
Af þeim sökum hefur hún sótt um hæli í Bandaríkjunum með stuðningi Elons Musks, ríkasta manns heims og bandamanns Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Naomi er í hópi þeirra sem hafa afneitað því að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu að eiga sér stað. Vakti hún fyrst athygli fyrir sjónarmið sín þegar hún var unglingur og hefur hún til dæmis haldið fjölda fyrirlestra um málið.
Í umfjöllun Daily Mail kemur fram að Naomi líti svo á að stuðningur hennar við stjórnmálaflokkinn AfD, Valkostur fyrir Þýskaland, hafi gert hana að skotmarki.
Meðal baráttumála flokksins eru strangari innflytjendalöggjöf og andstaða við loftslagsstefnu ESB og svokallaða græna skattlagningu. Fyrr á þessu ári var flokkurinn settur á lista yfir öfgahreyfingar í Þýskalandi.
Í fréttinni kemur fram að bandarísk yfirvöld séu með til skoðunar að veita þeim sem hafa orðið fyrir ofsóknum vegna skoðana sinna forgang þegar kemur að veitingu landvistarleyfis og þetta hyggist Naomi nýta sér. Hefur því verið haldið fram að hvítum Evrópubúum og hvítum Suður-Afríkubúum verði veittur sérstakur forgangur.
Naomi og Musk hafa átt í samskiptum í gegnum tíðina og hefur Musk til að mynda ýtt undir dreifingu á færslum hennar. Segir hún að Musk sé reiðubúinn að veita henni aðstoð.
„Elon hefur óttast að fara til Evrópu og veit að hættan er mjög mikil; hann hefur staðfest það persónulega við mig,“ sagði hún við Fox News Digital. „Þá tók ég ákvörðun um að sækja sjálf um hæli. Hann gaf mér sitt samþykki fyrir því.“
Hún segir að hún dvelji nú tímabundið „löglega“ í Bandaríkjunum og bíði viðtals sem vonandi tryggir henni varanlegt landvistarleyfi.
„Markmiðið mitt er að verða bandarískur ríkisborgari í framtíðinni, því þetta land hefur gefið mér svo mikla von,“ segir hún.
Naomi heldur því fram að þýsk stjórnvöld hafi njósnað um hana og ógnað í mörg ár og hún óttist að verða send í fangelsi. Þá hafi andstæðingar hennar hótað henni lífláti.
„Ég fór til þýsku lögreglunnar og mér var sagt að hún gæti ekkert gert í málinu nema ég hafi í raun verið nauðgað eða drepin,“ sagði hún. „Ég fæ enga vernd frá þýska ríkinu þótt það sé hætta á að ég verði drepin.“
Bandaríkjamenn fóru að taka eftir henni árið 2020 þegar íhaldssama hugveitan Heartland Institute gerði YouTube-myndband sem stillti Naomi upp gegn Thunberg. „Ég er með góðar fréttir handa ykkur. Heimurinn er ekki að farast vegna loftslagsbreytinga,“ sagði Naomi meðal annars í myndbandinu.