Samkvæmt Bild í Þýskalandi mun Real Madrid láta Antonio Rüdiger fara þegar samningur hans rennur út í lok tímabilsins.
Rüdiger, 32 ára, gekk til liðs við spænska stórliðið á frjálsri sölu frá Chelsea sumarið 2022 og hefur átt þrjú mjög góð ár á Bernabéu vellinum. Þýski miðvörðurinn hefur verið lykilmaður hjá Real og spilað 157 leiki, þar af unnið átta titla, en hann hefur fallið niður í goggunarröðina undir stjórn Xabi Alonso á þessu tímabili.
Að sögn BILD mun samningurinn, sem rennur út næsta sumar, ekki verða framlengdur. Alonso er sagður hafa efasemdir um stöðugleika og líkamlegt ástand Rüdigers eftir að hann hefur glímt við mörg smærri meiðsli síðustu ár.
Rüdiger er nú frá keppni vegna meiðsla í lær sem hann fékk í byrjun september og er ekki væntanlegur aftur fyrr en í nóvember. Í fjarveru hans hafa Éder Militão og Dean Huijsen styrkt stöðu sína sem miðverðir liðsins og staðið sig vel.
Þá er Rüdiger sagður einn launahæsti leikmaður Real Madrid og með rúmlega 10 milljónir evra í árslaun. Þar sem Alonso lítur nú á hann sem varamann, er launapakkinn talinn of kostnaðarsamur.