
Maður hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás þann 29. apríl árið 2021, með því að hafa ekið bíl í tvígang aftan á annan bíl þar sem í voru ökumaður og einn farþegi.
Í ákæru héraðssaksóknara í málinu segir að bíllinn hafi tjónast í ákeyrslunni og ökumaður hlotið eymsli og tognun í hálsi, eymsli í hnakkafestingum og tognun í lendahrygg. Svo virðist sem farþeginn hafi sloppið við meiðsli en í ákæru segir að hinn ákærði hafi stofnað lífi og heilsu beggja í augljósan háska.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd ökumannsins sem varð fyrir árásinni er gerð krafa um miskabætur upp á tvær milljónir króna.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 10. september næstkomandi.