
Mataráhrifavaldurinn Michael Duarte er látinn. Fjölskylda hans greindi frá andlátinu í yfirlýsingu þar sem hann er sagður hafa látist af slysförum. Duarte hélt úti vinsælum samfélagsmiðlum undir nafninu foodwithbearhands.
„Sólarhringur er liðinn síðan tilvera mín snerist á hvolf. Ég er dofin, reið og döpur. Orð geta ekki lýst þessum sársauka. Ég héld aldrei að ég myndi skrifa þetta,“ segir í færslu ekkju áhrifavaldsins sem hún birti á Instagram á sunnudaginn, en að sögn aðstandenda lést Duarte í hörmulegu slysi.
Nú er þó komið á daginn að ekki var um eiginlegt slys að ræða. Duarte var skotinn til bana af lögreglunni eftir að áhrifavaldurinn ógnaði fólki með hníf. Samkvæmt skýrslu í málinu var hringt í Neyðarlínu og tilkynnt um mann í andlegu ójafnvægi sem var að hóta fólki með hníf. Þegar lögreglu bar að garði hitti hún fyrir Duarte sem þá gekk upp að kvenkyns lögregluþjón og hlýddi ekki fyrirmælum um að afvopnast og leggjast í jörðina. Eftir að hafa ítrekað verið beðinn um að leggja frá sér hnífinn og leggjast á jörðina ákvað Duarte að ráðast að lögreglukonunni öskrandi: Ég ætla að drepa þig. Þá var hann skotinn til bana.
Duarte var 36 ára gamall og lætur eftir sig eiginkonu og sex ára dóttur.