„Þessi saga getur vonandi veitt einhverjum innblástur sem kannski á þarf að halda. Það er einhver von að þetta skilji eitthvað jákvætt eftir sig líka. En á sama tíma er ekki auðvelt að opinbera sig svona svakalega,“
segir Hannes Þór Halldórsson, fyrrum knattspyrnumarkvörður og kvikmyndagerðarmaður um nýútkomna bók Hannes – Handritið mitt sem fjallar um feril hans frá Shell-mótinu árið 1994 þar sem hann var valinn besti markvörðurinn fram til haustsins 2021 þegar hann sagði skilið við markvörsluna.
Hannes Þór ræðir bókina og fleira við Gunnar Hansson og Helgu Arnardóttur í Mannlega þættinum á Rás 1. Hannes Þór segir að þrátt fyrir að hann hafi verið hikandi að opna sig svona upp á gátt í ævisögu hafi honum þó fundist freistandi að tekið yrði utan um ferilinn í flottum grip sem væri til í hillu og börnin hans gætu flett í seinna meir.
„Mér fannst þetta bara skemmtilegt. Það er einhver sérstaða í markinu og eitthvað öðruvísi við það. Svo var ég dellukall þegar ég var yngri. Markmannsbúningarnir og hanskarnir, mér fannst þetta allt mjög spennandi,“ segir Hannes Þór sem ákvað tíu ára að verða markmaður.
Skíðaslys, þegar hann var 14 ára, þar sem öxlin fór úr lið og meiðsli þjökuðu hann næstu fimm árin, varð þó til þess að boltinn var settur á hilluna. Hannes Þór fór fjórum sinnum úr axlarlið áður en hann fór í aðgerð.„Ég var í rauninni bara búinn að gefast upp á fótbolta á þeim tíma. Ég var alveg búinn að setja það til hliðar. Einstaka sinnum þá hugsaði maður um það. En þetta var ekki neinn fókus því ég var bara alltaf að detta úr axlarlið.“
Á sama tíma kviknaði áhuginn á því að verða kvikmyndagerðarmaður og í Verzlunarskóla Íslands tók Hannes Þór mjög virkan þátt í öllu sem við kom skemmtiþáttagerð, stjórnaði útsendingu söngvakeppna og öðru. Eftir Verzló gaf Einar Bárðarson honum fyrsta tækifærið, að gera tónlistarmyndband fyrir Nylon. Þá byrjaði boltinn að rúlla aftur, en á öðrum vettvangi.
„Hann var svo ánægður með það að við gerðum annað. Síðan fyrir Skítamóral og svo fór boltinn aðeins að rúlla. Þá hringdi FM957 og bað mig að gera auglýsingar. Þá gat ég eiginlega hætt því sem ég var að gera, sem var reyndar að vinna hjá SagaFilm að snattast og búa til kaffi. Ég stofnaði mitt eigið og var bara með lítið framleiðslubatterí.“
Þar kom að því að knattspyrnan og kvikmyndagerðin skaraðist saman. Hannes Þór var þá kominn í KR og í landsliðið. Hann segir stanslausa árekstra hafa orðið og mikla togstreitu skapast á milli vinnuveitenda, þjálfara og eiginkonu sinnar. „Maður var að skila 80 prósentum á öllum vígstöðvum.“
Á Heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu sem haldið var í Rússlandi árið 2018 var fyrsti leikurinn á móti Argentínu þar sem Hannes Þór varði vítaspyrnu frá Lionel Messi og var valinn maður leiksins. Færri vissu kannski að um leið náði Hannes Þór markmiði sem hann hafði sett sér sex árum fyrr, að spila 50 landsliðsleiki.
„Svo viti menn. Sex árum seinna þá rennur upp leikur 50 og það var Ísland-Argentína. Margra ára markmið sem rættist þar og einhvern veginn runnu stjörnurnar saman. Þetta var eitthvað sem enginn vissi af en mér fannst þetta stórmerkilegt í mínum litla heimi. Þarna náði ég markmiðinu mínu, þetta er fyrsti leikur Íslands á heimsmeistaramóti og við drögumst á móti Argentínu og svo gerist það sem gerist í þessu víti. Þetta er eins og að vinna í Víkingalottói.“
Knattspyrnan og kvikmyndagerðin sköruðust aftur saman árið 2020 þegar Hannes Þór var að spila með Val og landsliðinu og við vorum að keppast um að komast á Evrópumótið og hann var einnig að taka upp sína fyrstu kvikmynd, Leynilögga.
„Það var annar mjög strembinn tími. En ég ákvað samt að þetta væri eina tækifærið til að gera þetta og ná þessu saman. Ég sé ekki eftir því, þetta lukkaðist allt og við urðum Íslandsmeistarar þetta ár með Val og myndin kom út og var vinsæl,“ segir Hannes Þór sem hætti í landsliðinu eftir tíu ára feril og frumsýndi sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd í sama mánuði.
Hannes Þór hefur fórnað mörgu fyrir boltann og segist meðal annars ekki hafa séð son sinn sem fæddist 2016 í fimm mánuði. Eiginkonan og börnin hafi fylgt honum í atvinnumennskunni nokkurra landa á milli, en þarna var Hannes Þór fjóra mánuði í burtu til að koma sér í form og spila fyrir EM. „Ég sá ekki barnið mitt fyrr en það var orðið sex mánaða gamalt. Ég fór þegar hann var eins mánaða og kom aftur þegar hann var sex mánaða. Hún var búin að vera í brasi allan þennan tíma á meðan ég var fljúgandi í draumkenndum veruleika.“
Auk bókarinnar þá er önnur þáttaröð IceGuys nýbúin á Sjónvarpi Símans og þáttaröðin Bannað að hlæja er í sýningu á Stöð 2. „Við erum með fullt af járnum í eldinum og margt í gangi,“ segir Hannes Þór sem slær ekki slöku við, þó fótboltinn sé kominn á hilluna.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.