fbpx
Þriðjudagur 20.október 2020
Eyjan

Helga rýfur þögnina – „Þetta hafa verið harkalegar árásir sem hefur verið erfitt að upplifa“

Jón Þór Stefánsson
Föstudaginn 14. ágúst 2020 19:35

Samsett mynd - Vigdís Hauksdóttir og Helga Björg

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Stöðu minnar vegna taldi ég áður óhugsandi að bregðast opinberlega við ummælum kjörins fulltrúa. En niðurstaða mín nú er að ég get ekki setið þögul undir þessum árásum því þetta snýst, því miður, ekki bara um mig. Ef svona pólitík fær að virka óáreitt og kerfið á engin svör við henni, þá óttast ég að þetta geti verið byrjunin á því sem koma skal.“

Svona er niðurlag færslu Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu Reykjavíkurborgar, sem birtist á Facebook í kvöld. Þar ræðir hún um ásakanir Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins í sinn garð. þær komu í kjölfar þess að Helga kvartaði yfir meintum eineltitilburðum Vigdísar. Vigdís hefur tjáð sig mikið um málið opinberlega. Það hefur Helga hins vegar ekki gert og er umrædd Facebook-færsla hennar eitt fyrst dæmið sem almenningur sér um hennar hlið málsins.

Helga segir að undanfarin tvö ár hafi verið skrýtin hjá henni, vegna þess að hún hafi þurft að sitja undir ítrekuðum ásökunum og árásum. Hún segir Vigdísi hafa komið sér undan því að vinna í málinu. Þó hafi Vigdís heimtað að Helga myndi ekki sitja sömu fundi og hún, auk þess sem hún snúi baki í Helgu.

„Þetta hafa verið harkalegar árásir sem hefur verið erfitt að upplifa, ekki síst þar sem engar leiðir eru til úrbóta. Ég lét mig því hafa þetta og sat lengst af þegjandi undir þessum árásum og framkomu.“

Hún segist undanfarið velt þessu fyrir sér og komist að þeirri niðurstöðu að ekki þýði að sitja á þessum ásökunum og hegðun Vigdísar. Áður segist Helga ekki hafa svarað meintum lygum og rangfærslum Vigdísar, en nú hafi þær náð fram „sannleiksáru“. Því verði Helga að svara fyrir sig. 

Færslu Helgu má í heild sinni lesa hér að neðan:

„Sumarfrí er magnað fyrirbæri. Við það að stíga út úr amstri dagsins bæði heima fyrir og í vinnu næst ákveðin fjarlægð á hversdaginn og það hvernig við högum hlutunum. Í ár var það þannig hjá mér að fjarlægð sumarfrísins gaf mér tækifæri til að sjá starfsumhverfi mitt í nýju ljósi. Undanfarin rúm tvö ár hafa vægast sagt verið óvanaleg þar sem borgarfulltrúi Miðflokksins hefur ítrekað og nánast stöðugt ráðist að mér með ásökunum sem hafa gróflega vegið að æru minni og starfsheiðri.

Ég hef brugðist við með því að setja fram formlegar kvartanir en ekki haft erindi sem erfiði þar sem borgarfulltrúinn hefur komið sér undan þátttöku í rannsóknum á framkomu sinni og því ekki fengist niðurstaða í málin. Þessar árásir borgarfulltrúans og úrræðaleysi kerfisins við að takast á við þær voru vonbrigði og tóku á en í því fólst ákveðin niðurstaða sem ég þurfti að sætta mig við. Mér fannst það vont en það vandist, merkilegt nokk.

Í upphafi þessa árs urðu þáttaskil þegar borgarfulltrúinn tók upp á því að krefjast þess að ég sækti ekki fundi sem hún sæti. Í fyrstu á þeim forsendum að þar sem ég hafði sett fram eineltiskvörtun í hennar garð bæri mér að forðast hana, svo á þeim forsendum að ég hafi brotið á henni „sem kjörnum fulltrúa með lygum, óheiðarleika og upplognum sökum“ og er hún þar væntanlega að vísa til kvartana minna um einelti og brot á siðareglum.

Hún hefur mótmælt veru minni á fundum, þar sem ég hef verið viðstödd, svo hávært og kröftuglega að mér hefur ekki staðið á sama. Eftir að ég fór að koma inn á fundi með fjarfundarbúnaði vegna COVID-19 hafa mótmælin falist í munnlegum athugasemdum og bókunum, auk þess sem borgarfulltrúinn snýr í mig baki, eins og hún hefur ítrekað fjallað um sjálf opinberlega.

Þetta hafa verið harkalegar árásir sem hefur verið erfitt að upplifa, ekki síst þar sem engar leiðir eru til úrbóta. Ég lét mig því hafa þetta og sat lengst af þegjandi undir þessum árásum og framkomu.

En sumarfríið veitti mér semsagt gott tækifæri til að velta fyrir mér annars vegar þessu starfsumhverfi og áhrifum þess á mig, mína nánustu, samstarfsfólk mitt, verkefni mín og hins vegar þeirri nálgun sem ég hef beitt til að takast á við þetta.

Niðurstaðan er að sú að mín leið er ekki að virka. Ekki fyrir neinn. Ég hef lagt upp úr því að fara að leikreglum, svara ekki lygum og rangfærslum borgarfulltrúans opinberlega á meðan borgarfulltrúinn vílar ekki fyrir sér að fara fram gegn mér með ósannindi og hreinar lygar. Síðast í bókunum í fundargerð borgarráðs í gær. Ég hef talið mér trú um að það sjái allir í gegnum lygarnar og að fólk trúi því ekki sem hún setur fram en elja hennar og seigla í að viðhalda rangfærslunum hafa orðið til þess það eru farnar að renna á mig tvær grímur um það.

Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur nefnilega náð ágætis tökum á þeirri aðferðafræði að setja fram staðlausar fullyrðingar og endurtaka þær nógu oft til að ljá þeim sannleiksáru. Þessi aðferðafræði minnir mjög á aðferðir kollega hennar úti í heimi þar sem öllum brögðum er beitt í þeim pólitíska tilgangi að skapa vantraust og grafa undan stjórnkerfum. Það er mikilvægt að horfa á nálgun stjórnmálafólks sem beitir þessari aðferðafræði í gagnrýnu ljósi hér á landi sem annars staðar.

Í umfjöllun hennar um mig eru mörg dæmi um ofangreint. Þannig hefur hún ítrekað haldið því fram að hún eigi inni hjá mér afsökunarbeiðni, að mér virðist vegna þess að ég hafi í bréfi til hennar vænt hana um trúnaðarbrot og hafa verið fluttar af því fjölmargar fréttir. Hið rétta er að ég hef aldrei skrifað borgarfulltrúanum bréf. Þá hefur hún ítrekað haldið því fram að ég hafi fengið dóm fyrir einelti eða óviðeigandi framkomu í garð starfsmanns. Það er alrangt. Hún hefur haldið því fram að ég hafi ráðist að sér í fjölmiðlum. Hið rétta er að það var fyrst í sumar sem ég tjáði mig á Facebook um þetta ástand. Aftur á móti hafði borgarfulltrúinn birt opinberlega á annað hundrað færslur, bókanir, tillögur og erindi, þar á meðal trúnaðarmerkt erindi með eineltiskvörtun minni til Reykjavíkurborgar, á Facebook-síðu sinni og brotið þannig á friðhelgi einkalífs míns. Ég ítreka; á annað hundrað.

Nú virðist borgarfulltrúinn ætla að beita sömu aðferð í umfjöllum um álit siðaráðs Dómarafélags Íslands, en hún hefur haldið því fram að niðurstaða siðaráðsins hafi verið mér í óhag. Það er rangt. Siðaráðið taldi erindi mitt gefa tilefni til að brýna fyrir dómurum að gæta virðingar og hófsemi gagnvart öllum einstaklingum sem að dómsmálum koma með einum eða öðrum hætti. Það er óskiljanlegt að kjörinn fulltrúi nýti sér fundi í ráðum borgarinnar til að setja fram slíkar staðleysur. Það sem meira er, það er skaðlegt.

Það er skaðlegt að kjörnir fulltrúar þurfi ítrekað að verjast árásum borgarfulltrúans á mig og annað starfsfólk borgarinnar í stað þess að geta einbeitt sér að því að vinna að góðum málum í þágu borgarbúa, eins og þau eru kjörin til. Það er líka skaðlegt fyrir mig, fjölskyldu mína og mína heilsu. Og það er svo sannarlega skaðlegt fyrir samstarfsfólk mitt og starfsumhverfi þess og fyrir mikilvæg verkefni sem unnin eru á vettvangi borgarinnar.

Stöðu minnar vegna taldi ég áður óhugsandi að bregðast opinberlega við ummælum kjörins fulltrúa. En niðurstaða mín nú er að ég get ekki setið þögul undir þessum árásum því þetta snýst, því miður, ekki bara um mig. Ef svona pólitík fær að virka óáreitt og kerfið á engin svör við henni, þá óttast ég að þetta geti verið byrjunin á því sem koma skal.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þórdís Kolbrún vill leggja niður stofnun ársins – „Kaldhæðnislegt“ segir starfsmaður

Þórdís Kolbrún vill leggja niður stofnun ársins – „Kaldhæðnislegt“ segir starfsmaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Aukinn stuðningur við sjálfstæði Skotlands

Aukinn stuðningur við sjálfstæði Skotlands
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hörður gagnrýnir fjármálastjórn borgarstjórnarmeirihlutans – „Heimatilbúinn vandi“

Hörður gagnrýnir fjármálastjórn borgarstjórnarmeirihlutans – „Heimatilbúinn vandi“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Borgin greiddi 1,2 milljónir fyrir áfengi og mat á Vinnustofu Kjarvals – „Bruðlað með opinbert fé“

Borgin greiddi 1,2 milljónir fyrir áfengi og mat á Vinnustofu Kjarvals – „Bruðlað með opinbert fé“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Opið sjókvíaeldi er ein mesta ógn sem steðjar að umhverfinu“

„Opið sjókvíaeldi er ein mesta ógn sem steðjar að umhverfinu“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Óli kemur Brynjari til varnar – „Fær það óþvegið á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og tölvupóstum“

Óli kemur Brynjari til varnar – „Fær það óþvegið á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og tölvupóstum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur kynnir ybbana til leiks – „Álíta sig yfirburðafólk með yfirburði yfir „fávísan og fordómafullan almúgann“

Sigmundur kynnir ybbana til leiks – „Álíta sig yfirburðafólk með yfirburði yfir „fávísan og fordómafullan almúgann“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rússneskir grínistar höfðu danska þingmenn að fíflum

Rússneskir grínistar höfðu danska þingmenn að fíflum