeir allan tímann um eindrægnina og árangurinn? Bara önnur skýringin getur verið rétt.

Spurningar

Kosningaúrslit og skoðanakannanir í flestum Evrópuríkjum styðja kenninguna um sjálfkrafa fylgisfall ríkisstjórna óháð árangri.

Stjórnmálafræðiprófessorar við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst hafa ítrekað staðfest í fjölmiðlum að þetta sé raunverulegt lögmál í nútíma stjórnmálum.

En hvernig verður svona pólitískt lögmál til? Hvernig slitnaði orsakasamhengið mill árangurs og fylgis? Fjölmiðlar hafa ekki gefið stjórnmálafræðingum mikinn tíma til að svara spurningum af þessu tagi.

Kannski eru þetta ekki nógu áhugaverðar spurningar fyrir nútíma fjölmiðla. En samt getur verið ástæða til að velta þeim fyrir sér.

Mögulegar skýringar

Ein skýringin gæti verið sú að alþjóðlega hafi myndast þekkingarleg gjá milli stjórnmálamanna og kjósenda.

Þá má velta þeirri spurningu upp hvort kjósendur geri stöðugt ríkari kröfur um að stjórnmálin uppfylli allar óskir borgaranna eftir því sem ríkisumsvifin hafa aukist í áranna rás. Og nú sé svo komið að stjórnmálamenn geti með engu móti orðið nógu góðir.

Svo má spyrja hvort stjórnmálamenn eigi hér einhverja sök sjálfir. Er hugsanlegt að orðræða þeirra hafi þynnst út. Hún miðist mest við að skapa góð hughrif og vekja væntingar um góða tíð.

Þannig hafi í orðræðunni verið slitið á tengslin milli háleitra stefnumála og þeirra raunverulegu efnahagslegu takmarkana sem ríkisstjórnir allra landa þurfa að horfast í augu við rétt eins og heimilin og fyrirtækin?

Hálfsannleikur

Það þarf ekki að vera að stjórnmálamenn segi beinlínis ósatt um stöðu efnahagsmála eða ríkisfjármála. Þegar á hólminn er komið er hætt við að trúnaðurinn bresti ef stjórnmálamenn hafa komið sér hjá því að segja allan sannleikann fyrir kosningar.

Breski Verkamannaflokkurinn vann í sumar sem leið einn mesta kosningasigur í sögu landsins. Boðskapur hans fólst í einu orði: Breytingar. Forystumennirnir sýndu fram á að þeir höfðu breytt flokknum með því að ýta róttækara fólki til hliðar.

Þegar sigurvegararnir settust við ríkisstjórnarborðið kom í ljós að nýir skattar á þá ríku skiluðu ekki því sem fyrirheitin um breytingar kröfðust. Kosningaumræðan hafði verið á yfirborðinu en ekki dýptinni. Og nú þverr traustið og fylgið gengur óðum til baka.

Að þykjast

Fráfarandi stjórnarflokkar hér heima eru ekki bara í þeirri klípu að segja hálfan sannleikann um stöðu ríkisfjármála og efnahagsmála. Samstarfið byggðist beinlínis á því að þingmenn VG og sjálfstæðismanna kæmu helstu stefnumálum hver annars fyrir kattarnef.

Orðræðan vísar í mikinn hagvöxt fyrir tveimur árum, en hinu er sleppt að á þessu ári er stöðnun eða samdráttur. Nafnvaxtalækkun er fagnað, en hinu er sleppt að raunvextir hækka á sama tíma.

Við þingrofið sagði fráfarandi forsætisráðherra að hann vildi ekki þykjast stýra samhentri ríkisstjórn næstu sjö mánuði. En kannski hafði fylgið einmitt hrunið vegna þess að hann og forveri hans höfðu verið að þykjast í sjö ár um samheldni og árangur.

Víti til að varast

Kannski ættu stjórnmálaflokkar fyrst og fremst að vara sig á almannatengslaráðgjöfum sem bara hugsa fram að kosningum en ekki fram yfir þær.

Þjóðin vill ríkisstjórn nýrra vona og nýs upphafs. Til að forðast endurtekningu ættu frambjóðendur allra flokka að huga að því í tíma að lenda ekki í sömu sjálfheldu og breski Verkamannaflokkurinn vegna yfirborðskenndrar umræðu.

Eitt er víst að ábyrgðin bíður einhverra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
06.10.2024

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna
EyjanFastir pennar
05.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískustu ummæli aldarinnar á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískustu ummæli aldarinnar á Íslandi
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
28.09.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Klofningurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála

Sigmundur Ernir skrifar: Klofningurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála
EyjanFastir pennar
28.09.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: 23. september 1241

Óttar Guðmundsson skrifar: 23. september 1241