fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Byggðabót sem bragur er að

Eyjan
Laugardaginn 18. maí 2024 14:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í öllu því ógurlega argaþrasi sem fylgir því fyrir þjóðina að velja sér nýjan forseta og hafna þeim hinum sem þykja heldur lakari frambjóðendur – og hafa um það allt saman einhver þau gölnustu gífuryrði sem hægt er að missa af vörum sínum – er ekki úr vegi að njóta vorsins og huga um stund að allt annarri og yndislegri iðju.

Því árstíminn sem nú um stundir sveiflar klukkukólfinum auðgar ekki einasta líf um allar jarðir, heldur færist líka fjör í fjölda hafna, hringinn í kringum landið, þökk sé ákvörðun ábyrgra og viturra manna á sinni tíð sem heimiluðu strandveiðar – og leystu þannig einkaframtakið úr læðingi í harla fastmótuðu fiskveiðistjórnarkerfi, sem gerði hvorki ráð fyrir nýliðun né möguleikum litla mannsins í því erfðabákni sem þar hefur auðgað útvalda.

Við þetta urðu víða alger umskipti.

Það lifnaði yfir landi og lýð.

„… eftirtekjan er jafnt afturbati og endurnýjun strandmenningar mjög víða í veikari byggðum landsins.“

Og eftirtekjan er jafnt afturbati og endurnýjun strandmenningar mjög víða í veikari byggðum landsins, svo sem í litlum samfélögum á borð við Stöðvarfjörð þar sem íbúar grétu á bryggjunni þegar síðasti togarinn fór úr plássinu undir aldamótin og frystihúsinu var lokað litlu seinna. Við það áfall misstu á fimmta tug vinnu sína, sem var mikil blóðtaka fyrir 250 manna þorp, enda fækkaði þar fólki niður fyrir 200 á örfáum árum.

Strandveiðar eru vorboði um allt landi. Kajinn lifnar hvarvetna við. Frá öðrum maí fram til fyrsta september, ár hvert, hreyfa veiðar um það bil 750 smábáta við hjólum atvinnulífsins í sjávarbyggðum Íslands, svo um munar á mörgum póstum.

En slík eru margfeldisáhrifin að þjónusta af hvaða tagi sem er tekur kipp, sem ella hefði aldrei náð að dafna. Á Stöðvarfirði lifnar nefnilega ekki einasta yfir bryggjusvæðinu, heldur skipta sjómennirnir á bátunum við fjölmörg fyrirtæki í landi fyrir utan það augljósa, Fiskmarkað Austurlands.

Sama sagan gerist alls staðar um land. Jafnvel á allra fámennustu stöðum eins og Norðurfirði á Ströndum, þar sem fáeinir tugir manna búa yfir vetrarmánuðina, fjölgar ört og áberandi á vorin. Og það sem er hvað umhugsunarverðast er að karlarnir á kænum sínum gera það að verkum að vertshús eru opnuð hið snarasta, sem aftur draga svo ferðamennina að, og þar af leiðandi þarf þá á enn fleiri vinnandi höndum að halda. Hér hjálpast allt að.

Strandveiðarnar gefa vel, á að giska fimmtán milljónir á vertíð, en þá eru útgjöldin ónefnd. Leyfilegt er að veiða 776 kíló í hverjum túr, tólf daga í mánuði, og selst úrvalsfiskurinn úr hverjum báti, einkum þorskur og ufsi, við góðu verði, eða 450 krónur kílóið.

Þetta er góður bissness. Byggðabót sem bragur er að. Kvótakerfið er mestan part þarft, en verulegir vankantar þess, þar á meðal eignaupptaka og útsala á auðæfum, skulda sjávarbyggðunum þann ávinning og það frelsi sem fæst með strandveiðunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar