Jamie Carragher, fyrrum varnarmaður Liverpool og nú sérfræðingur hjá Sky Sports, segir að svör Mikel Arteta við gagnrýni um varfærin leikskipulög Arsenal haldi ekki vatni og gagnrýnir sérstaklega undarleg ummæli stjóra liðsins í viðtali í vikunni.
Arteta hefur sætt töluverðri gagnrýni frá bæði stuðningsmönnum og sérfræðingum eftir 1-1 jafntefli gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi þar sem liðsskipan Arsenal þótti of varkár gegn City-liði sem margir töldu ekki í toppstandi.
Á blaðamannafundi fyrir deildabikarleikinn í vikunni svaraði Arteta fyrir sig, meðal annars með því að kalla David Raya sóknarsinnaðasta markmann deildarinnar og benda á sóknarlega eiginleika flestra leikmanna sinna.
Carragher er þó ekki sannfærður og segir þessi rök ekki standast raunverulega greiningu á liðinu sem mætti City.
„Hann byrjaði á markverðinum og sagði: ‘Við erum með sóknarsinnaðasta markmanninn í deildinni’,“ sagði Carragher í Stick to Football hlaðvarpinu.
„Svo talaði hann eitthvað um bakverðina og ég hugsaði með mér, það stenst ekki, því bakverðirnir hans eru miðverðir.“
„Ég lék sjálfur í fjögurra manna varnarlínu hjá Gérard Houllier og það voru fjórir miðverðir. Það er ekki langt frá því sem Arsenal hefur núna.“
„Svo nefnir hann Zubimendi, allt í lagi, skapandi leikmaður í sexunni. Síðan talaði hann um kantmann sem spilaði sem framherji á síðasta tímabili. Hann var eiginlega að reyna að afsanna gagnrýnina, en það hélt ekki vatni.“
„Ég skil vel að hann vilji verja sig og hlusta ekki á gagnrýni, en ég vona að hann sé ekki að segja þetta sama við þjálfarateymið og leikmennina. Því það sem hann var í raun að segja ,það bara passaði ekki við raunveruleikann.“