Það eru einhverjir sem muna eftir framherjanum Cherno Samba sem var einn allra efnilegasti leikmaður Englands á sínum tíma.
Samba vakti fyrst athygli með akademíu St. Joseph’s í London þar sem hann skoraði 132 mörk í aðeins 32 leikjum 13 ára gamall. Hann var í kjölfarið fenginn til Millwall.
Mörg stórlið reyndu að næla í leikmanninn frá Millwall en Samba spilaði leiki fyrir U16, U17, U18, U19 og U20 ára landslið Englands.
Liverpool reyndi svo að kaupa Samba frá Millwall en félagið ákvað að hafna boði upp á tvær milljónir punda.
Eftir það lá leiðin niður á við fyrir Samba sem missti alla trú á sjálfum sér og fótboltanum. Hann lagði skóna á hilluna aðeins 29 ára gamall.
,,Draumurinn minn varð að engu. Ég féll í gólfið og fór að hágráta,“ sagði Samba í ævisögu sinni.
,,Ég var miður mín og fjarlægði mig frá öllum. Ég held að það hafi haft áhrif á fótboltann því ég byrjaði að missa trú á eigin hæfileikum.“
,,Ég sagði svo við sjálfan mig að ég ætti bara að hugsa um að þéna peninga og einbeita mér að því að sjá um mig og mína fjölskyldu.“
,,Ég vissi að það væri röng hugsun en ég var ungur og var í hefndarhug. Ég hugsaði ennþá um að ég ætti að vera að spila fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.“
Samba spilaði með nokkrum liðum á ferlinum en hann var fenginn til spænska félagsins Cadiz frá Millwall árið 2004. Þar spilaði hann enga leiki.
Hann spilaði örfáa meistaraflokksleiki á skrautlegum ferli fyrir lið eins og Plymouth á Englandi, Haka í Finnlandi, Panetolikos í Grikklandi og FC Tonsberg í Noregi.
Samba ákvað að kalla þetta gott árið 2012, aðeins 29 ára gamall. Hann spilaði fjóra landsleiki fyrir Gambíu frá 2008 til 2010.