fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Pressan

Umhugsunarverð varnaðarorð frá Barack Obama um stöðu heimsmála

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 18. júlí 2018 06:58

Barack Obama í ræðustól.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Barack Obama, fyrrum forseti Bandaríkjanna, er nú í heimsókn í Suður-Afríku í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli frelsishetjunnar Nelson Mandela. Í ræðu sem hann flutti í Jóhannesarborg í gær, degi eftir leiðtogafund Donald Trump og Vladimir Pútín í Helsinki, varaði Obama við uppgangi popúlistahreyfinga sem stefna að einræðisstjórnum víða um heim. Hann skopaðist einnig að „skorti á blygðun hjá stjórnmálaleiðtogum“ sem ljúga.

Obama hefur gert það að ákveðinni list að gagnrýna þá stefnu og þau gildi sem Donald Trump stendur fyrir án þess að nefna hann á nafn. Í ræðu sinni í gær ræddi Obama einmitt um nokkur af helstu málum Trump eins og afneitun á loftslagsbreytingum, lokuð landamæri og verndarstefnu. Obama var að mati margra stjórnmálaskýrenda að vara við pólitískri heimsmynd Trump.

„Stjórnmál ótta og reiði og niðurskurðar eru að ryðjast fram á sjónarsviðið. Þessi tegund stjórnmála er nú á hreyfingu. Hún hreyfist á hraða sem hefði virst ómögulegur fyrir nokkrum árum. Ég er ekki hrakspármaður, ég er einfaldlega að skýra frá staðreyndum. Horfið í kringum ykkur – heljarmenna stjórnmál eru að sækja í sig veðrið.“

Sagði hann og bætti við að þeir sem eru við völd reyni að gera lítið úr öllum stofnunum og venjum sem gefa lýðræði merkingu.

Þessi ummæli Obama má skoða í ljósi þess sem Trump sagði á fréttamannafundi í Helsinki að afloknum fundi hans með Pútín. Þar sagðist Trump frekar trúa Pútín en bandarískum leyniþjónustum varðandi meinta íhlutun Rússa í bandarísku forsetakosningarnar 2016. Ummæli sem Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir af samherjum sínum og andstæðingum. Viðbrögðin við þessum ummælum hans voru svo hörð að í gær neyddist hann til að draga í land og reyna að útskýra að hann hefði mismælt sig en honum virðist ekki hafa tekist vel upp í því og líklega er málinu ekki lokið.

Obama gerði einnig grín að hvernig stjórnmálamenn ljúga og minnti áheyrendur á mikilvægi staðreynda:

„Þið verðið að trúa á staðreyndir. Án staðreynda er enginn grundvöllur fyrir samvinnu. Ef ég segi að þetta sé ræðupallur og þið segið að þetta sé fíll, þá verður erfitt fyrir okkur að vinna saman.“

Sagði hann og bætti við:

„Ég finn ekki sameiginlegan grundvöll ef einhver segir að loftslagsbreytingar séu einfaldlega ekki að eiga sér stað á sama tíma og nær allir vísindamenn heimsins segja okkur að þær séu að eiga sér stað. Ég veit ekki hvar ég á að byrja á að ræða þetta við ykkur. Ef þið segið að þetta sé vel útfærð blekking, hvar eigum við þá að byrja?“

Og hélt síðan áfram:

„Fólk skáldar bara hluti. Það býr bara hluti til. Við sjáum þetta í vexti áróðurs á vegum ríkisvaldsins. Við sjáum þetta á internetinu. Við sjáum þetta á ógreinilegum mörkum milli frétta og skemmtunar. Við sjáum algjöran skort á blygðun meðal stjórnmálaleiðtoga þegar þeir eru staðnir að lygum, þeir bæta þá bara í og halda bara áfram að ljúga.“

Einnig varaði hann við árásum á frelsi fjölmiðla og sagði að ritskoðun og opinber stjórn á fjölmiðlum færi vaxandi og að samfélagsmiðlar væru notaðir til að kynda undir hatri, áróðri og samsæriskenningum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Ökumaður í hörmulegu bílslysi í Flórída á ekki von á góðu

Ökumaður í hörmulegu bílslysi í Flórída á ekki von á góðu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Leyniskyttan sem setti heimsmet skýrir frá – Svona langan tíma tók þetta

Leyniskyttan sem setti heimsmet skýrir frá – Svona langan tíma tók þetta
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Klikkaðasta hugmyndin sem nokkur hefur nokkru sinni fengið“ – Gæti bjargað okkur í þriðju heimsstyrjöldinni

„Klikkaðasta hugmyndin sem nokkur hefur nokkru sinni fengið“ – Gæti bjargað okkur í þriðju heimsstyrjöldinni
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Krísa af stærstu gerð“

„Krísa af stærstu gerð“