fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Stúlkan sem varð höfuð ítölsku mafíunnar – Maria bjó yfir stálvilja og miskunnarleysi

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Fimmtudaginn 16. júní 2022 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 7. ágúst í fyrra handtók ítalska lögreglan sjötuga konu. Handtakan fór fram á flugvelli þar sem konan var á leiðinni frá Ítalíu til Spánar að heimsækja dóttur sína og barnabörn. Flestum viðstöddum fannst ef til vill sérkennilegt að tugi þungvopnaðra sérsveitakappa þyrfti til að handtaka eina pínulitla roskna konu.

Sú handtekna var aftur á móti einn eftirlýstasti glæpamaður Ítalíu til áratuga, Maria Licciardi. Einnig kölluð ,,La Madrina” eða Guðmóðirin. Maria Licciardi er ein af örfáum konum sem hafa náð að komast til æðstu metorða í ítölsku mafíunni.

Valdabarátta

Maria er fædd og uppalin í Napólí og var fjölskylda hennar þekkt og valdamikil sem hluti af Camorra mafíufjölskyldunni. Faðir hennar var ,,guappo” eða eins konar svæðisstjóri mafíunnar og bróðir hennar, Gennaro, fylgdi í fótspor föður síns. Gennaro gekk þó lengra og náði að sameina nokkra arma Camorra fjölskyldunnar undir nafninu Secondiliano bandalagið.

Bandalagið varð gríðarlega valdamikið og hafði til að mynda algjörlega stjórn á allri eiturlyfjasölu í Napólí. Yfirvöld ákváðu að ganga til bóls og höfuðs gegn samtökunum árið 1994 og handtóku meðal annars Gennaro sem skömmu síðar lést af blóðeitrun í fangelsi. Aðrir tveir bræður Mariu, Pietro og Vincenzo, voru einnig handteknir svo og eiginmaður hennar, Antonio Teghemié. Fjöldi manna voru myrtir í valdabaráttu um leiðtogasætið eftir að lögregla hafði fjarlægt forystuna eins og hún lagði sig. En hinni smávöxnu Mariu tókst að lægja öldurnar enda diplómatísk með afbrigðum.

Henni tókst að sameina tuttugu Camorra bandalög, sem verður að teljast einstakt þar sem samskiptin höfðu áður einkennst af blóðugri samkeppni. Maria og Antonio áttu eina dóttur en eftir morðið á eiginmanni hennar gekk Maria aldrei aftur í hjónaband né eignaðist hún fleiri börn.

Ólíkt flestum mafíuforingjum lét Maria lítið á sér bera. Nafn hennar kom aldrei inn á borð yfirvalda. Tágrönn og lágvaxin bjó hún yfir stálvilja og miskunnarleysi sem var engu minna, og jafnvel meira, en hjá karlkyns forystusauðum ítölsku mafíunnar. Hún var sjarmerandi, brosmild og afar vel gefin. Maria gleymdi aldrei neinu.

Albönsku stúlkurnar

Maria gekk skipulega til verks við að stækka veldi sitt. Gamlar hefðir innan mafíunnar kvöddu á um að ekki mætti græða fé á vændi en Maria hafði engan áhuga á að fylgja slíku kennisetningum. Hóf hún kaup á stúlkum af albönsku mafíunni og greiddi 2000 dollara fyrir hverja þeirra. Voru margar þeirra vart meira en 13-14 ára gamlar. Við komuna til Ítalíu voru þær læstar inni,misþyrmt líkamlega, andlega og kynferðislega og þær látnar stunda vændi. Oftar en ekki voru þær gerðar háðar eiturlyfjum sem bæði gerði auðveldara að hafa stjórn á þeim auk þess sem sá litli peningur sem fór í vasa stúlknanna rann þá beint aftur til mafíunnar í formi greiðslu fyrir eiturlyf.

Maria er fyrirmynd glæpadrottinginarinnar Scianel í þáttunum Gomorrah

Þrátt fyrir þessi grimmdarverk var Maria vinsæl á meðal almennings og gætti hún þess vandlega að engan skugga bæri á ímynd sína. Mikil fátækt, bág félagsleg aðstoð og gríðarmikið atvinnuleysi gerðu það að verkum að oft var eina starfið í fátækrahverfum Napólí að hafa í þjónustu Mariu. Hún tók öllum vel sem til hennar leituðu, greiddi góð laun og gaf af sér til samfélagsmála, ekki síst til barna. Blaðakona sem kynntist Mariu vel sagði hafa hafa stjórnað ofbeldisveldi sínu eins og hverju öðru fyrirtæki, aldrei tekið ákvarðanir fyrr en hún var búin að vega og meta kosti og galla og ávallt valið þá leið sem líklegust væri að fara framhjá yfirvöldum.

