Sunnudagur 29.mars 2020
Eyjan

Þyrnum stráð saga almenningsklósetta í Reykjavík

Egill Helgason
Mánudaginn 30. desember 2019 20:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mál málanna í dag eru hin turnlaga almenningsklósett í Reykjavík sem brátt munu heyra sögunni til – að sögn vegna þess að ekki nást samningar um áframhaldandi rekstur þeirra. Mun þá þurfa að hafa útboð um þessa starfsemi og tekur væntanlega nokkurn tíma að koma þeim upp. Á meðan gæti margur vegfarandinn lent í spreng í bænum – ekki síst ferðamenn – og óttast menn nú að þeir gangi örna sinna í húsaportum eða jafnvel í görðum heiðvirðra Reykvíkinga. Annað eins hafa nú ferðamennirnir gert hér á landi.

Klósettin í turnlíki hafa sett svip sinn á bæinn undanfarna áratugi. Þau geta seint talist fögur sem mannvirki, en lagið á þeim er athyglisvert, það er í þau eru í þeirri mynd sem kallast kiosk – heitið mun komið úr persnesku. Ég verð að viðurkenna að ég hef hikað við að nota þessa salernisturna, þeir eru sagðir sjálfvirkir og þannig hef ég óttast að lokast þar inni og komast ekki út aftur. Einhvern tíma rak ég reyndar nefið inn í turninn á Vegamótastíg og fannst lyktin þeygi góð.

Byggingastíllinn er líka dálítið geimaldarlegur. Mér hefur dottið í hug að maður kynni að skjótast í loft upp ef maður færi þarna inn ellegar að þetta sé eins og í njósnakvikmynd, maður ýti á takka og þá opnis aðgangur að leynilegum neðanjarðarmannvirkjum. En svo er líklega ekki.

Saga almenningsklósetta í Reykjavík er þyrnum stráð. Undir Bankastrætinu voru byggð glæsileg salerni í kringum 1930, tekin í notkun um þær mundir að alþingishátíðin gekk í garð, en þau voru aflögð snemma á þessari öld – þar fer nú fram listastarfsemi sem hjálpar auðvitað engum sem þarf nauðsynlega að komast á klósett.

Í Hljómskálagarðinum var líka dálítið hús var sem voru klósett, en það hefur verið fjarlægt – gæti verið dálítil freisting að laumast þar inn í gróðurinn.

Alþjóðlega heitið yfir ákveðna tegund af almenningssalernum er pissoir. Þau voru sett upp víða í Frakklandi á 19. öld og breiddust svo út um álfuna. Þótti framfaraskref. Þau voru reyndar líka kölluð vespasiennes, eftir rómverska keisaranum Vespasian. Á því er skýring sem ekki verður rakin hér, en almenningssalerni þekktust í Rómarveldi. Þessir staðir voru einungis fyrir karla, sum þeirra fengu á sig orð fyrir að vera samkomustaðir fyrir samkynhneigða karlmenn sem þótti ekki gott á þeim árum.

Þsem nú er ruslageymsla Ölstofu Kormáks & Skjaldar, rétt aftan við hinn illa þefjandi salernisturn sem áður er nefndur, var pissoir. Þetta var ekki annað en lítill þríhyrndur steinklefi með þartilgerðri þró, lyktin var ekki góð, en ég man að nokkuð oft var farið með mig þangað þegar ég var barn og komst í spreng. Um þennan stað orti Megas og blandar saman við kömrum sem var að finna við höfnina.

í skoti utaní grjótinu
anganþrungnu þríhyrndu
hvar þrifnaðar stundar biggi óstórar vandanir
& í pakkhúsi við höfnina
hlandgræna dröfnina
þar eru helvítis göfugir kamrar – hurða andvanir
kór: en þar gái ég mér á lókinn með göfgina í sálinni
gulir eru straumar þínir hland mitt í skálinni

& aldrei tappa þar háklerkar
af – nei þetta eru lágkamrar
allskyns lausapakks & ræfla hland ‘vanir
en sértu nú alveg í spreng
& hún keyri þig í keng
klerkur minn ! dökk eða ljós þar fæst ekki leyfi fyrir slíkar landanir
kór: en þar gái ég mér á lókinn með göfgina í sálinni
gulir eru straumar þínir hland mitt í skálinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Íbúðaskortur í kortunum innan fimm ára – Mikill samdráttur í byggingu íbúða milli ára – „Afgerandi skilaboð um stöðuna“

Íbúðaskortur í kortunum innan fimm ára – Mikill samdráttur í byggingu íbúða milli ára – „Afgerandi skilaboð um stöðuna“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta eru aðgerðir Reykjavíkurborgar í efnahagsmálum vegna Covid -19

Þetta eru aðgerðir Reykjavíkurborgar í efnahagsmálum vegna Covid -19
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Setur milljarð í Innviðauppbygging heilbrigðiskerfisins á þessu ári vegna Covid-19

Setur milljarð í Innviðauppbygging heilbrigðiskerfisins á þessu ári vegna Covid-19