Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að vistmennirnir hafi margir fyrirgert rétti sínum til að fá húsnæði hjá félagsbústöðum og geti ekki útvegað sér annað húsnæði.
Fréttablaðið hefur eftir Arnari Hjálmtýssyni, sem rekur áfangaheimilið undir merkjum Betra lífs, að allt hafi verið gert til að bregðast við kröfum slökkviliðsins en engu að síður geti svo farið að ekki verði búið að uppfylla þær að fullu um næstu mánaðamót. Hann sagði að það verði mikið högg fyrir vistmennina ef þeir þurfa að fara á götuna.
Hann sagði að áfangaheimilið sé bráðabirgðalausn og til standi að flytja starfsemina í annað húsnæði. Hann sagði að frá því að starfsemin hófst hafi 12 einstaklingar látist, aðallega ungt fólk, eftir að hafa yfirgefið áfangaheimilið. „Bakkus er mjög grimmur,“ sagði hann.
Málið, er varðar brunavarnir áfangaheimilisins, hefur verið í gangi í tæpt ár en ekki hefur verið brugðist við athugasemdum bæjarins og slökkviliðsins að sögn upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar.