
Um er að ræða einhverja langdrægustu eldflaug sem gerð hefur verið og kallast hún Burevestnik, eða „Fljúgandi Tsjernóbíl“ eins og rússneskir fjölmiðlar kalla hana.
Í frétt Mail Online kemur fram að Pútín Rússlandsforseti, klæddur í hermannabúning, hafi rætt eldflaugina í kvöldheimsókn á stjórnstöð rússneska hersins um helgina þar sem hann fékk meðal annars upplýsingar um stöðu mála í Úkraínu frá herforingjanum Valerí Gerasímov.
Lýsti Pútín því að Rússland væri með hæsta stig kjarnorkuviðbúnaðar í heimi og stæði öllum kjarnorkuríkjum framar.
Samkvæmt yfirlýsingum Gerasímovs var eldflaugin prófuð þann 21. október síðastliðinn. Hún hafi flogið í 15 klukkustundir samfleytt og farið um 14.000 kílómetra leið. Tók hann fram að hún gæti þó flogið lengur og farið lengra ef þörf er á. Um er að ræða kjarnorkuknúna eldflaug og sagði Pútín að öll helstu markmiðin fyrir prófunina hefðu náðst.
Sagði hann að Burevestnik væri hönnuð til að geta svifið um loftið í marga daga og komist fram hjá háþróuðum loftvörnum Vesturlanda. Eldflaugin sé þó enn ekki tilbúin til notkunar í raunverulegum hernaði.
Á meðan Pútín hélt ræðu sína var rússneskum eldflaugum skotið á íbúðarhús í Kænugarði í Úkraínu. Að minnsta kosti þrír létust og hátt í 30 slösuðust, þar á meðal sjö börn. Úkraínsk yfirvöld sögðu árásina hluta af áframhaldandi „hryðjuverkum“ Rússa gegn óbreyttum borgurum.
Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, fordæmdi árásirnar harðlega og sagði þær skýrt dæmi um stefnu yfirvalda í Moskvu til að eyðileggja daglegt líf almennra borgara.
„Þetta eru árásir á íbúðarhús, á börn, á borgaralega innviði,“ sagði hann. „Síðustu vikuna hafa Rússar framkvæmt nær 1.200 drónaárásir, skotið yfir 1.300 stýrðum sprengjum og skotið tugum eldflauga á Úkraínu.“