Móðir nemanda í Öldutúnsskóla hefur vakið athygli DV á afar bágbornu viðhaldi við skólann og sent myndir þessu ástandi til sönnunar. Dóttir konunnar slasaðist í skólanum í dag.
„Ég bara skil ekki hvernig fólk, kennarar og stjórnendur umbera það að börnunum sé boðið upp á þetta. Slysagildur og lítilsvirðing gagnvart umhverfi þeirra. Ég er búin að skrifa bænum, tala við skólastjóra en í dag slasaði dóttir mín sig enn einu sinni á skólalóðinni og því langar mig að athuga hvað er í gangi með umhverfi skólans,“ segir konan.
Konan sendi sveitarfélaginu eftirfarandi erindi vegna þessa ástands þann 5. apríl síðastliðinn:
„Ábending nr. 926: Niðurnítt umhverfi Öldutúnsskóla – slysagildrur Viðhald og umhirða á lóð og húsnæði Öldutúnskóla hefur verið ábótavant. Slysagildra er við inngang á Selinu þar sem nokkur atvik hafa átt sér stað, grindverk eru rifinn, moldarhaugar í stað grasbletta og trjágróður illa farinn. Aðalatriðið er þó þessi slysagildra sem ég kom auga á í fyrrahaust og hefur ekki verið sinnt. Ég undra mig á því að það líðist að hafa umhverfi barna svona. Sendi hér með mynd af grjóthrúgu í tröppum við skólann og óska eftir því að bærinn fari í umhirðu á lóð og umhverfi skólans þannig að börnin séu örugg í sínu umhverfi. Kveðja“
Samkvæmt upplýsingum frá þessari konu barst fyrst kvörtun yfir ástandinu í Öldutúnsskóla frá foreldri árið 2018 en viðkomandi foreldri var meðlimur skólaráðs.