Arnar Gunnlaugsson segir að það verði sérstök stund fyrir sig að stýra íslenska landsliðinu á Laugardalsvelli eftir rúma viku.
Ísland hefur leik í undankeppni HM á föstudag í næstu viku gegn Aserbaídsjan hér heima. Liðið mætir svo Frökkum ytra fjórum dögum síðar.
Arnar hefur stýrt fjórum landsleikjum frá því hann tók við í byrjun árs en leikurinn í næstu viku verður sá fyrsti á Laugardalsvelli.
„Það verður mjög stór stund fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég fór á fyrsta leikinn minn hérna 1977, það er búið að breyta miklu og völlurinn er í heimsklassa leyfi ég mér að fullyrða,“ segir Arnar við 433.is.
Afar mikilvægt er að vinna leikinn við Aserbaídsjan hér heima, en um lakasta lið riðilsins á pappír er að ræða.
„Ég veit að það verður auðvelt að fylla völlinn gegn Frökkum en að hjálpa okkur gegn Aserbaídsjan væri ómetanlegt.“