Eins og tíundað hefur verið í fréttum undanfarið stendur yfir víðtæk lögreglurannsókn á starfsemi Innheimtustofnunar sveitarfélaga (IHS) og eru þrír menn með stöðu sakbornings í rannsókninni, hafa verið handteknir og yfirheyrðir en ekki úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þetta eru þeir Jón Ingvar Pálsson, fyrrverandi forstjóri stofnunarinnar, Bragi Rúnar Axelsson, fyrrverandi forstöðumaður útibús stofnunarinnar á Ísafirði, og Árni Rúnarsson, fyrrverandi kerfisfræðingur hjá stofnuninni.
Mennirnir hafa verið reknir frá störfum en rannsókn Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að IHS, sem annast innheimtu meðlagsgreiðslna, hafði með ólögmætum hætti útvistað verkefnum til einkafyrirtækis Braga, forstöðumanns útibús IHS á Ísafirði, lögmannastofunnar Offico. Samkvæmt gögnum sem DV hefur undir höndum fékk Offico greiddar rúmlega 43 milljónir króna frá IHS árið 2020.
Samkvæmt heimildum DV er þriðji sakborningurinn, kerfisfræðingurinn Árni Rúnarsson, náinn vinur Jóns Ingvars, fyrrverandi forstjóra IHS, og hækkaði Jón Ingvar mjög við hann laun.
Sjá einnig: Bragi fengið tæplega 50 milljónir frá Innheimtustofnun sveitarfélaga síðan vorið 2020
Athygli vekur að húsleitir hafa verið mjög víðtækar í rannsókninni þó að DV hafi ekki tölu á þeim. Hafa þær ekki takmarkast við þá þrjá menn sem hafa réttarstöðu sakbornings í málinu heldur einnig náð til nokkurra aðila sem tengjast Braga Axelssyni. Meðal þeirra er kona, lögfræðingur að mennt, sem er stjórnarformaður í ræstingafyrirtæki Braga, Vísnasöng, en það hefur sama aðsetur og lögmannastofan Offico. Vísnasöngur hefur undanfarin þrjú ár fengið greiðslur frá IHS fyrir ræstingar. Umrædd kona var starfsmaður IHS, sem og aðrir meðeigendur Vísnasöngs.
Samkvæmt heimildum DV var lagt hald á tölvur, usb-lykla og snjallsíma í húsleitunum.
Rannsóknin er svo viðamikil að marga grunar að hún snúist um eitthvað annað og meira en vafasama útvistun á verkefnum IHS til Braga.
Sjá einnig: Þrír handteknir vegna rannsóknar á Innheimtustofnun sveitarfélaga
Ljóst er að Bragi Axelsson hefur verið umsvifamikill og komið vel undir sig fótunum undanfarin ár. Auk þess að vera í vellaunuðu starfi sem forstöðumaður hjá IHS hefur hann skaffað lögmannastofu sinni, Offico, vænar tekjur með samningum við opinbera aðila. Auk verkefnanna frá IHS er Offico með stórt verkefni frá Ísafjarðarbær sem felst í innleiðingu persónuverndarlöggjafar fyrir Ísafjarðarbæ.
Eiginkona Braga, Bryndís Ósk Jónsdóttir, er bæjarritari Ísafjarðarbæjar og tók hún virkan þátt í því ferli sem leiddi til þess að verkefni fór til Offico. Bryndís var jafnframt um tíma í stjórn Offico. „Spurningin um hæfi hennar eða vanhæfi í málum sem varða Officio er mjög ofarlega á baugi,“ segir í frétt Bæjarins besta um málið í desember síðastliðnum.
Í fréttinni kemur fram að lögfræðistofunni Pacta, sem er með starfsstöð á Ísafirði, var ekki boðið að bjóða í verkefnið. Tilboð bárust frá Offico, Logos og Landslögum. Tilboð Offico þótti best og var gengið að því.