Heróínið

Allt gekk vel í nokkur ár og veldi Mariu stækkaði stöðugt. Allt þar til vorið 1999 þegar að stórar sending af hreinu heróíni fóru að berast frá Tyrklandi. Maria skipaði að ekki mætti selja efni því það væri of sterkt og myndi drepa þá sem notuðu. Ekki að Maria hefði áhyggjur af velferð fíkniefnaneytendanna, hún hafði aftur á móti áhyggjur af því að lítið fé væri af hafa af dauðum viðskiptavinum. Salan á efninu væri slæmur bisness. En freistingin við að ná skjótfengnum gróða var meiri en sumir glæpamannanna gátu staðist og svo fór að heróínið fór í sölu, þvert á vilja Mariu. Hún hafði haft rétt fyrir sér og rauk dánartíðni af völdum fíkniefna upp úr öllu valdi í og í kringum Napólí.

Almenningur varð æfur og krafðist aðgerða og svo fór að yfirvöld hjóluðu af áður óþekktum hætti í mafíuna.

Fjöldi meðlima var handtekinn og skelfing olli þess að hver höndin var upp á móti annarri. Bandalögin snerust hvert gegn öðru og fyrr en varði lágu 120 manns í valnum í innanbúðarátökum. Það kom að því að nafn Mariu Liccardi byrjaði að heyrast æ oftar og var gefin út hantökskipun á húsmóðurina sem fátt hafði verið vitað um.

Maria fór í felur en var sett á lista yfir hættulegustu glæpamenn Ítalíu. Þökk sé auði sínum og samböndum tókst Mariu að felast í tvö ár og halda stjórn sinni á samtökunum. Lét hún myrða fjölda mafíósa á þessum tíma, menn sem hún taldi ógna stöðu sinni á flóttanum. Þegar að hún taldi saksóknarann Luigi Bobbio vera komin helst til of langt á hæla sér í upphafi árs 2001 lét hún sprengja upp skrifstofur hans. Var sprengjan hugsuð sem aðvörun til Bobbio, og yfirvalda almennt, um að hætta rannsókn sinni. En Bobbio hljóp kapp í kinn og undir lögregluvernd náði hann að handtaka ríflega 70 af undirmönnum Mariu Liccardi.

En enginn vogaði sér að mæla orð um La Madrina og kusu frekar að sitja af sér langa dóma en að vitna gegn foringja sínum. Það var dauðadómur.

Nýlegt mynd af ömmunni sem kölluð hefur verið hættulegasta kona Ítalíu.

Aftur á flótta

Lögregla var nokkrum sinnum nálægt því að ná Mariu en hún var alltaf skrefi á undan og horfin þegar að löggæslu bar að garði. Alltaf skildi hún eftir sig lúxus á felustöðunum, marmaragólf, flygla, nuddpotta og fyrst flokks öryggiskerfi, svo fátt eitt sé nefnt. Loks hafðist að handtaka Mariu í júní 2001 eftir nafnlausa ábendingu. Hún var þá í bíl við Napólí og fylgdi lögreglu orðalaust eftir. Hún leit aftur á móti allt öðruvísi út en á þeim ljósmyndum sem lögregla hafði undir höndum og ljóst að hún hefði farið í lýtaaðgerðir á flóttanum. Eftirlifandi bróðir hennar Vincenzo tók við stjórntaumunum, að minnsta kosti af nafninu til, og stjórnaði glæpasamtökunum þar til hann var handtekinn árið 2008.

Ári síðar gekk Maria út úr fangelsinu sem frjáls kona eftir átta ára setu og hóf þegar að byggja aftur upp veldi sitt. Maria stjórnaði næstu tíu árin með ægivaldi, allt þar til yfirvöld létu aftur til skara skríða gegn mafíunni. Gefin var út handtökuskipun á Mariu en henni tókst enn og aftur að fara í felur. Allt þar til á flugvellinum fyrir tæpu ári.

Maria Licciardi situr í öryggisfangelsi í Napólí og bíður þess að hjól réttlætisins snúist á Ítalíu. Sökum þess hve umsvifamikið glæpaveldi hennar var má gera ráð fyrir að nokkur bið verði eftir réttarhöldum á meðan að yfirvöld undirbúa mál gegn henni. Hún er 71 árs gömul

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni
Fréttir
Í gær

Sverrir tjáir sig um handtökuna – „Hissa á þessu leikriti“

Sverrir tjáir sig um handtökuna – „Hissa á þessu leikriti“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“