„Hann fylgist greinilega vel með mér á Facebook en það er öllu verra ef hann mistúlkar hlutina,“ segir Vigdís Hauksdóttir í samtali við DV. Tilefnið er frétt Eiríks Jónssonar um að hún sé komin í fullt starf hjá Blómavali við blómaskreytingar.
Svo er þó ekki heldur tekur þingkonan fyrrverandi þátt í tveimur blómaskreytingakvöldum fyrirtækisins í aðdraganda jólanna. „Ég hef tekið þátt undanfarin ár í þessum árlegu blómaskreytingakvöldum. Mér finnst þetta rosalega gaman og svo er gott að halda sér við. Þetta er líka frábær leið til þess að komast í jólaandann,“ segir Vigdís.