fbpx
Mánudagur 25.ágúst 2025
Fókus

Fordómalaus stelpa

„Öðruvísi er frábært og getur verið mikill styrkleiki“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 13. nóvember 2016 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bræðurnir Jóhann Fjalar og Nökkvi Fjalar sitja aldrei auðum höndum og hafa brasað ýmislegt, bæði saman og hvor í sínu lagi á undanförnum árum. Jóhann starfar sem flugfjarskiptamaður hjá Isavia en Nökkvi sér um sjónvarpsþáttinn Áttuna. Bræðurnir eru orkumiklir og glaðir og hafa mjög gaman af nýjum áskorunum. Létu þeir því ekki sitt eftir liggja þegar vinir þeirra, Hafsteinn Vilhelmsson og Gyða Kristjánsdóttir, eignuðust dóttur sína, Elísu Margréti Hafsteinsdóttur árið 2012. Nú hafa þeir sent frá sér bók um hana.

Elísa Margrét fæddist með heilasjúkdóm sem heitir Lissencephaly og olli því að hún var fjölfötluð, bundin við hjólastól og lærði ekki að tala á sinni stuttu ævi en Elísa Margrét lést vegna sjúkdómsins fyrr á þessu ári.

„Við viljum vekja krakka til umhugsunar um að allir eru öðruvísi.“
Jóhann Fjalar „Við viljum vekja krakka til umhugsunar um að allir eru öðruvísi.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hreyfði við öllum

„Elísa Margrét hreyfði við öllum sem kynntust henni og vorum við bræður svo heppnir að tilheyra þeim hópi. Eins og segir í bókinni þá var Elísa Margrét fordómalaus stelpa sem kenndi okkur svo margt. Okkar von er að sá boðskapur skili sér til lesenda í gegnum bókina þ.e. að sumir eru frá öðru landi, búa við mismunandi fjölskyldumunstur eða eru með einhvers konar fötlun. Við viljum vekja krakka til umhugsunar um að allir eru öðruvísi og það er frábært og getur verið heilmikill styrkur,“ segir Jóhann Fjalar sem er með fyrstu eintök bókarinnar í skottinu á bílnum sínum á meðan hann ræðir við blaðamann. Stoltið leynir sér ekki enda verkefnið tilfinningaþrungið og búið að vera í vinnslu um nokkra stund.

„Þessi bók varð til eftir að við héldum styrktartónleika í fyrra til styrktar fjölskyldu Elísu Margrétar. Tónleikarnir gengu vel og við, vinir Elísu Margrétar, sáum hvað það er í rauninni hægt að gera mikið til þess að hjálpa til við svona aðstæður. Í kjölfarið kom upp umræða um hvernig mætti styðja betur við Barnaspítalann sem var annað heimili Elísu Margrétar á meðan hún lifði. Þá datt okkur bræðrum í hug að skrifa barnabók þar sem Elísa væri aðalpersónan og allur ágóði bókarinnar myndi renna til Barnaspítalans. Við fengum Ingunni Kristjánsdóttur, móðursystur Elísu Margrétar, til liðs við okkur en hún teiknaði allar myndirnar í bókina.“

„Við reyndum eftir bestu getu að endurspegla karakter og sérstöðu Elísu Margrétar sjálfrar í bókinni.“

Reynsla og þekking úr mismunandi áttum

Bókin var á lokametrunum þegar Elísa Margrét kvaddi þennan heim í apríl síðastliðinn. Var bókin þá sett á bið um stund en hafist handa að nýju í sumar að ósk foreldra hennar sem vildu nota þessa leið til þess að halda minningu stelpunnar sinnar á lofti.

„Við reyndum eftir bestu getu að endurspegla karakter og sérstöðu Elísu Margrétar sjálfrar í bókinni. Hún er í hjólastól á öllum myndunum og hún segir aldrei neitt heldur koma aðeins hugsanir hennar fram í textanum því Elísa Margrét gat ekki talað í eigin lífi. En hún hafði tilfinningar og gat gert sig skiljanlega með öðrum hætti. Í bókinni kemur það einmitt fram, t.d. að hún veit að það er ljótt að skilja út undan og stríða.“

Bræðurnir segja að samstarf þeirra við gerð bókarinnar hafi gengið afar vel en þeir hafi verið að renna blint í sjóinn enda hvorugur komið nálægt bókarskrifum áður. Þeir segja samt að ólík reynsla þeirra hafi komið að góðum notum, t.d. vann Jóhann lengi með börnum og unglingum og Nökkvi hefur töluverða reynslu af fjölmiðlum.

„Við sátum saman þegar við skrifuðum bókina, köstuðum á milli okkar hugmyndum og hnoðuðum saman textann í bókinni. Við nýttum reynslu og þekkingu úr mismunandi áttum og reyndum svo að byggja þetta sem mest á Elísu Margréti sjálfri. Við erum mjög ánægðir með árangurinn og aldrei að vita nema við höldum samstarfinu áfram. Hvort sem það verður í formi fleiri bóka um Elísu Margréti eða með öðrum hætti, það kemur bara í ljós.“

Það er augljóst að þeir bræður eru með fleiri verkefni í pípunum. Útgáfuhóf vegna bókarinnar, Vinir Elísu Margrétar, verður haldið í Hagkaupum í Kringlunni sunnudaginn 13. nóvember klukkan 15.00 og hvetur Jóhann sem flesta til þess að mæta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Serena Williams um af hverju hún byrjaði á þyngdarstjórnunarlyfi

Serena Williams um af hverju hún byrjaði á þyngdarstjórnunarlyfi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ný plata með Laufeyju komin út

Ný plata með Laufeyju komin út
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslandsvinur lést í mótorhjólaslysi

Íslandsvinur lést í mótorhjólaslysi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hildur lýsir upplifun sinni hjá tannlækninum – „Sé tækin þeirra eins og monstertruck…einhver að tengja?“

Hildur lýsir upplifun sinni hjá tannlækninum – „Sé tækin þeirra eins og monstertruck…einhver að tengja?“