Breiðablik þarf að borga KSÍ fyrir það að fá Ólaf Inga Skúlason til starfa. Þetta staðfestir Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdarstjóri KSÍ við 433.is.
Ólafur Ingi hætti sem U21 árs landsliðsþjálfari í dag og tók við þjálfun Breiðabliks eftir að Halldór Árnason var rekinn úr starfi.
Eystein segir í samtali við 433.is að beiðni hafi borist frá Breiðablik í gær um að fá að ræða við Ólaf Inga, gaf Knattspyrnusambandið grænt ljós á það.
Þegar Ólafur Ingi var klár í bátana þurfti Breiðablik svo að semja við KSÍ. „Hann var samningsbundinn okkur og það þurfti því að semja um vistaskiptin,“ segir Eysteinn Pétur í samtali við 433.is.
Ólafur Ingi hefur starfað hjá KSÍ síðustu ár, fyrst sem U19 ára þjálfari og nú síðast sem þjálfari U21 liðsins. Hann stýrði sínum síðasta leik í síðustu viku en hans fyrsta verkefni með Breiðablik er á fimmtudag í Sambandsdeildinni.