Evangelos Marinakis, eigandi Nottingham Forest, er farinn að teikna upp lista með mögulegum arftökum Ange Postecoglou í stjórastarfið.
Daily Mail fjallar um málið, en Postecoglou hefur farið hörmulega af stað í starfi og ekki unnið neinn af fyrstu sjö leikjum sínum.
Marinakis kallar ekki allt ömmu sína en Ástralinn lifði þó af landsleikjahléið og fær tækifæri til að stýra liðinu gegn Chelsea um helgina.
Sénsunum fer þó fækkandi og verður Postecoglou að snúa genginu við í næstu leikjum til að halda starfinu.
Sean Dyche er sagður líklegasti arftaki hans ef illa fer en Marinakis hefur einnig augastað á Marco Silva, stjóra Fulham. Það yrði þó ansi erfitt að fá hann á miðju tímabili.